Sport

Graslykt truflar kepp­endur á Opna banda­ríska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Opna bandaríska meistaramótið í tennis hófst 24. ágúst og lýkur 7. september.
Opna bandaríska meistaramótið í tennis hófst 24. ágúst og lýkur 7. september. epa/SARAH YENESEL

Keppendur á Opna bandaríska meistaramótinu eru sumir hverjir orðnir pirraðir á graslyktinni á Billie Jean King vellinum í New York.

Norðmaðurinn Casper Ruud, sem endaði í 2. sæti á Opna bandaríska fyrir þremur árum, er meðal þeirra sem eru orðnir þreyttir á graslyktinni í New York.

„Mér finnst graslyktin vera það versta við New York. Þetta er alls staðar, jafnvel þar sem mótið er spilað. En við verðum að sætta okkur við þetta. Mér finnst pirrandi að vera að spila meðan einhver reykir jónu,“ sagði Ruud.

„Það er ekkert gamanmál fyrir okkur keppendurna að vera þreyttir og þurfa að anda að okkur grasreyknum á sama tíma. Við getum ekkert gert nema lögunum verði breytt en ég efast um að það gerist.“

Einstaklingar 21 árs og eldri mega vera með 85 grömm af grasi og reykja það hvar sem leyfilegt er að reykja í New York.

Ekki má reykja inni á völlunum á Opna bandaríska en áhorfendur þurfa ekki að fara langt til að geta fýrað upp í friði.

Það er þó ekkert nýtt að keppendur á Opna bandaríska kvarti yfir graslykt í loftinu og var það gert áður en kannabis var leyft fyrir fjórum árum. Frægt er þegar Maria Sakkari kvartaði við dómara í miðjum leik yfir grasstækjunni í loftinu fyrir nokkrum árum.

Alexander Zverev gekk einnig svo langt að segja að andrúmsloftið á Opna bandaríska væri eins og í stofunni heima hjá rapparanum Snoop Dogg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×