Fótbolti

Stór­sigur Stólanna í Víkinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elísa Bríet Björnsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Stólana í dag.
Elísa Bríet Björnsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Stólana í dag. Vísir/Guðmundur

Tindastóll vann frábæran 4-1 sigur á Víkingum þegar liðin mættust í Bestu deild kvenna í dag. Með sigrinum skilur Tindastóll lið Víkings eftir í fallsæti.

Leikurinn í Víkinni í dag byrjaði með gríðarlegu fjöri. Tindastóll komst yfir strax á 2. mínútu með marki frá Elísu Bríet Björnsdóttur en Bergþóra Sól Ásmundsdóttir jafnaði aðeins tveimur mínútum síðar með marki eftir hornspyrnu.

Á 16. mínútu kom Makala Woods gestunum síðan í forystu á ný þegar hún skoraði eftir frábæra sendingu frá Birgittu Rún Finnbogadóttur. Staðan í hálfleik 2-1 gestunum í vil.

Í síðari hálfleiknum bættu Stólarnir við tveimur mörkum. Fyrst skoraði Birgitta Rún á 60. mínútu eftir að Woods hafði gert vel og Elísa Bríet skoraði sitt annað mark á 71. mínútu.  Elísa fékk síðan gullið tækifæri til að ná þrennunni en Sigurborg Sveinbjörnsdóttir í marki Víkinga kom í veg fyrir það með góðri vörslu.

Lokatölur í Víkinni 4-1 og Tindastóll skilur þar með Víkinga eftir í fallsæti. Tindastóll er nú með sex stig í 7. sæti en Víkingur í 9. sæti með þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×