Innlent

Lofar betra sumri en í fyrra

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Siggi stormur segir engar líkur á því að sumarið í ár verði jafnslæmt og í fyrra.
Siggi stormur segir engar líkur á því að sumarið í ár verði jafnslæmt og í fyrra. Vísir/Vilhelm

Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur, sem er betur þekktur sem Siggi Stormur, segir að engar líkur séu á því að sumarið verði jafn kalt og blautt eins og í fyrra. Hann segir að ekkert í langtímaspánum gefi tilefni til að ætla að sumarið verði slæmt.

Slegið var á þráðinn til Sigga í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, en mikil veðurblíða hefur verið á landinu undanfarna daga, bæði sólríkt og hlýtt. Siggi er sjálfur á Spáni og hefur verið þar um páskana.

„Maður reynir að vera sólarmegin í lífinu og ég treysti á að það yrði sólríkt á Spáni, en ég hefði ekkert þurft að fara. Ég hefði getað sparað mér aurinn,“ sagði Siggi nokkuð léttur í bragði.

Hann segir að í fyrra hafi verið eitt kaldasta sumar sem komið hefur á öldinni, og það séu afar litlar líkur á því að það komi fyrir aftur.

„Sko ef við leyfum okkur aðeins að spá í matseðilinn eins og hann hefur birst okkur, og ég heyrði að þú nefndir að sumarið núna sem búið er að koma í nokkra daga sé eiginlega betra en allt sumarið í fyrra, og það er bara pínulítið sannleikskorn í þessu...“

„Til dæmis 2023 voru eftir fyrstu tuttugu daga aprílmánaðar, þá vorum við með hlýjasta aprílmánuð á öldinni.“

„Núna þessa tuttugu daga sem liðnir eru af april, þeir raða sér í fjórða sæti, þetta er fjórði hlýjasti aprílmánuður á þessari öld. En það má ekki gleyma því að þetta eru bara tuttugu dagar og það getur ýmislegt gerst í framhaldinu.“

Í fyrra hafi verið snjókoma og skafrenningur á Norðurlandi í júní, og bændur hafi verið í miklu basli.

„Engar líkur eru á, ég segi bara engar líkur eru á því að þetta fari að endurtaka sig. Það eru svo litlar líkur á því að það er bara eins og að verða fyrir eldingu,“ segir Siggi.

Spáði sólríku sumri sem aldrei kom

Eins og fram hefur komið var sumarið í fyrra eitt kaldasta sumar aldarinnar. Hver gula viðvörunin fylgdi annarri og á Norðurlandi kyngdi niður snjó snemma í júní.

Siggi stormur hafði lofað hlýju og sólríku sumri í fréttum Stöðvar 2 í apríl, en þurfti svo að biðjast afsökunar á spánni þegar kominn var júlí og enn bólaði ekkert á sólinni.

„Mér er bæði ljúft og skylt að afsaka þá spá sem lá í kortunum í apríl,“ sagði hann.

Útlit fyrir ágætan Sumardag fyrsta

Siggi segir að veðurspá vikunnar sé prýðileg og útlit sé fyrir ágætt veður Sumardaginn fyrsta fimmtudaginn næstkomandi.

„Það verður kannski ekkert rosalega sólríkt á landinu, en þó ekki lokum fyrir það skotið að það verði skýjað með köflum, og hitinn tíu, tólf, fjórtán stig, á því rólinu á suðvestanverðu næstu daga, en reyndar eru næturfrostin ekki farin úr kortunum.“

„Hitinn fer upp á daginn en næturfrostin eru ennþá og það má ekki gleyma því að ef saman frýs sumar og vetur, þá er von á góðu sumri.“

Hins vegar sé kuldakast í kortunum eftir þriðja eða fjórða maí.

„Þá eru spárnar komnar með kulda og þá erum við að tala um lágan hita af deginum og frost að næturlagi jafnvel, og það mun standa yfir jafnvel í einhverja daga. Svo erum við að sigla inn í sumar sem getur ekki orðið verra en í fyrra það er ekki hægt.“

„Það er ekkert hins vegar í langtímaspánum sem gefur tilefni til að ætla að sumarið verði slæmt.  Ég lofa ykkur því og ætla standa við það. Það eru engar líkur á því að þetta fari í sama far og í fyrra,“ segir Siggi.


Tengdar fréttir

Eitt versta sumar aldarinnar

Sumarið 2024 var óvenju kalt og blautt, samkvæmt gögnum Veðurstofunnar. Sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum gefur sumrinu slaka einkunn - það hafi verið með þeim verri á þessari öld. Þá fara fyrstu dagar septembermánaðar ekki heldur mjúkum höndum um íbúa víða á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×