Sport

Hafði ekki keppt í 376 daga en náði samt besta tíma ársins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekkert ryð var í Keely Hodgkinson þrátt fyrir rúmlega árs fjarveru frá brautinni.
Ekkert ryð var í Keely Hodgkinson þrátt fyrir rúmlega árs fjarveru frá brautinni. epa/Jarek Praszkiewicz

Enska hlaupakonan Keely Hodgkinson hafði ekki keppt síðan á Ólympíuleikunum í París þegar hún steig á stokk í átta hundruð metra hlaupi á Demantamótaröðinni í Póllandi í gær. Hún gerði sér lítið fyrir og vann hlaupið á besta tíma ársins.

Hodgkinson vann til gullverðlauna í átta hundruð metra hlaupi á Ólympíuleikunum París í fyrra. Síðan þá hefur hún glímt við meiðsli aftan í læri en sneri aftur á Demantamótið í Katowice í Póllandi.

Það var ekki að sjá að Hodgkinson hefði ekki keppt í 376 daga því hún kom fyrst í mark á 1:54,74 mínútum í hlaupinu í gær. Þetta er besti tími ársins og níundi besti tími sögunnar í átta hundruð metra hlaupi.

Ennfremur var þetta næstbesti tími sem Hodgkinson hefur náð en sá besti er 1:54,61 mínúta. Það er jafnframt landsmet.

Í næsta mánuði keppir Hodgkinson á heimsmeistaramótinu í Tókýó. Hún vann silfur í átta hundruð metra hlaupi á HM 2022 og 2023 og stefnir því á að vinna sín fyrstu gullverðlaun á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×