Fótbolti

Sætur sigur í fyrsta leik Ísaks í efstu deild Þýska­lands

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson í baráttunni við Lee Jae-Song í dag.
Ísak Bergmann Jóhannesson í baráttunni við Lee Jae-Song í dag. Getty/Alex Grimm

Ísak Bergmann Jóhannesson, landsliðsmaður í fótbolta, fagnaði sætum útisigri með sínu nýja liði Köln í fyrsta leik sínum í einni af allra bestu deildum Evrópu, þýsku 1. deildinni.

Hinn 22 ára gamli Ísak var í byrjunarliði Kölnar gegn Mainz í dag, eftir að hafa tryggt liðinu 2-1 sigur á síðustu stundu í bikarleik fyrir viku gegn Regensburg.

Ísak og félagar urðu manni fleiri í dag á 60. mínútu þegar Mainz missti Paul Nebel af velli með rautt spjald. Mainz hafði þá verið í sókn og vildi fá vítaspyrnu en gestirnir voru svo fljótir fram og Nebel braut af sér sem aftasti maður.

Ísaki var skipt af velli á 80. mínútu en Marius Bülter náði að skora sigurmarkið á lokamínútu venjulegs leiktíma, sjálfsagt við litla kátínu Íslandsvinarins Bo Henriksen sem stýrir Mainz.

Í þýsku B-deildinni, sem Ísak lék í með Fortuna Düsseldorf á síðustu leiktíð, var Jón Dagur Þorsteinsson í byrjunarliði Herthu Berlín. Hann spilaði fram á 67. mínútu í markalausu jafntefli við Darmstadt á útivelli.

Hertha leitar því áfram að fyrsta sigri tímabilsins en liðið er með tvö stig eftir þrjár umferðir á meðan að Darmstadt er með sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×