Skoðun

Fram­tíð safna í sí­breyti­legum sam­fé­lögum

Dagrún Ósk Jónsdóttir skrifar

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn hátíðlegur 18. maí ár hvert og í ár er yfirskrift hans Framtíð safna í síbreytilegum samfélögum.

Þemað er sérlega viðeigandi, enda tengjast söfn samfélögum sínum órjúfanlegum böndum. Þau eru spegill á samfélagið, heimild um fortíð og samtíð, sem nýtist til framtíðar. Söfn eru einnig mikilvægir og virkir þátttakendur í sínu samfélagi. Oft eru þau menningarmiðstöðvar á sínum svæðum og standa fyrir fjölbreyttum viðburðum. Söfn geta fengið okkur til að spyrja mikilvægra spurninga, fjalla um margvísleg áríðandi málefni í samtímanum og miðla á fjölbreyttan hátt til ólíkra hópa.

Á söfnum er hægt að varpa nýju ljósi á viðfangsefni, draga fram ný eða óvænt sjónarhorn og beina sjónum að hópum sem áður voru ósýnilegir. Með því aukum við skilning og með auknum skilningi eykst virðing, víðsýni og samkennd. Eiginleikar sem eru nauðsynlegir í öllum samfélögum og eiginleikar sem er brýn þörf á að efla, því samkvæmt nýjum rannsóknum fer samkennd á Íslandi minnkandi. Söfn miðla og fræða, vekja okkur til umhugsunar og hvetja til samtals.

Safnastarfið er líka nauðsynlegt á tímum þar sem er sífellt erfiðara að átta sig á hvað er satt og hvað ekki. Söfn eru stofnanir sem njóta trausts í samfélaginu. Það er mikilvægt nú og mun verða enn mikilvægara á komandi árum, með upplýsingaóreiðu, falsfréttum, samsæriskenningum, djúpfölsunum og gervigreind. Að baki safnastarfi og sýningum liggur ótrúlega mikil sérfræðiþekking og vandaðar rannsóknir sem byggja á traustum heimildum.

Í tengslum við þema dagsins í ár er vert að hafa í huga að framtíðin er langt í frá óskrifað blað. Þær áherslur og ákvarðanir sem eru teknar núna móta framtíðina. Þetta á vel við á söfnum sem hafa það hlutverk að safna, varðveita, rannsaka, miðla og fræða, fyrir framtíðina. Til þess að þetta sé mögulegt er nauðsynlegt að söfnin fái fjármagn og stuðning til þessara verkefna. Það er mikilvægt að tryggja framtíð safna, fyrir samfélagið og okkur öll.

Höfundur er verkefnastjóri Alþjóðlega safnadagsins




Skoðun

Sjá meira


×