Handbolti

Sjáðu sigur­mark Gísla gegn Veszprém

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í Magdeburg eru komnir í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu þriðja árið í röð.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í Magdeburg eru komnir í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu þriðja árið í röð. getty/Andreas Gora

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði markið sem tryggði Magdeburg sigur á Veszprém, 27-28, og sæti í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu. 

Fyrri leikurinn í Magdeburg fór 26-26 og því var allt opið fyrir seinni leikinn í gær.

Heimamenn í Veszprém voru lengst af með frumkvæðið og voru fjórum mörkum yfir, 26-22, þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.

Gestirnir frá Magdeburg gáfust ekki upp, skoruðu fimm mörk í röð og náðu forystunni, 26-27. Bjarki Már Elísson jafnaði fyrir Veszprém, 27-27, og allt á suðupunkti.

Magdeburg fékk lokasóknina og skömmu áður en tíminn rann út smeygði Gísli sér í gegnum vörn Veszprém og skoraði sigurmark þýska liðsins, 27-28. Sigurmarkið og allt það helsta úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Gísli skoraði fimm mörk og gaf fimm stoðsendingar í leiknum í gær og Ómar Ingi Magnússon var með þrjú mörk og tvær stoðsendingar.

Auk Magdeburg eru Füchse Berlin, Nantes og Barcelona komin í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar sem fer fram í Köln 14.-15. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×