Fótbolti

Frestaður stór­leikur skarast á við af­hendingu Gull­knattarins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hafa byrjað tímabilið frábærlega.
Hafa byrjað tímabilið frábærlega. EPA/TERESA SUAREZ

Stórleik Marseille og París Saint-Germain í efstu deild Frakklands var frestað í gær, sunnudag. Leikurinn fer fram í kvöld, á sama tíma og Gullknötturinn – Ballon d‘Or – verður afhentur. Þar eru Evrópumeistarar PSG líklegir til að raka að sér verðlaunum.

Leikur fjendanna í Marseille og PSG var frestað þar sem gríðarlegum stormi var spáð í Marseille á sunnudag. Þar sem ekki var hægt að tryggja öryggi leikmanna og áhorfenda ef veðurspáin myndi rætast var ákveðið að fresta leiknum. Það kemur sér virkilega illa fyrir PSG sem er ósigrað á toppi deildarinnar.

Frakklands- og Evrópumeistararnir eru eðlilega taldir líklegir til afreka á afhendingu kvöldsins sem fer fram við hátíðlega athöfn eins og undanfarin ár.

Sóknarmaðurinn Ousmane Dembélé er til að mynda talinn líklegastur til að hreppa Gullknöttinn eftir magnaða frammistöðu á síðustu leiktíð. Þá eru níu aðrir leikmenn liðsins tilnefndir.

Dembélé er að glíma við meiðsli sem og Désiré Doué svo ef þeir fá leyfi frá þjálfara sínum Luis Enrique gætu þeir verið viðstaddir verðlaunaafhendinguna.

Afhending Gullknattarins verður í beinni útsendingu á SÝN Sport Viaplay. Hefst útsending klukkan 19.00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×