Innlent

Ó­rói mældist við Torfa­jökul

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Loftmynd af Torfajökli.
Loftmynd af Torfajökli. Vísir/RAX

Órói mældist við Torfajökul laust eftir klukkan átta í kvöld en er að mestu dottinn niður. Talið er að óróinn tengist breytingum á jarðhitakerfinu í kringum jökulinn.

Órói mældist einnig í gær um miðbik dags en datt aftur niður á skömmum tíma. Atburðurinn í dag var aðeins stærri en í gær.

Þetta segir Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu.

„Við teljum á þessu stigi að þetta tengist breytingum á jarðhitakerfinu í kringum Torfajökul. Það þýðir ekki mikið, þetta er í raun nokkuð algengt fyrir stór og vegleg jarðhitakerfi að það verða breytingar á því,“ segir hún.

Um sé að ræða stærsta jarðhitakerfi landsins.

Torfajökull er eldstöð og Steinunn segir að þar hafi orðið þrettán eldgos á síðustu níu þúsund árum. Síðast hafi gosið árið 1477.

Óróinn í dag og í gær sé þó frekar tengdur við breytingar á háhitakerfinu.

„Engin aflögun hefur mælst á GPS tækjunum þannig við erum ekki að tengja þetta við kviku að svo stöddu,“ segir Steinunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×