Skoðun

Ein saga af sex­tíu þúsund

Halldór Ísak Ólafsson skrifar

Ég kynntist nýlega manni á tvítugsaldri frá vesturbakkanum. Hann kýs að vera nafnlaus í þessari frásögn þar sem að palestínubúar eru margoft teknir af lífi af her Ísraelsmanna fyrir það eitt að tala við fjölmiðla. Í samtali okkar sagði hann mér sögu af morði besta vinar síns: Aysar Mohammad Safi.

Aysar var fluggáfaður ungur maður og var að sækja sér menntun. Hann hafði áhuga á líkamsrækt og heilsu, eins og margir ungir menn. Þeir vinirnir fóru oft saman í bíltúra, spjölluðu, skemmtu sér og hlógu saman. Eðlilegur vinskapur ungra manna í óeðlilegum aðstæðum.

Aysar var ungur baráttusinni og virkur í samtökunum PFLP (Popular Front for the Liberation of Palestine), sem er næst stærsta andspyrnuhreyfing gegn Ísrael. PFLP samanstendur af fjölda karla og kvenna sem sýna mótstöðu sína við Hernám Ísraelsmanna með mótmælum og skipulagðri sniðgöngu. Ungi maðurinn og Aysar höfðu þekkst síðan þeir voru 5 ára og eru fjölskyldur þeirra vel tengdar. Þeir fóru iðulega á mótmæli saman en Aysar hvatti hann til að virkjast meira í baráttunni.

„Hann var hugrakkasti maður sem ég hef þekkt, hann var vanur að hvetja mig með sér og sagði: það sem gerist við þig gerist við mig.“

Á hverju ári þann 15. maí eru mótmæli á vesturbakkanum sem eru kölluð Nabka. Þar eru fánar reistir og blöðrur í litum palestínska fánans eru bornar til að minna á ósætti við landtöku Ísraelsmanna. Á þessum degi árið 1948, einum degi eftir að Ísrael lýsti yfir sjálfstæði, byrjaði her Ísraels að nema landsvæði Palestínu. Þau ganga inn á hluta vesturbakkans sem þeim er meinað að búa á og láta óánægju sína með aðskilnaðarstefnuna í ljós. Iðulega er fólk myrt eða handtekið af lögreglu fyrir að mæta á þessi mótmæli og bera fána eða blöðrur. Aysar og ungi maðurinn höfðu oft mætt á þessi mótmæli og höfðu þau þá alltaf verið friðsamleg af hendi mótmælenda.

Þann 15. maí 2024 voru fyrstu Nabka mótmælin eftir 7. október 2023, fyrir utan mótmæli þann 8. beint í kjölfarið. Eftir 7. október hafði ofbeldi á samkomum og mótmælum aukist til muna, gúmmíbyssukúlum höfðu verið skipt út fyrir alvöru byssukúlur og var „skotið þeim til að drepa“. Vitað var að það væri lífshættulegt að nýta sér málfrelsi sitt í þessum aðstæðum.

Í háskóla Aysars og unga mannsins er öflug hreyfing stúdenta sem hvetur til að fjölmenna þessi mótmæli. Allir vita hversu hættulegt þetta er og líklegt er að einhverjir muni falla í valinn. En þörf þeirra fyrir að tjá sig og sýna samstöðu yfirtekur ótta margra.

Þann dag hvetur Aysar vin sinn að koma á mótmælin en hann svarar að hann vilji ekki taka áhættuna. „Ég verð myrtur á götunni fyrir það eitt að bera fánann minn, ég vill ekki deyja þannig.“ Aysar svarar: “Ég veit, en þetta er það eina sem við getum gert. Við getum ekki bara setið og gert ekki neitt.“ Ungi maðurinn biður hann afsökunar, en segist ekki vilja fara. Hik hans var kannski eðlilegt en hann hafði bæði verið skotinn þrisvar sinnum og orðið vitni af því þegar maður við hlið hans var skotinn af leyniskyttu IDF, á mótmælum 7. Október. Hann hafði einnig séð fjöldan allan af fleiri morðum frá her Ísraels.

Eftir samtalið fer ungi maðurinn heim til þess að leggja sig fyrir vakt en rétt áður en hann sofnaði, aðeins klukkutíma eftir að leiðir þessara æskuvina skiljast, byrjar síminn að hringja. Móðir hans hringir og ber þær fréttir að Aysar hafi verið skotinn og liggur á spítala í lífshættu. Móðir hans hafði ekki þorað að segja honum sannleikann, að besti vinur hans sé látinn. Strax í kjölfarið hringir vinkona hans og segir honum hvað hafði í raun gerst. Hann trúði því varla enda höfðu þeir verið saman fyrir ekki nema einni klukkustund.

Það sem gerðist var þetta:

Lítill hópur stúdenta beið á götum vesturbakkans, þau héldu ekki á fána, mótmælin voru ekki byrjuð. Þau standa og spjalla. Skyndilega er skotið og ísraelskir hermenn birtast, þeir höfðu falið sig á bakvið steina. Aysar var skotinn í bringuna og hermennirnir veittust að hópnum. Skipulögð óvænt árás. Tveir vinir hans reyna að hjálpa en eru sjálfir skotnir fyrir það. Þannig hópurinn flýr eftir að hermenn höfðu bannað þeim að hjálpa, bæði með orðum og með því að skjóta þau. Táragasi var beitt til að dreifa hópnum. Sjúkrabíll mætir á staðinn, en hermennirnir banna sjúkraliðum að koma nær. Ísraelskir hermenn standa yfir Aysar og bíða eftir að hann blæðir út. Þeir hleyptu ekki sjúkraliðum að fyrr en þeir voru vissir um að engin lífsmörk voru að finna. Eftir að hann deyr segja þeir sjúkraliðunum að taka hann og yfirgefa svæðið. Það tók hann 15-20 kvalafullar mínútur að deyja. Þeir sáu til þess að Aysar dó einn, yfirgefinn og þjáður. Hann var aðeins 19 ára.

20 mínútum fyrir morðið hafði Aysar Safi verið spurður út í mótmælin af fréttafólki. Svar hans var stutt og einfalt: „Við munum bera höfuðið hátt og gera allt sem við getum, sama hvað Ísrael gerir.“

Móðir Aysar á eldri son og eiginmann sem sitja báðir í ísraelsku fangelsi án útskýringar og án þess að vera ákærðir um glæp. Þeim er meinaður aðgangur að lögfræðingi auk þess standa engin réttarhöld yfir. Bróðir hans átti að verða laus 1. September 2025, en 23:30 var tekin ákvörðun um að lengja fangelsisdvöl hans án útskýringar.

Í gegnum samtal okkar vildi palestínski maðurinn leggja áherslu á eitt. Aysar er ekki einhver tala í tölfræði um þjóðarmorðið. Hann var manneskja. Manneskja sem átti föður, systkini, móður og nána vini. Sagan hans er ekki einangraður harmleikur. Saga Aysar er aðeins ein af mörgum um kerfisbundið morð á heilli þjóð, þúsundir manns drepin á eins hátt. Á bakvið töluna 63.115 liggja 63.114 aðrar sögur aðrar sögur að baki. Konur, menn og börn myrt samviskulaust af kúgurum þeirra á hverjum degi, oft á dag. Hermenn sjá endurtekið til þess að fólk sem er skotið af ástæðulausu láti lífið yfirgefið og í þjáningu. Þeir skipuleggja árásir gegn óbreyttum borgurum og meina heilbrigðisstarfsfólki að hjálpa. Þetta er skipulögð mannvonska og er bersýnilega útrýmingarherferð af hálfu Ísraelsríkis. Ungi maðurinn hefur þurft að flýja og yfirgefa vini sína eftir í svona aðstæðum. Þeir teygja sig í átt til hans og biðja um hjálp meðan þeim blæðir út eftir skotsár. Hann veit að ef hann hjálpar munu sömu örlög mæta honum. “Ég geri vinum mínum ekkert gagn ef ég dey líka, þess vegna þarf ég að yfirgefa þá.“

Ég sagði honum frá þeim aðgerðum sem Sósíalistaflokkur Íslands krefur ríkisstjórnÍslands um.Að hans sögn myndu þessar aðgerðir, komandi frá Íslandi hafa mikil áhrif. “Ef ein þjóð frá vesturhluta heimsins stendur með okkur og gegn þjóðarmorðinu munu fleiri fylgja. Hver einasti dagur skiptir máli. Ísland er smáþjóð, en ekki má gleyma að Palestína er það líka, aðgerðir eins og þessar myndi bjarga lífum.

Í lok samræðu okkar deildi hann með mér draum sem hann átti kvöldið eftir að Aysar var myrtur. “Við stöndum og mótmælum eins og við gerðum alltaf saman, köstum steinum og berum fána okkar. Við erum fremst í stórum hópi af fólki. Ég sé ísraelska hermenn koma á móti okkur með byssur eins og svo oft áður og ég frýs, ég horfi til baka og mótmælendurnir frjósa með mér. En ekki Aysar, hann labbar rólega í gegnum hópinn á meðan hermennirnir nálgast, hann tekur hægri beygju inn í paradís, fulla af blómum, allsnægt og fegurð. Þá rann upp fyrir mér: Aysar fór til himnaríkis, við erum enn föst í helvíti.“

Þjóð gegn þjóðarmorði heldur mótmæli þann 6. september um land allt. Ef þessi saga hreyfir við þér hvet ég þig, kæri lesandi að mæta og sýna samstöðu þína með palestínsku þjóðinni í verki.

Aysar Mohammad Safi 2005-2024

Höfundur er meðlimur í Sósíalistaflokki Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×