Ellefu ára bið McIlroy eftir risatitli lauk um helgina því norður-írski kylfingurinn náði að klára alslemmu golfsins á Augusta vellinum á sunnudagskvöldið. Norður-Írinn var ekkert að ljúga þegar hann talaði um að æskudraumur sinn væri þarna að rætast.
Í tilefni af sigri McIlroy á Mastersmótinu þá gróf Breska ríkisútvarpið upp gamalt viðtal við Rory þegar hann var aðeins níu ára gamall og þegar farinn að vekja athygli á golfvellinum.
Það er sérstaklega gaman að sjá þetta viðtal núna þegar Rory er búinn að tryggja sér sæti í fámennum hópi þeirra sem hafa unnið öll fjögur risamótin.
McIlroy var þarna nýkominn heim til Norður-Írlands frá Miami í Bandaríkjunum þar sem hann varð heimsmeistari tíu ára og yngri.
Þjálfari hans sagði frá því að hann æfði sig á hverjum degi og markmiðin voru skýr þegar rætt var við strákinn sjálfan.
„Ég ætla að verða atvinnumaður og vinna öll risamótin,“ sagði Rory kokhraustur. Viðtalið og fréttina má sjá hér fyrir ofan en fyrir neðan má sjá þegar strákurinn kominn í sjónvarpsþátt.
Þar frétti þáttarstjórnandi af því að strákurinn væri að æfa sig heima hjá sér með því að vippa í þvottavél móður sinnar. Hann lét Rory leika það eftir fyrir myndavélarnar sem og hann gerði. Það má sjá það myndband líka hér fyrir neðan.