Handbolti

Dagur til bjargar hjá frönsku stórliði

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Gautason hefur staðið sig frábærlega í Noregi og tekur nú stórt stökk til eins af bestu liðum Frakklands.
Dagur Gautason hefur staðið sig frábærlega í Noregi og tekur nú stórt stökk til eins af bestu liðum Frakklands. ÖIF Arendal

Handboltamaðurinn Dagur Gautason hefur samið við franska stórveldið Montpellier og kemur inn í liðið til að leysa af hólmi sænska landsliðsmanninn Lucas Pellas, sem sleit hásin.

Frá þessu greina franskir miðlar og segja að Dagur sé væntanlegur til Montpellier í dag, og að vonir standi til þess að allri pappírsvinnu ljúki fljótt svo að hann geti spilað bikarleik gegn Aix á laugardaginn.

Dagur, sem er uppalinn hjá KA, hefur farið á kostum með Arendal í norsku úrvalsdeildinni og var valinn besti vinstri hornamaður deildarinnar á síðustu leiktíð. Hann hefur svo haldið áfram að standa sig vel í vetur og er langmarkahæstur í liðinu með 83 mörk í 17 leikjum, og í 9. sæti yfir markahæstu menn í allri deildinni.

Til marks um styrk Montpellier þá voru níu leikmenn liðsins að spila á nýafstöðnu heimsmeistaramóti. Þeirra á meðal var Lucas Pellas sem eins og fyrr segir getur ekki spilað meira á leiktíðinni vegna meiðsla.

Forráðamenn Montpellier ákváðu því að bregðast hratt við, enda í harðri samkeppni á nokkrum vígstöðvum, og eftir nokkur símtöl var lendingin sú að fá Dag til félagsins. Liðið er í 3. sæti frönsku deildarinnar en aðeins þremur stigum á eftir Nantes og PSG, auk þess að spila í Evrópudeildinni.

Montpellier hefur fjórtán sinnum orðið franskur meistari, síðast árið 2012, þrettán sinnum bikarmeistari og tvívegis unnið Meistaradeild Evrópu, síðast árið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×