Fótbolti

Rekinn eftir tapið fyrir Qarabag og Mourinho gæti tekið við

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho gæti snúið aftur í portúgalska boltann eftir rúmlega tuttugu ára fjarveru.
José Mourinho gæti snúið aftur í portúgalska boltann eftir rúmlega tuttugu ára fjarveru. epa/ERDEM SAHIN

Bruno Lage var látinn taka pokann sinn sem knattspyrnustjóri Benfica eftir 2-3 tap fyrir Qarabag í Meistaradeild Evrópu í gær. José Mourinho er orðaður við liðið.

Benfica kastaði frá sér tveggja marka forystu gegn Qarabag í gær og forráðamenn félagsins voru ekki lengi að bregðast við og létu Lage fara.

Rui Costa, forseti Benfica, sagðist búast við því félagið yrði búið að ráða nýjan stjóra fyrir leikinn gegn AFS í portúgölsku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Mourinho, sem var rekinn frá Fenerbahce á dögunum, þykir langlíklegastur til að taka við Benfica og samkvæmt Fabrizio Romano eru viðræður milli aðilanna komnar vel á veg.

Benfica var fyrsta félagið sem Mourinho stýrði á stjóraferlinum. Hann stoppaði þó stutt við hjá Benfica og var aðeins með liðið í ellefu leikjum.

Benfica hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum í portúgölsku úrvalsdeildinni og gert eitt jafntefli.

Lage tók við Benfica í september í fyrra. Undir hans stjórn vann liðið deildabikarinn en endaði í 2. sæti portúgölsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Benfica og Fenerbahce mættust í umspili um sæti í deildarkeppni Meistaradeildarinnar þar sem portúgalska liðið hafði betur, 0-1 samanlagt. Eftir einvígið var Mourinho rekinn frá Fenerbahce.


Tengdar fréttir

Magnaður viðsnúningur hjá Aserum

Qarabag sótti frábæran 3-2 útisigur í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar, eftir að hafa lent tveimur mörkum undir gegn Benfica í Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×