Við sögðum nýlega frá kiðlingunum Frosta og Snæ, sem eru bræður en þeir komu óvænt í heiminn í byrjun janúar hjá Önnu Maríu geitabónda en geitur bera yfirleitt á vorin eins og kindur. En Anna, sem er með nokkrar geitur er svo klár handverkskona að hún hefur tekið upp á því að vinna fatnað úr fiðunni á geitunum sínum eins og þetta fallega vesti. Kasmír er alþjóðaheitið á þeli geita en á íslensku heitir það fiða eða geitafiða.
„Ég er einmitt að fara á eftir að sækja það, sem ég kalla góssið mitt til hennar Huldu í Uppspuna en hún er búin að vera að vinna úr fiðunni, sem ég fór með til hennar í vinnslu. Og það er spennandi skal ég segja þér, ég bíð spennt að fara að prjóna úr því,” segir Anna María.
Hún segir ótrúlega seinlegt að spinna geitafiðu og því láti hún vinna það verk fyrir sig hjá Huldu eins og hún nefnir en Hulda, sem er Brynjólfsdóttir er með Uppspuna, sem er smáspunaverksmiðja á bænum Lækjartúni í Ásahreppi.
„Ég vona að það séu margir, sem að nýta fiðuna af því að þetta er algjört gull en það er erfitt því t.d. þegar þær eru búnar að bera í apríl flestar, þá fer að losna af þeim háls fiðan og svo þegar hún er mjög laus þá fer að losna af belgnum og þá er eiginlega fyrst hægt að kemba þær almennilega og ná fiðunni án þess að hárreyta þær, því það er ekki hægt að rýja þær, það verður að kemba þær. Og þá fær maður kannski 50 til 100 grömm af einni geit,” segir Anna María.

En er ekki mikil vinna að útbúa geita vesti og annað sem tilheyrir vestinu og klæðnaðinum?
„Þetta er bara eins og allur búskapur, það er allt vinna. Það er bara spurning hversu gaman maður hefur af því. Ef það er gaman þá er það ekki mikil vinna en ef það er leiðinlegt þá er það alveg hellings vinna,” segir Anna María.
Og á Ullarviku Suðurlands í haust tók Anna María þátt í tískusýningu í félagsheimilinu Þingborg í Flóahreppi þar sem hún sýndi vestið sitt við mikla hrifningu gesta.
