Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp hvílíka athygli Ísland og Reykjavík fengu í heimsfjölmiðlum sumarið 1972 þegar heimsmeistaraeinvígið í skák var háð í Laugardalshöll. Núna eru skákmeistararnir báðir fallnir frá. Íslenska skákhreyfingin minnist Spasskís með hlýhug en tilkynnt var um lát hans í Moskvu síðastliðinn fimmtudag.
„Það voru margir Íslendingar sem héldu með Spasskí því hann var svo mikill heiðursmaður, kvartaði aldrei, alltaf kurteis og náttúrlega ótrúlega góður skákmaður,“ segir Guðmundur G. Þórarinsson, sem var forseti Skáksambands Íslands á einvígisárinu 1972.

Fischer lést í janúar 2008 en tveimur mánuðum síðar kom Spasskí til landsins til að vera yfirdómari á minningarmóti um Fischer. Hann lagði þá blómsveig að leiði Fischers í kirkjugarðinum að Laugardælum en spurði í leiðinni hvort laust pláss væri við hliðina.
„Er laust pláss við hliðina á honum?“ spurði Spasskí. Einhver sagðist þá ætla að kanna málið og annar svaraði Spasskí að honum lægi ekkert á.
„Ég myndi vilja…- en ég vil ekkert vera að flýta mér,“ bætti Spasskí við sposkur.

Að mati viðstaddra fór það ekkert á milli mála að þarna vildi Spasskí fá sinn hinsta hvílustað en tók fram að sér lægi þó ekkert á.
„Að hafa meistarana báða hérna, það væri alveg stórkostlegt. Það væri sko lokapunktur á þætti Íslands í þessu einvígi, sem er merkilegur,“ segir Guðmundur.
„Þetta einvígi hefði aldrei verið teflt ef við hefðum ekki tekið þetta að okkur þarna á lokapunktinum. Við björguðum einvíginu og Fischer hefði aldrei orðið heimsmeistari ef við hefðum ekki gert það.“

Guðmundur telur þó stöðu heimsmála torvelda það að Spasskí fái legstað á Íslandi.
„En svo var utanríkisráðherra hér á Íslandi sem vísaði rússneska sendiherranum úr landi. Þannig að ég er nú ekki viss um að það sé svo auðvelt að komast í samband við þá, eins og staðan er í dag.“
-Þannig að það eru litlar líkur, að þínu mati, á að Spasskí verði jarðaður hér í Flóahreppi?
„Ég tel það afar litlar líkur. En það er einnar nætur virði að reyna það,“ svarar Guðmundur G. Þórarinsson.