Fótbolti

Bjóða skaða­bætur vegna þess að hitt liðið var án Messi

Sindri Sverrisson skrifar
Gestir á Shell Energy leikvanginum fengu að sjá Luis Suárez spila og skora en engan Lionel Messi.
Gestir á Shell Energy leikvanginum fengu að sjá Luis Suárez spila og skora en engan Lionel Messi. Getty/Tim Warner

Forráðamenn bandaríska knattspyrnufélagsins Houston Dynamo sendu frá sér afsökunarbeiðni og buðu stuðningsmönnum frímiða vegna þess hvernig lið andstæðinga þeirra var skipað í gærkvöld.

Lionel Messi er að sjálfsögðu vinsælasti leikmaður MLS-deildarinnar og það eru ekki bara stuðningsmenn Inter Miami sem keppast um að sjá hann spila, heldur einnig stuðningsmenn annarra liða.

Messi, sem er 37 ára, spilar hins vegar ekki alla leiki og hann fór ekki með til Houston vegna leiksins í gærkvöld. Javier Mascherano, þjálfari Inter Miami, sagði það vera vegna leikjaálags.

Þar með urðu margir stuðningsmenn Houston-liðsins vonsviknir og félagið sendi frá sér tilkynningu vegna málsins. Þar var tekið fram að nafn Messi hefði ekki verið á sérstökum forfallalista sem gefinn er út fyrir leiki, með nöfnum þeirra sem eru til að mynda meiddir og geta ekki spilað. Hins vegar hefði hann engu að síður ekki ferðast með til Houston.

„Því miður höfum við enga stjórn á því hverjir spila fyrir andstæðinga okkar,“ segir í tilkynningunni.

Þar kom einnig fram að gestir á leiknum myndu fá frían miða á annan leik hjá Dynamo-liðinu.

Þrátt fyrir að vera án Messi þá vann Inter Miami öruggan 4-1 sigur. Telaso Segovia, 21 árs landsliðsmaður Venesúela, skoraði tvö mörk í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í deildinni. Tadeo Allende og Luis Suárez skoruðu einnig en Nicolas Lodeiro gerði mark heimamanna þegar hann minnkaði muninn á 85. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×