Fótbolti

Di María á förum frá Benfica

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ángel Di María var svekktur á svip eftir jafntefli í lokaumferð portúgölsku deildarinnar, hans síðasta deildarleik með Benfica. 
Ángel Di María var svekktur á svip eftir jafntefli í lokaumferð portúgölsku deildarinnar, hans síðasta deildarleik með Benfica.  Diogo Cardoso/Getty Images

Eftir að hafa misst af deildarmeistaratitlinum í gær tilkynnti Ángel Di María að hann væri á förum frá portúgalska félaginu Benfica.

Benfica gerði 1-1 jafntefli við Braga í lokaumferðinni en Sporting vann 2-0 sigur gegn Vitoria de Guimaraes og varði titilinn. Benfica hefði þó þurft sex marka sigur til að vinna upp mismuninn í markatölu en liðin voru jöfn að stigum fyrir lokaumferðina.

Di María kom til Benfica í annað sinn árið 2023, frá Juventus, og hefur skorað 32 mörk í 85 leikjum síðan. Hann spilaði áður með liðinu árin 2007-10, sló í gegn og var keyptur af Real Madrid. 

Á tíma sínum í höfuðborg Spánar vann hann spænsku deildina, Meistaradeildina og varð bikarmeistari þrisvar. Eftir eitt vonbrigðatímabil með Manchester United fluttist hann til PSG árið 2015 og varð franskur meistari fimm sinnum. 

„Þetta var minn síðasti deildarleikur í þessari treyju, og ég er stoltur af því að hafa klæðst henni aftur… Það er bikarúrslitaleikur eftir næsta sunnudag og við munum leggja allt í sölurnar til að fagna sigri“ skrifaði Di María en tók ekki fram hvort hann myndi spila með Benfica á HM félagsliða, sem hefst þann 16. júní.

Benfica spilar bikarúrslitaleik gegn Sporting næsta sunnudag og mögulega verður það síðasti leikur Di María fyrir félagið. Líklegt er talið að hann fari annað hvort til Inter Miami í Bandaríkjunum eða snúi heim til Rosario Central í Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×