Innlent

Hvernig skiptast fylkingarnar?

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eru báðar í framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn var lengi klofinn í tvennt, í Bjarna- og Guðlaugs-arm og virðast þær fylkingar enn lifa.
Guðrún Hafsteinsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eru báðar í framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn var lengi klofinn í tvennt, í Bjarna- og Guðlaugs-arm og virðast þær fylkingar enn lifa. Vísir/Vilhelm/Grafík

Á sunnudaginn kjósa Sjálfstæðismenn sér nýjan formann á landsfundi flokksins. Guðrún Hafsteinsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir keppast þar um embættið en gamlar fylkingar virðast enn lifa og styðja við hvort sitt framboðið. Dramatískar fréttir, vel sóttir fundir og flóð skoðanagreina hafa teiknað upp áhugaverða mynd af skiptingu flokksins á milli kandídatanna tveggja.

Bjarni Benediktsson hætti skyndilega sem formaður Sjálfstæðisflokksins þann 6. janúar eftir að hafa setið sem formaður flokksins í sextán ár. Í kjölfarið voru ýmsir orðaðir við framboð: Guðlaugur Þór, Þórdís Kolbrún, Áslaug Arna, Guðrún Hafsteins og ýmsir ólíklegri kandídatar.

Sjá einnig: Hver tekur við af Bjarna?

Tíminn leið og ekkert bólaði á neinu framboði. Þegar það voru fimm vikur í landsfund, þann 23. janúar tilkynnti Þórdís Kolbrún að hún færi ekki fram og þremur dögum síðar lýsti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir yfir því að hún byði sig fram.

Þingmenn héldu sig heima

Húsfyllir var í Sjálfstæðissalnum á Nasa 26. janúar þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tilkynnti framboð sitt. Umgjörð fundarins var mjög góð, Áslaug stóð ein á sviðinu í blárri lýsingu með uppfærðu merki flokksins fyrir aftan sig og framan á ræðupúltinu.

Það sem vakti þó athygli var að enginn úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins mætti á fundinn. Hugsanlega hefur þingfólki ekki þótt sniðugt að gefa upp afstöðu sína með mætingu svo löngu fyrir landsfund.

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður, sagði í viðtali við fréttastofu sama dag ekki vera ástæðu til að lesa í ákvörðun þingmanna að mæta ekki. Enginn þyrfti að velkjast í vafa um að Áslaug Arna nyti mikils stuðnings og trausts víða í hinum ýmsu kimum flokksins, þar með hjá kjörnum fulltrúum hans. 

Hildur sagði „alvanalegt að kjörnir fulltrúar haldi að sér höndum á meðan línur eru að skýrast.“

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksin, lýsti yfir stuðningi við Áslaugu.Vísir/Vilhelm

Hildur átti síðan eftir að lýsa formlega yfir stuðningi við Áslaugu með greininni „Inn í nýja tíma á grunni sjálfstæðisstefnunnar“ í Morgunblaðinu og í færslu á Facebook-síðu sinni 24. febrúar.

Þó þingflokkurinn hafi verið fjarverandi mættu nánir aðstandendur þingmanna á fund Áslaugar. Þeirra á meðal er Gísli Árnason, sambýlismaður Hildar Sverrisdóttur; Margrét Bjarnadóttir, dóttir Bjarna Benediktssonar og Ísak Ernir Kristinsson unnusti hennar. 

Sigurgeir Jónasson, verkefnastjóri hjá Kviku og sonur Rósu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar og þingmanns Sjálfstæðisflokksins, var sömuleiðis mættur á fundinn. Hann lét síðan sjá sig aftur á Trúnó-viðburði Áslaugar 21. febrúar og sat skemmti sér þar með Hilmari Frey Kristinssyni, verkefnastjóra Auðar hjá Kviku, sem hefur verið dyggur stuðningsmaður Áslaugar gegnum tíðina.

Borgarstjóraefni Sjálfstæðismanna, bæjarstjóri og fyrrverandi ráðherra

Hildur Björnsdóttir, oddviti flokksins í Reykjavík, var á svæðinu ásamt börnum sínum. Einnig voru Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi, Sandra Hlíf Ocares varaborgarfulltrúi, og tveir fyrrverandi borgarfulltrúar, Katrín Atladóttir og Bergur Þorri Benjamínsson mætt. Líf Magneudóttir, eini borgarfulltrúi Vinstri grænna, var svo einnig mætt. 

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, var á staðnum og ræddi þar við Björgu Fenger, bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna í Garðabæ.

Sólveig Pétursdóttir, þriðja frá vinstri og fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, fagnaði ákaft.Vísir/Rax

Björn Bjarnason, einn þaulsetnasti ráðherra Sjálfstæðisflokksins og mikill áhrifamaður innan flokksins, sat úti í horni og fylgdist með. Hann skrifaði um fundinn í dagbókarfærslunni „Áslaug Arna til formennsku“ á bloggsíðunni Bjorn.is. Fundinum lýsir hann sem sögulegum í færslunni og birtir í henni myndir frá fundinum og myndir af hækkandi sól.

Sólveig Pétursdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra Sjálfstæðisflokksins frá 1999 til 2003, var einnig mætt og fagnaði framboðsræðu Áslaugar ákaft. Hún ritaði síðan greinina „Ég styð Áslaugu Örnu“ í Morgunblaðið í gær. 

Þriðji ráðherrann í salnum sem má nefna er Árni M. Mathiesen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og fjármálaráðherra. Fyrrverandi þingmennirnir Drífa Hjartardóttir, Tryggvi Þór Herbertsson og Óli Björn Kárason voru einnig á svæðinu. Sá síðastnefndi skrifaði stuðningsgreinina „Ástríða og sannfæring með frelsið í farteskinu“ í Morgunblaðið á miðvikudag þar sem hann sagði Áslaugu búa yfir krafti framtíðarinnar.

Óli Björn og Björn Bjarnason voru báðir mættir. Óli hefur verið meira afgerandi í stuðningi sínum við Áslaugu.Vísir/Sigurjón Ragnar/Vilhelm

Fulltrúar atvinnulífsins, lögfræðingar og fjölmiðlafólk

Fulltrúar atvinnulífsins létu sig ekki vanta á fundinn. Þar má nefna Heiðar Guðjónsson, fjárfesti og fyrrverandi forstjóra Sýnar; Þór Sigfússon, stofnanda Sjávarklasans og Orra Hauksson, fyrrverandi forstjóra Símans, sem kynnti Áslaugu inn á fundinn.

Heiðar, Þór og Orri mættu á fundinn.Vísir/Vilhelm/Sigurjón Ragnar/Arnar

Lögmennirnir Kristín Edwald, Gísli Gíslason og Helgi Jóhannesson voru einnig meðal fundargesta. 

Páll Ásgeir Guðmundsson, sem stýrði kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins og er fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, hélt sig aftarlega í salnum en var hinn kátasti.

Fjöldi fjölmiðlamanna var mættur á fundinn enda um risafréttir að ræða. Þar á meðal Gísli Freyr Valdórsson, stjórnandi Þjóðmála; Ólöf Skaftadóttir og Kristín Gunnarsdóttir úr hlaðvarpinu Komið gott, hlaðvarparinn Þórarinn Hjartarson sem heldur úti Einni pælingu og Marta María Winkel, fréttastjóri dægurmála á mbl. Með Mörtu var eiginmaður hennar, Páll Winkel sem var lengi fangelsismálastjóri.

Enginn Bjarni en fullt af Bjarnafólki

Bjarni var ekki meðal fundarmanna sem kom kannski einhverjum á óvart í ljósi sambands hans og Áslaugar. Samkvæmt heimildum fréttastofu var Bjarni í skíðaferð erlendis. 

Fjöldi fólks var saman kominn til að hvetja Áslaugu til dáða.Vísir/RAX

Hins vegar var Margrét dóttir Bjarna mætt eins og fram hefur komið. Þá voru Hersir Aron Ólafsson og Nanna Kristín Tryggvadóttir mætt en þau hafa bæði verið aðstoðarmenn Bjarna.

Annað sem vakti athygli er að formenn stærstu ungliðahreyfinga Sjálfstæðisflokksins voru hvergi sjáanlegir. Þar er bæði um að ræða Viktor Pétur Finnsson, formann SUS og Júlíus Viggó Ólafsson, formann Heimdallar - félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þeir áttu eftir að láta sjá sig á fundi Guðrúnar Hafsteinsdóttir. Viktor Pétur greindi fréttastofu frá því að hann hafi verið erlendis þegar Áslaug boðaði til fundarins og komst því ekki.

Tveir fyrrverandi formenn Heimdallar létu þó sjá sig, lögmaðurinn Ingvar Smári Birgisson sem er yfirlýstur Áslaugarmaður og Albert Guðmundsson, formaður Varðar - fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sem hefur verið viðriðinn Gulla-arm flokksins.

Þarna voru líka Inga Lind Karlsdóttir fjölmiðlakona, Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, Einar Bollason, fyrrverandi formaður KKÍ, Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands og Tómas Þór Þórðarson, nýr starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Tveir bæjarstjórar, oddviti í borginni og fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa

Tæpum tveimur vikum eftir fund Áslaugar birtu 27 sveitarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, vítt og breitt af landinu, skoðanagrein á Vísi undir nafninu „Styðjum Áslaugu Örnu - sameinumst um grunngildin“.

Meðal þeirra sem setja nafn sitt við greinina eru Ásthildur Sturludóttir, sem hefur verið bæjarstjóri Akureyrarbæjar frá 2018 og var þar áður bæjarstjóri Vesturbyggðar frá 2010 til 2018; Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi og Hildur Björnsdóttir, oddviti flokksins í Reykjavík.

Þarna eru líka Andri Steinn Hilmarsson og Elísabet Berglind Sveinsdóttir, bæjarfulltrúar í Kópavogi; Freyr Antonsson, forseti sveitarstjórnar í Dalvíkurbyggð; Friðjón R Friðjónsson, borgarfulltrúí í Reykjavík; Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar í Húnabyggð; Hafrún Olgeirsdóttir, formaður byggðarráðs Norðurþing; Heimir Örn Árnason, forseti bæjarstjórnar á Akureyri; Jósef Ó. Kjartansson, forseti bæjarstjórnar í Grundarfjarðarbæ; Jóhann Birkir Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ; Líf Lárusdóttir, formaður bæjarráðs á Akranesi; Ragnhildur Jónsdóttir og Magnús Örn Guðmundsson, forseti og varaforseti bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi; Orri Björnsson, formaður skipulags- og byggingarráðs í Hafnarfirði og Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.

Á listanum er líka Margrét Bjarnadóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ og dóttir Bjarna Benediktssonar, sem mætti á fund Áslaugar og kemur aftur við sögu síðar.

Umkringd stuðningsmönnum á sviðinu

Guðrún Hafsteinsdóttir hélt framboðsfund sinn tæpum tveimur vikum á eftir Áslaugu. Skipuleggjendur fundarins höfðu greinilega fylgst vel með fundi Áslaugar og passað að myndmálið væri gjörólíkt. Hefðbundið merki flokksins var fyrirferðamikið og stuðningsmenn Guðrúnar flykktu sér í kringum hana uppi á sviðinu.

Júlíus Viggó Ólafsson, formaður Heimdallar, kynnti Guðrúnu á svið.Vísir/Vésteinn

Fundurinn hófst á innblásinni ræðu Júlíusar Viggós Ólafssonar, formanns Heimdallar, sem hafði ekki látið sjá sig á fundi Áslaugar. Hann hefur verið yfirlýstur Guðlaugsmaður síðustu ár.

Eftir að hafa gengið inn við lagið „Sweet Caroline“ flutti Júlíus ræðu þar sem hann kom meðal annars inn á innanflokksátök í flokknum, fylkingar og persónuleikapólitík. Án efa vísaði hann þar í átaka á milli Guðlaugs Þórs og Áslaugar Örnu, sem kristölluðust í prófkjöri í Reykjavík í aðdraganda þingkosninganna 2021.

Júlíus gerði  mikið úr því að flokkurinn þyrfti að standa sameinaður fremur en sundraður, og sagði engan betri kost til að kveða innanflokksmeinin í kútinn en Guðrúnu.

Guðrún steig svo í pontu og lagði mikla áherslu á opna þyrfti faðm flokksins, höfða til fleiri kjósenda og koma flokknum aftur í bílstjórasætið í íslenskum stjórnmálum.

Tveir sitjandi þingmenn

Fleira greindi á milli fundanna en útlit og áferð, hjá Guðrúnu mátti sjá tvo sitjandi þingmenn flokksins. Skagamaðurinn Ólafur Adolfsson, nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi, mætti og fylkti sér að baki Guðrúnu, ásamt her manna, meðan hún flutti framboðsræðu sína.

Ekki er hægt að flokka það sem annað en stuðningsyfirlýsingu.

Annar þingmaður sem mætti var Vilhjálmur Árnason, þingmaður Suðurkjördæmis. Hann og Guðrún mættust í prófkjöri í aðdraganda þingkosninganna 2021, og börðust þar um fyrsta sætið. Þar hafði Guðrún betur og Vilhjálmur varð að láta sér annað sætið lynda.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, var mættur á fundinn.

Vilhjálmur sást svo í síðustu viku á viðburðinum Á trúnó með Áslaugu Örnu sem fór fram í Fant­as­íu-saln­um á Kjar­val þar sem Áslaug var spurð ýmissa spurninga af hlaðvarpsstjórnendunum Krist­ínu Gunn­ars­dóttur og Gísla Frey Valdórsson. Vilhjálmur hefur fullyrt við fréttastofu að hann sé ekki eindreginn stuðningsmaður annars hvors frambjóðandans.

Úr suðurkjördæmi mætti líka Ásmundur Friðriksson, sem sat á þingi fyrir flokkinn frá 2013 þar til í fyrra þegar hann missti sæti sitt. 

Ásmundur Friðriksson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, lét sig ekki vanta. Í blörruðum bakgrunni má sjá hinn klassíska Sjálfstæðisfálka.

Bæjarstjórar, sveitarstjórar og borgarfulltrúar

Fleiri embættismenn og kjörnir fulltrúar voru á fundi Guðrúnar. Aldís Hafsteinsdóttur, sveitarstjóra Hrunamannahrepps og systir Guðrúnar, stóð uppi á sviði með systur sinni. Jón Bjarnason, oddviti Sjálfstæðismanna í Hrunamannahreppi, var einnig viðstaddur.

Haraldur Benediktsson, fyrrverandi þingmaður og núverandi bæjarstjóri á Akranesi, var mættur, sem og Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss. Elliði var orðaður við formannsframboð en virðist styðja kyrfilega við Guðrúnu og féllust þau í faðma á fundinum.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, og Guðrún fallast hér í faðma eftir fundinn.

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi og Helgi Áss Grétarsson varaborgarfulltrúi voru bæði á svæðinu, sem og Bessí Jóhannsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður og núverandi formaður Sambands eldri sjálfstæðismanna. Bessí skrifaði síðan stuðningsgreinina „Guðrúnu fylgir ferskur blær, reynsla og styrkur“ í Morgunblaðið í gær.

Ármann Kr. Ólafsson, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogsbæjar, var einnig mættur rétt eins og Eyþór Arnalds, fyrrverandi oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Kosningamaskínur, Gullafólk og Ágústa Johnson

Einnig voru mættir ýmsir einstaklingar tengdir Guðlaugi Þór Þórðarsyni á fundinn. Þar á meðal Steinar Ingi Kolbeins og Unnur Brá Konráðsdóttir, aðstoðarmenn Guðlaugs í umhverfismálaráðuneytinu.

Janus Arn Guðmundsson og Heimir Hannesson voru báðir mættir en þeir hafa í gegnum tíðina unnið sem teymi við hinar ýmsu kosningabaráttur. Síðast unnu þeir að forsetaframboði Baldurs Þórhallssonar en þar áður í kosningabaráttu Guðlaugs í formannsframboði 2022.

Salurinn var stappfullur af fólki.

Viðskiptamaðurinn Bolli Thoroddsen var einnig viðstaddur, en hann hefur komið að ýmsum kosningamálum Guðlaugs Þórs í gegnum árin. Eins voru Arent Orri J. Claessen, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og Sylvía Martinsdóttir, forseti Landssambands ungmennafélaga á svæðinu.

Stærsta nafnið sem mætti var þó Ágústa Johnson, fyrirtækjarekandi, sem mætti án eiginmanns síns, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Talið er að framboð Guðrúnar muni erfa mikið af þeim stuðningi sem Guðlaugur naut í formannsframboði sínu.

Ýmsir fulltrúar iðnaðarins mættu. Þar á meðal Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins; Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka verslunar og þjónustu og Vigdís Häsler, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bændasamtakanna.

Jón Ólafur ritaði síðan skoðanagreinina „Guð­rún Haf­steins­dóttir, leið­togi með sterka fram­tíðar­sýn“ á Vísi í gær til að undirstrika stuðning sinn.

Bræðurnir Árni Grétar Finnsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Guðrúnar í dómsmálaráðuneytinu og Viktor Pétur Finnsson, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, voru auðvitað líka mættir.

Hallarbylting í Fossvogi og aðstoðarmaður meðal gesta

Kosningamaskínur beggja aðila höfðu auðvitað verið á fullu að undirbúa framboðin síðustu vikur. Harkan byrjaði af alvöru þegar hin ýmsu félög flokksins hófu að úthluta landsfundarsætum. Ásakanir um smalanir á bæði hverfisfundi og fundi annarra félaga fóru þá á loft.

Fyrst lýsti Erlendur Borgþórsson, fyrrverandi formaður félags sjálfstæðismanna í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfi, því yfir að stuðningsmenn Áslaugar hefðu smalað á hverfisfund félagsins 12. febrúar og gert hallarbyltingu.

Hann sagði þekkta stuðningsmenn Áslaugar, Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga og Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúa, hafa mætt á fundinn og látið mikið í sér heyra. Óttar bauð sig fram til formanns félagsins á fundinum en Friðjón vísaði ásökunum Erlends á bug, hann hefði ekkert tjáð sig og það væri auk þess ekkert nýtt að smalað væri á fundi.

Fundurinn fór svo aftur í fréttir þegar kom í ljós að Björg Magnúsdóttir, þáverandi aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar, hafði mætt á fundinn. Hún er góð vinkona Áslaugar og mætti til að mynda í stuðningsmannapartý Áslaugar í Iðnó í gær.

Smalanir, biðröð og öguð fundarstjórn

Tveimur dögum eftir fundinn í Fossvoginum var haldinn annar hitafundur. Heimdallur, félag ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, hélt þá fund í Valhöll til að bera upp til samþykktar lista af þeim fulltrúum sem félagið vildi senda á landsfund. 

Fyrir fundinn var ljóst að það stefndi í smölun og sendu stuðningsmenn Áslaugar út skilaboð til að hvetja fólk til að mæta svo hennar fólk fengi sæti á landsfundi. 

Tímasetning fundarins vakti einnig athygli en hún var klukkan tvö á föstudegi meðan flestir hverfisfundanna fóru fram að loknum vinnudegi.

Á endanum komust færri að en vildu, biðröð myndaðist fyrir utan fundinn og stóð fjöldi fólks enn í röðinni þegar fundinum lauk. 

Svo fór að listinn sem stjórn Heimdallar bar upp hlaut yfirgnæfandi meirihluta í kosningu en Júlíus Viggó Ólafsson, formaður Heimdallar, er yfirlýstur stuðningsmaður Guðrúnar eins og fram hefur komið. Heimdallur fær 44 sæti á Landsfund en í það heila eru þau um tvö þúsund.

Birta Karen Tryggvadóttir, stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna, var meðal þeirra sem sótti fundinn og gerði hún alvarlegar athugasemdir við fundarstjórn hans. Fjöldi fólks hafi mætt tímanlega en skráning inn á fundinn gengið löturhægt, fólk hafi ekki fengið að leggja fram breytingartillögur og mælendaskrá hafi ekki verið virt.

Júlíus Viggó svaraði ásökunum Birtu og sagði miður að einhverjir hafi misst af fundinum en það hafi þurft að hefja hann á auglýstum tíma.

Málinu var þó ekki alveg lokið því Albert Guðmundsson, formaður Varðar og fundarstjóri á fundinum, fann sig knúinn til að svara „grófum“ ásökunum og rangfærslum Birtu. Hann sagði rangt að félagsmenn hafi ekki fengið að koma inn, allir þeir sem mættu á réttum tíma hafi náð að kjósa og fundargestir hafi fengið að leggja fram breytingartillögur en engin slík verið lögð fram.

Albert viðurkenndi þó að hafa haldið uppi „agaðri fundarstjórn“ og sér þætti leitt ef einhverjir hafi upplifað það sem dónaskap.

Steinar Ingi Kolbeins, Albert Guðmundsson og Tinna Eyvindardóttir á níutíu ára afmæli Vöku. Steinar Ingi er fyrrverandi aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs og Tinna er í stjórn Heimdallar.

Steinsmuga og skoðanagreinaflóð

Eftir þessa átakafundi í hinum ýmsu félögum Sjálfstæðisflokksins má segja að hlutirnir hafi róast. Kosningabaráttan hélt auðvitað áfram og frambjóðendurnir tveir ferðuðust um landið.

Þó kom upp matareitrun á Þorrablóti Jökuldælinga, Hlíðar- og Tungumanna í Brúarásskóla fyrir austan. Guðrún Hafsteinsdóttir var stödd á blótinu en að sögn Sigvaldi H. Ragnarsson, bóndi í þorrablótsnefndinni, slapp hún alveg við matareitrunina.

Rúmlega viku fyrir landsfundinn hóf síðan að birtast fjöldi stuðningsyfirlýsinga fólks við framboðin tvo. Merkjanlegan mun er að greina á greinum og stuðningsyfirlýsingum fylkinganna tveggja. 

Í fyrsta lagi leggja nær allir þeir sem lýsa yfir stuðningi við Áslaugu áherslu á framtíðina og að hún sé leiðtogi framtíðarinnar meðan greinar til stuðnings Guðrúnar hafi minna greinanlegan fókuspunkt. Þó koma margir inn á það að Guðrún sé sameinandi afl.

Í öðru lagi virðist skipulag á greinarbirtingu greina til stuðnings Áslaugu vera mun markvissari, þær eru fleiri og birtast mun tíðar auk þess sem margar þeirra eru skrifaðar í nafni hópa.

Bjarnabörn, áhrifavaldar og athafnamenn

Fyrstu greinina sem ber að nefna er „Áslaug Arna er framtíðin“ sem birtist á Vísi þann 19. febrúar. Undir greinina skrifa 260 ungir Sjálfstæðismenn sem lýsa yfir stuðningi við Áslaugu sem næsta formann. 

Hin ýmsu stefnumál Áslaugar eru rakin og svo vísað í könnun Gallup frá 9. til 21. janúar um for­mannskjör Sjálf­stæðis­flokksins þar sem Áslaug mælist með 53 prósent stuðning meðal fólks á aldrinum 18 til 29 ára.

Fjölda forvitnilegra nafna er að finna meðal þessara 260 ungu Sjálfstæðismanna. 

Þrjú börn Bjarna Benediktssonar eru á listanum: Margrét Bjarnadóttir, Benedikt Bjarnason og Helga Þóra Bjarnadóttir. Sunneva Eir Einarsdóttir, tengdadóttir Bjarna og áhrifavaldur, er þar líka ásamt vinkonum sínum úr LXS, Birgittu Líf Björnsdóttur og Hildi Sif Hauksdóttur.

Sunneva Eir og Hildur Sif eru fyrstar frá vinstri og Birgitta Líf sú fjórða frá vinstri.

Á listanum er líka að finna þrjú börn Ólafar Nordal heitinnar, sem var innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, þau Dóru Tómasdóttur Nordal, Herdísi Tómasdóttur og Jóhannes Tómasson. Lísbet Sigurðardóttir, eiginkona Jóhannesar, lögfræðingur Viðskiptaráðs og fyrrverandi starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, skrifar einnig undir greinina.

Kollegi Lísbetar, Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, skrifa undir greinina. Það gera einnig Guðný Halldórsdóttir, blaðamaður hjá Viðskiptablaðinu og Andrea Sigurðardóttir, fréttastjóri viðskiptaritstjórnar Morgunblaðsins og formaður Hvatar, félags Sjálfstæðiskvenna í Reykjavík.

Hersir Aron Ólafsson og Rósa Kristinsdóttir hjá Fortuna Invest skrifa bæði undir listann.

Ýmsir fyrrverandi aðstoðarmenn eru á listanum. Auðvitað tveir fyrrverandi aðstoðarmenn Áslaugar, Andri Steinn Hilmarsson og Eydís Arna Líndal, en líka Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar og Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur.

Ólöf Kristrún Pétursdóttir Blöndal, formaður Ungra athafnakvenna, er á listanum sem og athafnamaðurinn Styrkár Jökull Davíðsson, eigandi Skugga bars; Orri Heiðarsson, starfsmaður Fossa og sonur Heiðars Guðjónssonar, og Páll Orri Pálsson, verðbréfamiðlari sem laut í lægri haldi fyrir Júlíusi Viggó í formannsslag Heimdallar árið 2023. Áslaug Arna mætti í afmæli þess síðastnefnda í vikunni.

Sigrún Jonný Óskarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Heimdallar og Halla Sigrún Mathiesen, fyrrverandi formaður SUS, eru sömuleiðis á listanum auk fjölda annarra.

Næstu vikuna birtust áfram skoðanagreinar fólks á bæði Vísi og í Morgunblaðinu í tengslum við formannsslaginn.

Ásta Möller, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks, lýsti yfir stuðningi við Áslaugu 20. febrúar með greininni „Leiðtogi nýs tíma“ í Morgunblaðinu.

Ásta Möller hefur starfað sem sviðsstjóri samskiptasviðs við Háskóla Íslands.Mynd/Háskóli Íslands

Tryggvi Hjaltason, Eyjamaður og formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins, skrifaði greinina „Sjö ástæður fyrir því að ég styð Áslaugu Örnu“ í Morgunblaðið tveimur dögum síðar. Sama dag birti Sævar Jónsson, fyrrverandi formaður blikksmiðafélagsins, greinina „Sameinumst - Stétt með stétt“ í Vísi og sálfræðingurinn Hafrún Kristjánsdóttir skrifaði greinina „Ás­laug Arna er leið­toginn sem Sjálf­stæðis­flokkurinn þarf“.

Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins, skrifaði sunnudaginn 23. febrúar greinina „Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir til formanns Sjálfstæðisflokksins - kraftur nýrra tíma“.

Mánudaginn 24. febrúar lýsti Hildur Sverrisdóttir svo yfir stuðningi við Áslaugu, eins og fram hefur komið, með grein í Morgunblaðinu. Þar skrifaði Vala Pálsdóttir, fyrrverandi formaður Landssambands Sjálfstæðiskvenna, líka greinina „Að kjósa með framtíðinni“. 

Sama dag mættust Áslaug og Guðrún í pallborði á Vísi þar sem þær tókust á um málefnin og ræddu sínar áherslur. Þær lýstu því báðar yfir að næðu þær ekki kjöri myndu þær ekki bjóða sig fram til varaformanns.

Niðurstöður úr könnun Gallup fyrir Ríkisútvarpið birtust síðdegis eftir kappræður frambjóðandanna. Þar kom fram að fleiri landsmenn vilja Guðrúnu sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins en Áslaugu. Könnunin náði auðvitað ekki til landsfundarfulltrúa heldur til landsmanna svo niðurstöðurnar hafa lítið spágildi. Þá tóku fjórir af hverjum tíu í könnuninni ekki afstöðu til spurningarinnar.

Sjá einnig: Guðrún nýtur meiri stuðnings hjá almenningi

Alls vildu 48 prósent þeirra sem tóku afstöðu að Guðrún yrði formaður en hlutfallið var 42 prósent hjá þeim sem hugnast frekar Áslaug Arna. 

Áslaug Arna mældist mun sterkari hjá fólki undir fertugu en dæmið snýst við svo um munar hjá kjósendum yfir fertugu. Þannig vilja 67 prósent kjósenda undir þrítugu Áslaugu Örnu en 78 prósent kjósenda yfir sjötugu Guðrúnu.

Kanónur, iðnaðarmenn og fyrrverandi þingmenn

Greinastíflan brast svo fimmtudaginn 27. febrúar, degi fyrir byrjun landsfundar, þegar ellefu skoðanagreinar birtust í Fimmtudagsmogganum og fimm greinar til viðbótar birtust á Vísi.

Kanónurnar Bessí Jóhannsdóttir, formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri frá 2006 til 2007, lýstu yfir stuðningi við Guðrúnu í Morgunblaðinu. Þorkell Sigurlaugsson, varaborgarfulltrúi og nýkjörinn formaður hverfafélags Laugarás- og Túnahverfa, lýsti einnig yfir stuningi við Guðrúnu í blaðinu.

Vilhjálmur, Bessí og Þorkell lýstu yfir stuðningi við Guðrúnu í gær.Vísir/Owen Faist/aðsend

Í sama blaði lýsti Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, yfir stuðningi við Áslaugu (eins og fram hefur komið), rétt eins og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi; Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við HÍ og meðstofnandi líftæknifyritækisins Zymetech og Birna Bragadóttir, formaður Hvatar, félags Sjálfstæðiskvenna í Reykjavík.

Berglind Ósk og Birna Bragadóttir styðja Áslaugu.

„Áslaugu Örnu fyrir atvinnulíf framtíðarinnar“ birtist einnig í blaðinu en undir hana skrifa fjórir atvinnurekendur. Þar á meðal Orri Björnsson, forstjóri Algalífs; Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.

Einnig skrifuðu tíu Sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi greinina „Leiðtogi nýrra tíma“ sem birtist í bæði Morgunblaðinu og á Vísi. Þá birta tíu meistarar úr ýmsu iðngreinum skoðanagreinina „Öflugur iðnaður, sterkt sam­félag – Guð­rún Haf­steins­dóttir veit hvað þarf“. Guðrún var formaður Samtaka Iðnaðarins frá 2014 til 2020 og margir þaðan lýst yfir stuðningi við hana.

En það fóru ekki bara skoðanagreinar í loftið þennan daginn heldur líka skeytasendingar. Jón Gunnarsson, sem hafði legið undir feldi með framboð til varaformanns, birti færslu á Facebook þar sem hann gagnrýndi Guðrúnu fyrir að skreyta sig stolnum fjöðrum og gera lítið úr forverum sínum í dómsmálaráðuneytinu.

Jón brást í færslunni við yfirlýsingum Guðrúnar í Spursmálum fyrr í vikunni þar sem hún hafði lýst árangri sínum í dómsmálaráðuneytinu við að koma í gegn breytingum á útlendingalögum sem engum öðrum hafði tekist. Jón sagði árangur Guðrúnar byggja á sameiginlegu átaki forvera hennar og þingflokks Sjálfstæðisflokksins. 

Taldi hann réttara að hún leiðrétti þessar yfirlýsingar sínar og sagðist hann nauðbeygður til að ávarpa Guðrún á vettvangi Facebook þar sem hún hafi hunsað persónuleg skilaboð hans til hennar.

Um svipað leyti birtist yfirlýsing annars þingmanns í tengslum við landsfundinn á Facebook. Jón Pétur Zimsen, nýr þingmaður Sjálfstæðisflokks, lýsti þar yfir að hann ætlaði sér að kjósa Áslaugu Örnu.

Landsfundur hafinn

Eftir pillurnar í gær birti Jón Gunnarsson í morgun greinina „Ég hef trú á Áslaugu Örnu“ í Morgunblaðinu. Þar lýsti hann því yfir að hann hygðist styðja Áslaugu til formanns.

Á Vísi birtist á svipuðum tíma skoðanagreinin „Ert þú ung kona á leiðinni á lands­fund?“ eftir rúmlega 40 ungar Sjálfstæðiskonur sem lýstu því yfir að þær ætluðu að kjósa Guðrúnu.

Hvað sem líður stuðningsyfirlýsingum þvers og kruss er ljós að formannsslagurinn milli Áslaugar og Guðrúnar verður æsispennandi. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var settur klukkan 16:30 í dag með setningarræðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem horfa má á í streymi hér að neðan:

Landsfundi lýkur á sunnudag þegar í ljós kemur hver verður næsti formaður flokksins. Öllum ræðum á fundinum verður streymt í beinni útsendingu. Hægt er að skoða dagskránna og fylgjast með ræðuhöldum í greininni hér fyrir neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×