Fótbolti

Rosa­legt reiði­kast Rüdiger sem reyndi að kasta hlut í dómarann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Rudiger gjörsamlega trompaðist þegar það stefndi í tap hjá Real Madrid í gærkvöldi.
Antonio Rudiger gjörsamlega trompaðist þegar það stefndi í tap hjá Real Madrid í gærkvöldi. Getty/Image Photo Agency

Þýski miðvörðurinn Antonio Rüdiger fékk rauða spjaldið í bikarúrslitaleik Real Madrid og Barcelona í gærkvöldi. Hann gæti líka átt langt bann yfir höfði sér eftir skammarlega hegðun á hliðarlínunni.

Barcelona lenti 2-1 undir í seinni hálfleik en náði að tryggja sér framlengingu og skora síðan sigurmarkið undir lok hennar.

Barcelona vann því Real Madrid í þriðja sinn á tímabilinu og er spænskur bikarmeistari á meðan það stefnir í titlalaust tímabil hjá erkifjendunum í Real Madrid.

Skammarleg framkoma Rüdiger mun eflaust stela mörgum fyrirsögnum eftir leikinn enda hegðaði þess reynslubolti sér eins og smábarn.

Real Madrid fólk er með það á heilanum að allir dómarar á Spáni séu á móti þeim og þeir voru farnir að ganga ansi langt í mótmælum sínum í svekkelsinu undir lok leiksins í gærkvöldi.

Langlengst gekk þó umræddur Rüdiger. Hann byrjaði á því að reyna að henda einhverju í dómarann sem var þá inn á miðjum velli. Þarna var búið að taka Rüdiger af velli.

Dómarinn sýndi Rüdiger að sjálfsögðu rauða spjaldið fyrir þetta og þá trompaðist hann algjörlega.

Rüdiger ætlaði greinilega að ráðast á dómarann og það þurfti nær allt starfslið Real Madrid til að halda aftur af honum.

Þrátt fyrir að starfsmenn Real Madrid hafi komið í veg fyrir að Rüdiger réðist á dómarann þá er erfitt að sjá annað en að leikmaðurinn sé á leiðinni í langt bann fyrir að reyna að henda hlut í dómarann.

Hér fyrir ofan og neðan má sjá þessa skammarlegu framkomu og þetta rosalega reiðikast Rüdiger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×