Innlent

Ekki blettur á ferlinum að missa vinnuna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir Sonju Ýr og félaga í verkalýðshreyfingunni hafa verið hafða með í ráðum.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir Sonju Ýr og félaga í verkalýðshreyfingunni hafa verið hafða með í ráðum. Vísir

Fjármálaráðherra segir áform um afnám á áminningarskyldu sem undanfara uppsagna starfsmanna ríkisins ekki fela í sér þá skerðingu sem leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafa fullyrt í opinberri umræðu. Hann hafnar því að hafa ekki átt í samráði við verkalýðshreyfinguna áður en áformin voru kynnt.

Greint var frá því í vikunni að fjármálaráðherra hafi birt frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda þar sem áformað er að afnema áminningarskyldu sem undanfara uppsagnar starfsmanna ríkisins og tímabundinnar lausnar þeirra. Áformin hafa verið harðlega gagnrýnd af verkalýðsleiðtogum sem hafa sagt áformin fela í sér einhliða skerðingu á réttindum launafólks. Þá sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB það fordæmalaust að slík skerðing væri lögð til án samráðs. 

Verði áfram stjórnsýsluákvörðun

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra blæs á þá gagnrýni. „Ég tek nú ekki fyllilega undir þetta. Þessar hugmyndir hafa verið kynntar fyrir verkalýðshreyfingunni. Samráð felst í því að hlusta á sjónarmið og síðan þarf að meta á hverjum tíma hvort farið er eftir þeim sjónarmiðum eða ekki en á þeirra sjónarmið hefur verið hlustað.“

Sonja hefur sagt að áminningarskylda opinberra starfsmanna tíðkist á almennum og opinberum vinnumarkaði á hinum Norðurlöndunum þar sem enginn fetti fingur út í slíkt fyrirkomulag. Daði segir það sérstaka framsetningu. „Þetta fyrirkomulag sem er á Íslandi er séríslenskt. Það er ekki í þessu sú skerðing sem verið er að gefa til kynna vegna þess að það verður áfram stjórnsýsluákvörðun að segja fólki upp, þannig það þarf að rökstyðja hana og allt það.“

Telur nýtt fyrirkomulag manneskjulegra

Núverandi fyrirkomulag hafi verið við lýði í þrjátíu ár og hafi verið þeim annmörkum háð að ekki hafi verið hægt að beita því. Breytingunum sé ekki miðað gegn neinum heldur sé markmiðið að bæta kjör almennra starfsmanna ríkisins eins og kostur sé.

„Þetta hefur verið svo þröngt skilyrði að fáir hafa treyst sér til að nýta það og í þeim fáu tilvikum sem það er nýtt er það raunverulega svo hart vegna þess að því er svo sjaldan beitt að þetta verður blettur á ferli viðkomandi, það er engin ástæða til þess. Fólk getur ekki hentað til ákveðinna starfa af ýmsum ástæðum, þannig ég held þvert á móti að þetta geti orðið manneskjulegra, svo vil ég minna á það að þessi breyting nær líka til stjórnenda þannig þeir eru þá líka að missa þá vörn sem felst í að þessi áminningarskylda sé nauðsynleg gagnvart þeirra störfum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×