Innlent

Ók á móti um­ferð á flótta frá lög­reglunni

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Bílar þeysast áfram í morgunumferðinni. Réttu megin samt sem áður.
Bílar þeysast áfram í morgunumferðinni. Réttu megin samt sem áður. Vísir/Vilhelm

Lögregla var með ölvunarpóst á Bústaðarvegi og voru þrír ökumenn handteknir þar grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Einn reyndi að flýja af vettvangi og ók á móti umferð en var stöðvaður eftir stutta eftirför.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. Átta gistu í fangageymslu lögreglu og voru 85 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu. 

Lögreglustöð 1, sem nær yfir miðbæ, austurbæ, vesturbæ og Seltjarnarnes, barst tilkynning um einstakling sem hegðaði sér undarlega. Lögregla fór á staðinn en þá var viðkomandi ekki í ástandi til að sjá um sig vegna ölvunar eða vímuefnaneyslu. Honum var boðið að gista í fangaklefa þangað til hann væri betur staddur og þáði viðkomandi það.

Talsvert var um minniháttar mál í miðbænum vegna ölvunar að því er fram kemur í dagbókinni.

Lögregla var kölluð til vegna þjófnaðar í þremur verslunum í umdæmi lögreglustöðvar 2, sem nær yfir Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes. Öll málin voru leyst með skýrslutöku á vettvangi.

Þá hafði lögregla afskipti af fólki á stolnum bíl. Fólkið var handtekið en það reyndist einnig vera undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×