Handbolti

Kári Kristján spilar aldrei aftur fyrir ÍBV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Kristján Kristjánsson hefur klæðst ÍBV treyjunni í síðasta skiptið.
Kári Kristján Kristjánsson hefur klæðst ÍBV treyjunni í síðasta skiptið. vísir/Hulda Margrét

Eyjagoðsögnin og einn farsælasti leikmaður ÍBV í gegnum tíðina náði ekki samkomulagi við ÍBV um nýjan samning. Ferill hans er líklega á enda.



Kári Kristján var í viðræðum við ÍBV síðan í maí en þeim lauk án samnings í síðustu viku.

Kári segir frá þessu í hlaðvarpsþættinum Handkastið en framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV, Þorlákur Sigurjónsson hafði samband við línumanninn símleiðis og tilkynnti honum það að Kári fengi ekki samning við félagið.

Kári segir að þeir hafi náð munnlegu samkomulagi um samning fyrr í sumar.

Kári sagði í viðtali við Handkastið í byrjun júlí mánaðar að hann stefndi á að halda ferlinum áfram þrátt fyrir veikindi sem hann glímdi við fyrr á þessu ári sem gerðu það að verkum að hann gat ekki leikið nema einn leik með ÍBV eftir áramót.

Þessar fréttir þýða að Kári mun væntanlega leggja handboltaskóna á hilluna en í fyrrnefndu spjalli sagði Kári afar litlar líkur á því að hann spili handbolta aftur.

Þetta eru tímamót fyrir ÍBV en Erlingur Richardsson er nýlega tekinn aftur við ÍBV liðinu.

Kári Kristján verður 41 árs í október en hann hefur spilað með ÍBV í tíu ár síðan hann kom þangað aftur.

Kári byrjaði feril sinn í Eyjum en sló í gegnum sem leikmaður Hauka áður en hann fór út í atvinnumennsku í Sviss, Þýskalandi og Danmörku. Hann spilaði í eitt tímabil með Val eftir að hann kom heim en hefur síðan verið í ÍBV.

Kári hefur unnið tvo Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla með ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×