Handbolti

Tíma­bilið byrjar vel hjá læri­sveinum Guð­jóns Vals

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson hefur stimplað sig rækilega inn í þjálfun eftir að leikmannaferlinum lauk.
Guðjón Valur Sigurðsson hefur stimplað sig rækilega inn í þjálfun eftir að leikmannaferlinum lauk. vísir / anton

Gummersbach sótti 31-23 sigur í heimsókn sinni til Minden í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðarsonar hafa þar með unnið fjóra af fyrstu fimm leikjum tímabilsins og sitja í þriðja sæti, stigi á undan Lemgo sem gerði 35-35 jafntefli við HSV í kvöld. Einar Ólafsson komst ekki á blað fyrir HSV í þeim leik.

Elliði Snær Viðarsson er einn af línumönnum Gummersbach en tókst ekki að skora úr skotinu sem hann tók gegn Minden í kvöld.

Gummersbach hefur nú jafnað toppliðin tvö að stigum en Magdeburg og Kiel eiga leiki til góða. Guðjón Valur er orðaður við þjálfarastarf Kiel næsta sumar. 

Jóhannes fer vel af stað undir stjórn Arnórs

Jóhannes Berg Andrason fer vel af stað með Team Tvis Holstebro í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta og skoraði þrjú mörk í kvöld þegar lærisveinar Arnórs Atlasonar lágu fyrir Sönderjyske.

Naumt tveggja marka tap varð niðurstaðan, 31-29, en Jóhannes átti sinn besta leik hingað til á tímabilinu og lagði upp eitt mark auk þeirra þriggja sem hann skoraði. TTH situr í sjötta sæti deildarinnar með tvo sigra og tvö töp.

Á sama tíma í Danmörku tapaði Fredericia 31-26 á útivelli gegn Nordsjælland. Lærisveinar Guðmundar Guðmundsson eru í tíunda sæti deildarinnar með einn sigur úr fyrstu fjórum leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×