Handbolti

Stjarnan réði ekki við hraðann á Sel­fossi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Selfyssingar skoruðu tíu mörk úr hraðaupphlaupum eftir að Stjarnan tapaði boltanum. Myndin er úr einvígi liðanna árið 2022.
Selfyssingar skoruðu tíu mörk úr hraðaupphlaupum eftir að Stjarnan tapaði boltanum. Myndin er úr einvígi liðanna árið 2022. vísir / viktor

Selfoss tók á móti Stjörnunni í þrettándu umferð Olís deildar kvenna og vann fimm marka sigur. 27-22 urðu lokatölur eftir að Selfoss skoraði síðustu þrjú mörk leiksins.

Stjarnan lét snemma eftir og missti Selfyssinga langt fram úr sér eftir aðeins tíu mínútna leik. Staðan breyttist þá úr 3-3 í 10-5 á aðeins sex mínútum og Selfyssingar héldu þriggja til fimm marka forystu það sem eftir lifði leiks.

Stjörnustelpur réðu einfaldlega ekki við hraðann í Selfyssingum, sem skoruðu heil tíu mörk úr hraðaupphlaupum eftir að gestirnir töpuðu boltanum.

Perla Ruth Albertsdóttir varð markahæst í sigurliði Selfoss, með átta mörk úr níu skotum. Harpa Valey Gylfadóttir og Katla María Magnúsdóttir fylgdu henni eftir með fimm mörk hver.

Hjá Stjörnunni voru Eva Björk Davíðsdóttir og Embla Steindórsdóttir markahæstar með sjö mörk hver.

Liðin eru í fjórða og fimmta sæti deildarinnar. Selfoss sæti ofar með þrettán stig, Stjarnan með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×