Fótbolti

Biður liðið um að láta ekki blekkjast af sigri gær­dagsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roy Keane var ekki hrifinn af því sem hann sá frá Manchester United gegn Leicester í  gær.
Roy Keane var ekki hrifinn af því sem hann sá frá Manchester United gegn Leicester í  gær. Michael Regan/Getty Images

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og núverandi sparkspekingur, segir að frammistaða liðsins hafi verið langt frá því að vera nógu góð þrátt fyrir sigur gegn Leicester í enska bikarnum í gær.

Manchester United vann dramatískan 2-1 sigur gegn Leicester í fjórðu umferð FA-bikarsins í gærkvöldi. Harry Maguire reyndist hetja liðsins þegar hann skoraði sigurmark United á þriðju mínútu uppbótartíma gegn sínum gömlu félögum.

Sigurmarkið var þó umdeilt og á endursýningum má sjá að Maguire, sem og þrír aðrir leikmenn United, voru rangstæðir þegar Bruno Fernandes tók aukaspyrnuna sem rataði á kollinn á Maguire. Engin myndbandsdómgæsla er þó á þessu stigi keppninnar og markið fékk því að standa.

Roy Keane var hins vegar ekki hrifinn af því sem hann sá frá sínum gömlu félögum. 

„United slapp með skrekkinn. Ekki láta blekkjast af þessum sigri,“ sagði Keane á Sky Sports eftir leikinn í gær.

„Við verðum að hrósa þeim af því að þeir eru komnir í næstu umferð, en ef þeir halda áfram að spila svona - þessi frammistaða var langt frá því að vera nógu góð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×