Lífið samstarf

Gott gloss getur gert krafta­verk!

Á allra vörum
Tryggingafélagið Vörður er aðal bakhjarl Á allra vörum. Til hægri eru Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar, Guðný Pálsdóttir, Gróa Ásgeirsdóttir og Elísabet Sveinsdóttir.  
Tryggingafélagið Vörður er aðal bakhjarl Á allra vörum. Til hægri eru Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar, Guðný Pálsdóttir, Gróa Ásgeirsdóttir og Elísabet Sveinsdóttir.  

Fjáröflunar- og kynningarátakið Á allra vörum hófst 20. mars og stendur yfir til laugardagsins 5. apríl en þá lýkur átakinu með sjónvarpsþætti í beinni útsendingu á RÚV og frá þjónustuveri Símans þar sem fjöldi fólks tekur við framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Eins og áður gengur átakið út á sölu varasetta, í ár frá GOSH, og núna á að safna fyrir nýju húsnæði Kvennaathvarfsins.

Það eru þær Gróa Ásgeirsdóttir, Guðný Pálsdóttir og Elísabet Sveinsdóttir sem eru potturinn og pannan á bak við Á allra vörum. Fyrsta átakið var árið 2008 þegar safnað var fyrir Krabbameinsfélag Íslands og átakið í ár er það tíunda sem þær hafa ráðist í á sautján árum.

„Það er óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið frábærar allt frá fyrsta degi,“ segir Gróa. „Við ætluðum upphaflega bara að standa fyrir þessu eina átaki árið 2008. Hins vegar var konseptið of gott til að hætta. Því héldum við áfram og í dag er Á allra vörum vörumerkið eitt það þekktasta hér á landi.“

Dorrit Moussaieff, þáverandi forsetafrú Íslands, og Gróa Ásgeirsdóttir (t.v.) og Elísabet Sveinsdóttir.

Það má því segja að þróunin hafi verið upp á við frá byrjun. „Á allra vörum varasettin hafa selst í þúsundum í hvert skipti, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Málefnin sem Á allra vörum hefur tekið fyrir í hvert sinn hafa svo sannarlega náð eyrum þjóðarinnar,“ bætir Guðný við.

Eins og fyrr segir á að safna fyrir nýju Kvennaathvarfi ár en Elísabet segir starfsemi þess snerta hjörtu þeirra allra. „Kvennaathvarfið er sú stofnun sem hjálpar konum og börnum hvað mest, þegar þau eru í neyð vegna heimilisofbeldis. Það er eitthvað við nálgun þeirra sem heillaði okkur, eljan og baráttan fyrir betra lífi kvenna og barna. Það er því miður sorgleg staðreynd að heimilið er einn hættulegasti staðurinn fyrir konur og okkur finnst sú staðreynd grafalvarleg og eitthvað sem við viljum breyta.“

Varasettið í ár kemur frá GOSH og hægt er að velja milli tveggja lita.

Varasettið í ár kemur frá GOSH en í fyrri átökum hafa þau komið frá m.a. Dior, Yves Saint Laurent og Benecos. „Við reynum að breyta reglulega og gera eitthvað nýtt,“ segir Guðný. „Varasettin og litirnir eru alltaf sér valdir af okkur og þá einna helst Gróu sem er mesti gloss-neytandi landsins. Við seljum í kringum 10-12 þúsund stykki á þessu tímabili og því skiptir máli að vinna með sem flestum.“

Í átaki sem þessu skiptir miklu máli að hafa góða bakhjarla, sjálfboðaliða, vini og fjölskyldur sem taka þátt og styðja þær. „Við erum í sjálfu sér með sex bakhjarla þetta árið; auglýsingastofurnar ENNEMM og PiparTBWA, framleiðslufyrirtækið SKOT, Símann, RÚV og síðast en ekki síst Vörð tryggingar sem kom inn sem aðal bakhjarl okkar í þessu átaki. Auk þessa eru óteljandi smærri aðilar sem gefa vinnuna sína og framleiðslu sem við erum endalaust þakklátar fyrir,“ segir Elísabet.

Á allra vörum hópurinn eftir vel heppnaða útsendingu eitt árið.

Stóri dagurinn er svo lokadagur átaksins, 5. apríl, en þá verður boðið upp á sjónvarpsþátt í beinni útsendingu á RÚV. „Þessar beinu útsendingar hafa alltaf verið mjög skemmtilegar,“ bætir Elísabet við. „Einstaklingar og fyrirtæki geta þá hringt inn og gefið frjáls framlög auk þess sem hægt er að hringja í svokölluð 900 númer og þá fer viðeigandi upphæð inn á símareikninginn, frá 2.000 til 10.000 kr. Boðið verður upp á reynslusögur og svo auðvitað frábær tónlistaratriði.“

Kynntu þér málið betur á vef Á allra vörum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.