Fótbolti

Dóttir auð­kýfings orðin for­seti fé­lags 23 ára gömul

Sindri Sverrisson skrifar
Claudia Rizzo var glaðbeitt eftir að hafa verið kynnt sem nýr forseti Ternana.
Claudia Rizzo var glaðbeitt eftir að hafa verið kynnt sem nýr forseti Ternana.

Hin 23 ára gamla Claudia Rizzo hefur skráð sig í sögubækurnar með því að verða yngsta konan sem ráðin er forseti ítalsks knattspyrnufélags.

Rizzo hefur verið útnefnd forseti Ternana sem er aldargamalt félag með lið í C-deild karla.

Það gæti hafa hjálpað henni við að fá starfið að pabbi Claudiu, Gianluigi Rizzo, er eigandi Ternana. Þessi frumkvöðull og milljarðamæringur keypti félagið fyrir mánuði síðan og var ekki lengi að finna rétta manneskju í forsetastarfið.

Claudia segist hlakka mikið til að taka til starfa, en hún stýrði áður rekstri ólífuolíuverksmiðju fjölskyldunnar.

„Ég er stolt af því að taka við stöðu forseta félags með svo mikla sögu eins og Ternana Calcio, á 100 ára afmælisári félagsins.

Markmiðið okkar er að byggja upp traust, nútímalegt og gagnsætt verkefni sem er með fólk og gildi íþrótta í forgangi,“ sagði Claudia og bætti við að hún væri gríðarlegur aðdáandi Ternana en gerði sér vel grein fyrir því að það væri erfitt verkefni fyrir höndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×