Íslenski boltinn

Breiða­blik hafnaði til­boði í Ágúst Orra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ágúst Orri í einum af Evrópuleikjum Breiðabliks í sumar.
Ágúst Orri í einum af Evrópuleikjum Breiðabliks í sumar. Vísir/Ernir

Eitt af betri liðum Póllands bauð í Ágúst Orra Þorsteinsson, leikmann Íslandsmeistara Breiðabliks, eftir að félagaskiptaglugganum hér á landi hafði verið lokað.

Það er Fótbolti.net sem greinir frá þessu. Alfreð Finnbogason, tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar Breiðabliks, staðfesti svo tíðindin í samtali við miðilinn.

„Ég get staðfest að það kom tilboð,“ sagði Alfreð. Hann sagði hins vegar að félagið hefði ekki verið tilbúið að selja leikmanninn að svo stöddu: „Erum að fara í Sambandsdeildina og erum í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn.“

Hinn tvítugi Ágúst Orri er íslenskur U-21 árs landsliðsmaður og samningsbundinn Breiðabliki til ársins 2028. Hann hefur tvívegis farið erlendis í atvinnumennsku á sínum stutta ferli. Fyrst til Genoa á Ítalíu og svo til Malmö í Svíþjóð.

Breiðablik er í 4. sæti Bestu deildar með 33 stig, sjö stigum á eftir toppliði Vals. Breiðablik á hins vegar leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×