Erlent

Sakaði „sveppamorðingjann“ um að hafa eitrað fyrir sér í þrí­gang

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Erin og Simon skildu að borði og sæng árið 2015 en voru áfram í sambandi.
Erin og Simon skildu að borði og sæng árið 2015 en voru áfram í sambandi.

Simon Patterson, fyrrverandi eiginmaður morðingjans Erin Patterson, er sannfærður um að hún hafi að minnsta kosti þrisvar reynt að drepa hann með mat, áður en hún banaði foreldra hans og móðursystur með eitruðum sveppum.

Vísir hefur fjallað nokkuð ítarlega um málið, sem hefur vakið athygli um allan heim en Erin var upphaflega sökuð um að hafa myrt foreldra Simon og móðursystur, reynt að myrða eiginmann móðursysturinnar og fyrir þrjár tilraunir til að myrða Simon sjálfan.

Fallið var frá ákærunum er vörðuðu meintar manndrápstilraunir Erin gagnvart þáverandi eiginmanni sínum rétt áður en réttarhöldin yfir Erin hófust, án útskýringa. Í kjölfarið ákvað dómarinn að ógilda vitnisburð Simon um hinar meintu manndrápstilraunir en hann hefur nú verið gerður opinber.

Samkvæmt BBC greindi Simon Patterson frá því að hann hefði veikst alvarlega í þrígang árið áður en Erin boðaði til matarboðsins þar sem hún bar á borð Wellington-naut, sem innihélt sveppina eitruðu.

Veikindi Simon, sem afboðaði sig í matarboðið með litlum fyrirvara, áttu sér stað í kjölfar þess að Erin gaf honum að borða pastarétt í nóvember 2021, kjúklingarétt í maí 2022 og grænmetisvefju í september 2022.

Simon deildi grunsemdum sínum með lækni í febrúar árið 2023, fimm mánuðum fyrir matarboðið, eftir að Erin færði honum smákökur og hringdi svo ítrekað í framhaldinu til að spyrja hvort hann hefði borðað þær.

Simon sagði hins vegar að grunsemdir hans hefðu verið bundnar við sig og hann hefði ekki grunað að Erin myndi gera öðrum í fjölskyldunni mein.

BBC fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×