Innlent

„Við erum notuð sem hræðsluáróður fyrir verðandi for­eldra“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Margrét Oddný Leópoldsdóttir segir erfitt fyrir fólk með einhverfu að sitja undir umræðu um hvernig megi koma í veg fyrir tilvist þess.
Margrét Oddný Leópoldsdóttir segir erfitt fyrir fólk með einhverfu að sitja undir umræðu um hvernig megi koma í veg fyrir tilvist þess. Vísir/Stefán

Einhverf kona segir áhuga Bandaríkjaforseta á að koma í veg fyrir einhverfu með ráðum og dáð beinlínis vera fáránlega. Leggja eigi áherslu á að hjálpa fólki með einhverfu að vera til, frekar en að koma í veg fyrir að það verði til.

„Að taka tylenol er... ekki gott. Ég skal bara segja það, það er ekki gott.“

Þetta sagði Donald Trump á fundi í Hvíta húsinu í gær, þegar hann tilkynnti um að læknum í Bandaríkjunum yrði ráðlagt að láta óléttar konur ekki taka verkjalyfið tylenol, sem er sama lyf og kallast parasetamól hér á landi. Ástæðan er sú að hann og heilbrigðisráðherra landsins, Robert Kennedy yngri, hafa tröllatrú á umdeildum rannsóknum sem tengja notkun lyfsins við einhverfu í börnum.

Í dag gag Lyfjastofnun út tilkynningu, þar sem áréttað er að engin ný gögn gefi ástæðu til að ætla að þetta sé rétt. Óléttum konum sé óhætt að nota lyfið við verkjum og hita.

„Algjör vitleysa“

Einhverf kona segir umræðuna hreint og beint kjánalega.

„Og það er vitað að þetta er bara í rauninni algjör vitleysa, og engar rannsóknir sem sýna þetta. Ég skil ekki alveg hvað menn eru uppteknir af því að reyna að komast að því af hverju við erum til,“ segir læknirinn Margrét Oddný Leópoldsdóttir, sem er í fræðsluteymi Einhverfusamtakanna.

Sérstaklega sé umræðan í Bandaríkjunum á villigötum.

„Við erum notuð sem hræðsluáróður fyrir verðandi foreldra, þegar það er vitað að einhverfa er fyrst og fremst ættgeng, liggur í ættum. Það er enginn faraldur í gangi, það hefur bara ekki tekist að finna okkur núna fyrr en í seinni tíð,“ segir Margrét.

Erfitt að vera til í svo fordómafullri umræðu

Það sé lýjandi að sitja stöðugt undir orðræðu um að einhverfa sé eitthvað skelfilegt sem þurfi að forðast.

„Ég vildi að áherslan færi meira á það að hætta að vera svona hrædd um að við verðum til, og frekar að hjálpa okkur að vera til. Núna er gulur september og sjálfsvígsforvarnir í gangi, og okkar hópur er sá sem er í mestri hættu. Það er kannski ekkert skrýtið þegar fordómarnir gagnvart okkur eru svona miklir. Þá er dálítið erfitt að vera til, í svona fordómafullri umræðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×