Íslenski boltinn

„Beindu þeim inn á miðju og átu þær þar“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mist Funadóttir tæklar hér Samönthu Smith.
Mist Funadóttir tæklar hér Samönthu Smith. Vísir/Diego

„Þetta var frábær leikur hjá Þrótturum. Sérstaklega hvernig Óli leggur þennan leik upp, hann var alveg búinn að vinna sína heimavinnu,“ sagði Mist Edvardsdóttir, sérfræðingur Bestu markanna, þegar farið var yfir stórleik 2. umferðar Bestu deildar kvenna.

Þróttur Reykjavík komst 2-0 yfir gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks en á endanum tókst Blikum að sækja stig í Laugardalinn. Að mati Bestu markanna var stigið þó ef til vill heldur ósanngjarnt þar sem Þróttarar voru frábærir í leiknum.

„Þróttarar mættu mjög hátt á Blikana, pressuðu þær, beindu þeim inn á miðju og átu þær þar. Alveg trekk í trekk unnu þær boltann af þeim hátt á vellinum og Blikar voru í bullandi vandræðum. Byrja í tígulmiðjunni og virðast svo skipta yfir í 4-4-2,“ sagði Mist og hélt áfram.

„Þær voru að reyna bregðast við og leysa þetta. Það gekk ekkert betur. Voru mjög ósamstíga í sinni pressu, Berglind Björg (Þorvaldsdóttir) fór kannski í pressu en Birta (Georgsdóttir) fylgdi ekki með. það var bara vesen á Blikaliðinu.“

„Þess vegna held ég að Þróttarar hljóti að vera ótrúlega svekktar að uppskera ekki meira en eitt stig í lok leiks því þetta var að mörgu leyti frábær leikur hjá þeim,“ sagði Mist en sjá má umræðu Bestu markanna sem og helstu atriði leiksins í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Bestu mörkin: „Beindu þeim inn á miðju og átu þær þar“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×