Fótbolti

Moyes hefur aldrei unnið leik á Anfi­eld

Siggeir Ævarsson skrifar
David Moyes og Arne Slot á hliðarlínunni á Goodison Park í febrúar.
David Moyes og Arne Slot á hliðarlínunni á Goodison Park í febrúar. Vísir/Getty

David Moyes, stjóri Everton, heimsækir Anfield í dag í 23. sinn sem þjálfari en honum hefur ekki enn tekist að sækja sigur í greipar Liverpool á þeirra heimavelli.

Moyes hefur stýrt fjórum liðum í þessum leikjum, Everton, West Ham, Manchester United og Sunderland. Hann stýrði Everton fyrst á Anfield árið 2002 og náði 0-0 jafntefli en alls hafa sjö af þessum 22 leikjum endað með jafntefli.

Everton hefur í raun aðeins sótt einn sigur á Anfield á þessari öld en leikurinn í dag verður þrettánda tilraun Moyes sem stjóri Everton til að sækja sigur á heimavelli erkifjendanna í Liverpool.

Frá því að Moyes tók aftur við stjórnartaumunum hjá Everton í janúar hefur orðið algjör viðsnúningur á gengi liðsins. Hann stýrði liðinu örugglega úr fallbaráttu og raunar hafa aðeins fjórir stjórar í deildinni sótt fleiri stig á þessum tíma.

Hvort Moyes tekst að brjóta Anfield bölvunina í dag á eftir að koma í ljós en borgarslagurinn hófst núna klukkan 11:30 og er í beinni textalýsingu hér á Vísi og að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×