Kennarar á Leikskóla Seltjarnarness segja niðurstöðuna hafa komið á óvart. Formaður Kennarasambandsins sagði í gær að vel kæmi til greina að grípa til frekari aðgerða.
„Við erum alveg reiðubúin til að kjósa aftur. Ég heyri í strafsmönnum og þau eru öll til í það að halda áfram og ef við þurfum að fara í verkfall förum við í verkfall. En vonandi verður búið að greiða úr þessu fyrir það,“ segir Auður Björg Guðmundsdóttir, deildarstjóri á Leikskóla Seltjarnarness. Helga Lotta Reynisdóttir, kollegi hennar, tekur undir þetta.
„Fólk er bara reiðubúið til að fara alla leið og vill bara landa samning. Það sem ég hræðist mest, og ég veit að margir hræðast mikið, er að það verði flótti úr stéttinni og við megum ekki við því.“
„Þetta er bara pínu sorgardagur“
Fólk verði að muna að verkfallsaðgerðir bitni mest á þeim sem fái besta og faglegasta þjónustu. Foreldrar á Seltjarnarnesi hafi til dæmis fundið mikið fyrir aðgerðum vegna þess að þar séu hlutfallslega margir faglærðir. Ekki allir búi svo vel.
„Það verður að hafa það á bak við eyrað að þetta á að vera svona almennt. Svona á staðan að vera alls staðar og það er svo langt í frá,“ segir Sesselja Kristjánsdóttir, tónlistarkennari við skólann. Það sé meðal ástæðna fyrir því að lítill vilji sé fyrir allsherjarverkfalli.
„Það eru rosa margir leikskólar um land allt þar sem er hreinlega ekki fagfólk til staðar til að fara í verkfall,“ segir Helga.
Fjölmargir kennarar, þar á meðal þær þrjár, mættu í svörtu í vinnuna í morgun.
Hvers vegna?
„Þetta er bara pínu sorgardagur. Manni finnst að manni sé kippt út úr baráttunni, svolítið neyddur aftur til að vinna þó maður sé alltaf glaður að koma aftur í vinnuna - þó ekki á þennan hátt. Við hefðum viljað koma af því að við hefðum náð að landa samningi og náð að semja almennilega.“