Fótbolti

Sigur­vegarinn í ein­vígi Real Madrid og City vinni Meistara­deildina

Aron Guðmundsson skrifar
Carlo Ancelotti og Pep Guardiola hafa mæst reglulega með sín lið
Carlo Ancelotti og Pep Guardiola hafa mæst reglulega með sín lið Vísir/Getty

Carlo Ancelotti, þjálfari spænska stórveldisins Real Madrid, segir að sigurvegarinn í einvígi liðsins gegn Manchester City í Meistaradeild Evrópu muni fara alla leið í keppninni í kjölfarið. Vinna hana. 

Real Madrid og Manchester City mætast í fyrri leiknum í einvígi sínu um laust sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Þar eru liðin stödd eftir brösótt gengi í deildarkeppni Meistaradeildarinnar því ekki tókst þeim að landa einu af átta toppsætum hennar og þar með beinan farmiða í 16-liða úrslitin.

Ancelotti er hins vegar hvergi banginn, enda gengið vel heima fyrir og jú einnig betur þegar að leið á deildarkeppni Meistaradeildarinnar. Á sama tíma hefur Manchester City verið í brasi á nær öllum vígstöðum á yfirstandandi tímabili.

Real Madrid á titil að verja í Meistaradeildinni. Madrídingar höfðu betur gegn Borussia Dortmund í úrslitaleik síðasta árs.Vísir/Getty

Ancelotti er hins vegar fullviss um að það lið sem endar ofan á í einvígi liðanna muni í kjölfarið fara alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og gott betur en það. Hann spáir því að annað hvort Real Madrid eða Manchester City vinni Meistaradeildina í ár.

„Þeir eru eitt besta lið Evrópu, eru með besta knattspyrnustjórann. Það er martröð að undirbúa sig fyrir leiki gegn þeim því hann er alltaf með hugmyndir og það fær mann til að hugsa. Ég er viss um að það lið sem kemst áfram frá þessu einvígi fari alla leið og vinni keppnina,“ sagði Ancelotti á blaðamannafundi í aðdraganda leiksins. 

Og saga undanfarinna ára gæti vel stutt trú Ancelotti á liðunum. Þetta er fjórða árið í röð þar sem að Manchester City og Real Madrid hafa mæst á einhverju stigi Meistaradeildarinnar. Real Madrid hefur þar í tvígang haft betur og Manchester City sömuleiðis. Ancelotti kallar viðureign þessara liða Clasico Meistaradeildarinnar.

Sigurvegari þriggja síðustu einvíga þessara liða í Meistaradeildinni hefur svo farið alla leið og unnið keppnina. Árið var 2021 þegar að annað lið heldur en Real Madrid eða Manchester City vann Meistaradeild Evrópu. Það árið var það Chelsea.

Fyrri leikur Manchester City og Real Madrid hefst klukkan átta í kvöld á Etihad leikvanginum í Manchesterborg og verður sýndur í beinni útsendingu á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×