Innlent

Minkurinn stakk sér á kaf eftir fiski í Elliða­ám

Kristján Már Unnarsson skrifar
Minkurinn við það að stökkva ofan í hylinn.
Minkurinn við það að stökkva ofan í hylinn. Björn I. Guðmundsson

Minkur sem borgarbúi á gönguferð meðfram Elliðaám myndaði neðan Elliðavatnsstíflu í fyrradag virtist afar gæfur og lét ekki manninn trufla sig, þótt hann stæði aðeins nokkra metra frá honum.

Í fréttum Sýnar mátti sjá myndskeið sem íbúi í Norðlingaholti tók á göngu neðan Elliðavatnsstíflu. Þar sá hann mink skammt frá útfalli Elliðaáa úr vatninu og dró fram símann og byrjaði að mynda. Hann átti ekki von á því að fá mikinn tíma til myndatöku, bjóst við að minkurinn myndi þegar styggjast og hlaupa í felur inn í fylgsni sitt í grjótinu.

Minkurinn gægist úr fylgsni sínu.Björn I. Guðmundsson

En það var öðru nær. Minkurinn velti sér um og klóraði sér í mosanum. Hann horfði meira að segja á manninn en virtist ekki láta sér bregða. Þess á milli stakk hann sér til sunds í Elliðaánum eflaust til að leita sér að fiski til að éta.

Það sem kom myndatökumanninum mest á óvart var hvað minkurinn virtist rólegur og giskar hann á að það hafi vart verið nema fimm metrar á milli þeirra.

Minkurinn virtist áhugalaus um minkagildruna til hægri.Björn Ingi Guðmundsson

En við tókum líka eftir dökku boxi með gati og fengum það staðfest að þetta væri minkagildra á vegum borgarinnar. Þessi minkur hafði að minnsta kosti ekki gengið í gildruna þegar myndirnar voru teknar, sem sjá má í frétt Sýnar:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×