Menning

Skortur á viðtengingarhætti hjá Lauf­eyju sé hluti af stærri þróun

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sigríður Sigurjónsdóttir, málfræðingur, segir skiljanlegt að Laufey noti ekki viðtengingarháttinn, hann sé að hverfa jafnt og þétt og standi verst hjá yngra fólki.
Sigríður Sigurjónsdóttir, málfræðingur, segir skiljanlegt að Laufey noti ekki viðtengingarháttinn, hann sé að hverfa jafnt og þétt og standi verst hjá yngra fólki.

Laufey Lín syngur á íslensku í nýju lagi en notar framsöguhátt þar sem viðtengingarháttur ætti að vera. Málfræðingur segir það ekki koma á óvart, viðtengingarháttur hafi lengi verið á undanhaldi og eigi á hættu að deyja út. Þróunin sjáist skýrt í fréttum, útvarpi og tali ungs fólks.

Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir gaf nýverið út sína þriðja plötu, A Matter of Time, við góðar undirtektir hlustenda og gagnrýnenda. Hún hélt af stað í tónleikaferðalag í gær, mun ferðast um allan heim næsta hálfa árið og seldi nýverið upp stórtónleika í Kórnum mars 2026 og er langt komin með að selja upp aukatónleika líka.

Sjá: „Al­gjör­lega út úr kortinu fyrir ís­lenskan lista­mann“

Eitt sem vakti sérstaklega athygli við nýju plötuna er að Laufey syngur í fyrsta skipti eigin efni á íslensku en ekki ensku á laginu „Forget Me Not“. Stærstur hluti lagsins er vissulega á ensku en í viðlaginu hljóðar íslenska:

Love you forever, don't let go of me; I'll die if I wither in your memory; gleymdu mér aldrei þó ég héðan flýg; gleymdu mér aldrei, elskan mín

Íslendingar hljóta að fagna því að einn af okkar stærstu tónlistarmönnum syngi á hinu ástkæra ylhýra frekar en ensku eins og er oft tískan. Hins vegar er eitt dálítið óheppilegt við textann sem ungir hlustendur gera sér ekki endilega grein fyrir. 

Laufey notar „flýg“ sem er framsöguháttur sagnarinnar „fljúga“ þegar hún ætti að nota viðtengingarháttinn „fljúgi“. Samtengingin „þó“ tekur nefnilega alltaf viðtengingarhátt á sögninni sem kemur á eftir henni. 

Á sama tíma kemur ekki endilega á óvart að Laufey skuli klikka á viðtengingarhættinum í ljósi þess að hann hefur verið á undanhaldi lengi og á undir enn meira högg að sækja hjá yngri kynslóðum sem hlusta, lesa og horfa á efni á ensku í miklum mæli.

„Maður sér þetta mjög víða“

Ein stærsta málfræðirannsókn síðustu ára var unnin af prófessorunum Sigríði Sigurjónsdóttur og Eiríki Rögnvaldssyni og málfræðingnum Írisi Eddu Nowenstein á árunum 2016 til 2019. Meðal þess sem kom fram þar var að viðtengingarháttur væri á svo miklu undan­haldi í ís­lensku að hann gæti horfið úr íslensku á þessari öld. 

Blaðamaður sló á þráðinn til Sigríðar Sigurjónsdóttur, prófessors við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, til að spyrja út í stöðu viðtengingarháttarins.

„Þetta er mjög algengt og maður sér þetta mjög víða, þetta er málbreyting sem er að verða,“ segir Sigríður um notkun Laufeyjar á framsöguhættinum.

Sigríður segir málfræðingana sem unnu að rannsókninni hafa rýnt frekar í gögnin síðan þá. Rannsóknin á sínum tíma hafi verið mjög umfangsmikil og tekið til hundruð málfræðibreyta, ýmissa þekktra málbreytinga en líka þætti málsins sem eru ekki endilega að breytast.

„Við vorum að rannsaka allar þekktar málfræðibreytur og þetta var sem sagt eina málfræðibreytan, að  framsöguháttur væri notaður í stað viðtengingarháttar, sem við prófuðum sem sýndi marktæk tölfræðileg tengsl við aukna enskunotkun í málfræðiumhverfi.

Þátttakendur í rannsókninni þar sem þessar niðurstöður komu fram voru börn á aldrinum þriggja til tólf ára en viðtengingarháttarskorturinn hafi líka komið fram hjá unglingum þó það væri ekki eins marktækt.

„Svo voru líka marktækt styttri meðallengd setninga, einfaldari setningamyndun, hjá þeim sem voru með mjög mikla ensku í sínu málumhverfi, það var minni hefðbundin notkun viðtengingarháttar og svo var aðeins minni íslensku orðaforði hjá þeim sem voru með mikla ensku í málumhverfinu,“ segir Sigríður.

„En þetta er málbreyting sem hefur verið alveg í gangi frá síðustu öld.“


Hvenær á að nota viðtengingarhátt?

Hér fyrir neðan má sjá stutta skýringu á viðtengingarhætti og hvenær á að nota hann. Textinn kemur úr íslensku Wikipedia-greininni um viðtengingarhátt sem byggir á Íslenskri málfræði, seinni hluta eftir Kristján Árnason og ritgerðinni „Viðtengingarháttur: Lifandi eða dauður?“ eftir Hildi Ýr Ísberg.

Viðtengingarháttur er helst notaður þegar rætt er um eitthvað hugsanlegt eða skilyrt og í aukasetningum þegar vitnað er óbeint í orð, skoðanir eða álit fólks.

Viðtengingarháttur nútíðar eða óskháttur er notaður til að lýsa skipun, hvatningu eða ósk:

     • Hún vonar að þú njótir sýningarinnar.

     • Við eigum enga mjólk, nema þú farir út í búð.

     • Spyrðu Jökul hvort hundarnir komi líka með.

Viðtengingarháttur þátíðar er notaður til að gefa til kynna möguleika, óvissu eða sagður í kurteisisskyni en það síðastnefnda er sjaldgæft.

Hér má sjá fleiri dæmi:

     • Gæti ég fengið meira? (Ósk)

     • Ég held ég gangi heim. (Óvissa)

     • Væri ég ekki svona latur, færi ég út í búð. (Eitthvað hugsanlegt)

     • Ég spurði hvort hann kæmi fljótlega aftur. (Skilyrði)


Enskan taki meira pláss í málumhverfinu

„Tungumálið breytist stöðugt. Það er sérstakt við íslenskuna hvað hún breyttist lítið og hægt gegnum aldirnar, það er bara af því það breyttist ekkert á Íslandi, það voru engar samfélagsbreytingar. Núna eru svo gífurlegar samfélagsbreytingar, kynslóðirnar aðskildar meirihluta tímans og ensku áhrifin miklu nær okkur,“ segir Sigríður.

„Börnin nýkomin heim af fæðingardeildinni og farið að horfa á Youtube,“ segir Sigríður. „En auðvitað hafa alltaf verið erlend áhrif á íslensku.“

Sjá einnig: Yngstu börnin sérstakt áhyggjuefni

Víðast hvar sé viðtengingarhátturinn horfinn, til dæmis sé hann bara að finna í orðasamböndum eða málsháttum í ensku. Þá er hann meira og minna horfinn á braut í skyldum málum íslensku, svo sem færeysku.

„Viðtengingarháttur er frekar sjaldgæfur í málumhverfinu. Ástæðan fyrir því að börn sem eru mjög mikið í ensku máláreiti nota frekar framsöguhátt í stað viðtengingarháttar er að enskan tekur meira pláss í málumhverfinu þannig þau fá ekki nógu mikla íslensku til að taka viðtengingarháttinn,“ segir hún.

Viðtengingarháttur sé sjaldgæf breyta og lærist frekar seint hjá börnum.

„Þegar ég var að vinna að doktorsritgerðinni minni 1992 þá kom alveg í ljós að börn lærðu viðtengingarhátt seint, þau voru fjögurra til fjögurra og hálfs þegar þau voru að ná valdi á viðtengingarhætti. Yfirleitt eru þau komin með þátíðarmyndun, fleirtölumyndun og föllin ótrúlega snemma,“ segir Sigríður.

„Öll lifandi mál breytast“

„Við athuguðum líka þrettán til 98 ára en það var engin málfræðibreyta þar tengd mikill enskunotkun enda er það eðlilegt svo sem,“ segir Sigríður aðspurð út í stöðu viðtengingarháttar hjá fullorðnu fólki

Sigríður kennir fyrsta árs námskeið í íslensku við Háskóla Íslands og segist heyra marga nemendur sína nota framsöguhátt þar sem á að nota viðtengingarhátt. 

„Og auðvitað les maður fréttagreinar alls staðar og heyrir þetta í útvarpi,“ bætir hún við.

„Þetta er eðlileg þróun málsins, öll lifandi mál breytast,“ segir Sigríður og bætir við að viðtengingarháttarleysi Laufeyjar sé eðlilegt í ljósi aldurs hennar. Tónlistin sé þó góð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.