Enski boltinn

Mikið breytt lið Villa vann mikil­vægan sigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn Villa fagna marki Donyell Malen.
Leikmenn Villa fagna marki Donyell Malen. Vísir/Getty

Aston Villa vann góðan sigur á Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Stigin þrjú eru mikilvæg í baráttunni um Evrópusæti á næsta tímabili.

Unai Emery gerði átta breytingar á liði Aston Villa fyrir leikinn í dag en Villa á fyrir höndum leik gegn PSG í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn.

Þessar breytingar virtust skila sér því lið Villa var ferskt á upphafsmínútum leiksins. Á 13. mínútu skoraði Morgan Rogers eftir sendingu Youri Tielemans og aðeins tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Donyell Malen forystu heimamanna þegar hann skoraði eftir sendingu bakvarðarins Ian Maatsen.

Staðan í hálfleik var 2-0 en á 57. mínútu minnkaði Jota Silva muninn fyrir Forest en hann kom inn sem varamaður í hálfleik.

Lið Forest, sem var í 3. sæti deildarinnar fyrir leikinn, jók pressuna eftir því sem leið á og fékk færi til að minnka muninn. Næst komst Murillo sem átti þrumuskot í þverslána þegar skammt var eftir.

Aston Villa fagnaði að lokum 2-1 sigri og er nú í 6. sæti deildarinnar með 51 stig, jafn mörg og lið Manchester City sem er sæti ofar og er einu stigi á eftir Chelsea í 4. sætinu. Forest er áfram í 3. sæti með 57 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×