Innlent

Sósíal­istum bolað úr Bol­holti

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Nýkjörinni stjórn Sósíalistaflokksins hefur verið gert að flytja úr húsnæði Vorstjörnunnar í Bolholti.
Nýkjörinni stjórn Sósíalistaflokksins hefur verið gert að flytja úr húsnæði Vorstjörnunnar í Bolholti. Sósíalistaflokkur Íslands

Sósíalistaflokkur Íslands er í leit að nýju húsnæði eftir að hafa verið vísað úr húsnæðinu í Bolholti. Flokkurinn hefur haft þar aðsetur um langt skeið en styrktarfélagið Vorstjarnan er með húsið á leigu.

Mikið hefur gustað um Sósíalistaflokkinn og félög tengdum honum undanfarinn mánuð frá því að hallarbylting varð á aðalfundi flokksins í maí.

Fyrrverandi stjórn flokksins, sem laut í lægra haldi á aðalfundinum, hlaut hins vegar kjör á aðalfundi Vorstjörnunnar í vikunni. Vorstjarnan er félag sem hefur verið nátengt Sósíalistaflokknum og hafa ríkisstyrkir flokksins runnið að stórum hluta til Vorstjörnunnar. Skipt var um lás í húsnæðinu beint eftir aðalfund Vorstjörnunnar.

Flokknum hefur nú verið gert að flytja úr húsnæðinu og virðast flutningar standa yfir miðað við myndbirtingar flokksins á samfélagsmiðlum.

„Kaflaskil hjá flokknum og það er sárt að kveðja blessað Bolholtið. En koma tímar koma ráð. Veist þú um húsnæði sem gæti hentað stjórnmálaflokki?“ segir í færslu flokksins á Facebook.

Í tölvupósti Sósíalistaflokksins til flokksfélaga segir að flokknum hafi skyndilega verið vísað úr húsnæðinu í Bolholti.

„Á morgun stóð til að málefnastjórn myndi kynna fyrir flokksmönnum nýja stefnu okkar í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og íbúa af erlendum uppruna. Mótun á þeirri stefnu hefur staðið yfir í dágóða stund og er mikil vinna þar að baki.“

„Því miður neyðumst við til þess að fresta þessari kynningu því flokknum hefur nokkuð skyndilega verið vísað úr húsnæðinu í Bolholti. Okkur þykir miður að þurfa að fresta þessari kynningunni en við munum upplýsa ykkur um nýja dagsetningu um leið og flokkurinn finnur nýtt heimili,“ segir í póstinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×