Fótbolti

Funduðu um 64 liða HM í Trump-turninum

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi og félagar í Argentínu eru ríkjandi heimsmeistarar eftir sigur á 32 liða HM í Katar 2022.
Lionel Messi og félagar í Argentínu eru ríkjandi heimsmeistarar eftir sigur á 32 liða HM í Katar 2022. Getty/David Ramos

Gianni Infantino, forseti FIFA, fundaði í Trump-turninum í New York í gær með forkólfum úr suðurameríska knattspyrnusambandinu, CONMEBOL, um þá hugmynd að á HM karla árið 2030 muni hvorki fleiri né færri en 64 lið taka þátt.

Aðildarsambönd FIFA eru 211 talsins svo að ef 64 lið yrðu með á HM myndi það þýða að tæplega þriðjungur landsliða heimsins yrði á mótinu.

HM í Katar 2022 var síðasta 32 liða mótið og verða 48 lið með á HM í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada næsta sumar. Það jók lítillega möguleika Íslands á að komast á HM þar sem Evrópa á 16 örugg sæti í stað 13 áður.

Hugmynd Alejandro Domínguez, forseta CONMEBOL, og félaga hans er svo að fjölga liðum og stækka mótið enn frekar, með 64 liða HM árið 2030.

Hugmyndin var fyrst kynnt í mars en í gær fundaði Infantino með Dominguez, formönnum argentínska og úrúgvæska knattspyrnusambandsins, sem og forseta Paragvæ, Santiago Pena, og forseta Úrúgvæ, Yamandú Orsi.

Þeir ræddu hugmyndina frekar en þetta var í fyrsta sinn sem að forkólfar CONMEBOL gátu kynnt málið sjálfir fyrir Infantino.

„Við trúum á sögulegt HM 2030!“ sagði Domínguez á samfélagsmiðlum eftir fundinn.

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, hefur sagt 64 liða HM vera slæma hugmynd. Gagnrýnendur hugmyndarinnar benda á að með slíkri stækkun minnki gæði mótsins auk þess sem vægi undankeppna minnki.

Heimsmeistaramótið 2030 verður haldið í sex löndum, í þremur heimsálfum. Mótið fer fram hundrað árum eftir fyrsta HM sem fram fór í Úrúgvæ og áætlað er að einn leikur verði spilaður þar. Paragvæ, Argentína, Spánn, Portúgal og Marokkó verða einnig gestgjafar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×