Fótbolti

Ronaldo þarf enn að bíða eftir titli þrátt fyrir tímamótamark

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo þarf enn að bíða eftir titli með Al Nassr.
Cristiano Ronaldo þarf enn að bíða eftir titli með Al Nassr. Getty

Biðin eftir titli með Al Nassr heldur áfram hjá Cristiano Ronaldo, eftir vítaspyrnukeppni gegn Al Ahli í úrslitaleik sádiarabíska ofurbikarsins í Hong Kong í dag.

Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Portúgalanum þegar niðurstaðan lá fyrir enda munaði sáralitlu að niðurstaðan yrði önnur.

Ronaldo skoraði í leiknum og það var sannkallað tímamótamark eða hans hundraðasta fyrir Al Nassr. Þar með er hann eini leikmaðurinn sem skorað hefur hundrað mörk eða meira fyrir fjögur mismunandi félög.

Ronaldo er kominn með 939 mörk á ferlinum og nálgast því þúsund mörk en hann hefur áður til að mynda skorað 450 mörk fyrir Real Madrid, 145 fyrir Manchester United og 101 fyrir Juventus.

Markið í dag skoraði Ronaldo úr víti, þegar hann kom Al Nassr í 1-0, og Marcelo Brozovic kom liðinu svo aftur yfir þegar tæpar tíu mínútur voru eftir. Roger Ibanez náði hins vegar að jafna fyrir Al Ahli á 89. mínútu.

Ronaldo, Brozovic og Joao Felix skoruðu svo í vítaspyrnukeppninni fyrir Al Nassr en það dugði skammt því Al Ahli nýtti allar fimm spyrnur sínar og vann.

Hinn sigursæli Ronaldo hefur því enn ekki unnið titil síðan hann kom til Al Nassr árið 2023. Reyndar vann liðið Arab Club Championship Cup sama ár en sú keppni er ekki viðurkennd af FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×