Innlent

Halla óskar Trump vel­farnaðar í em­bætti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Halla segist tilbúin til að leggja sitt á vogarskálarnar í bréfi sínu til Trump.
Halla segist tilbúin til að leggja sitt á vogarskálarnar í bréfi sínu til Trump.

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hefur sent Donald Trump heillaóskir frá sér og íslensku þjóðinni. Trump sver embættiseið í dag, klukkan 17 að íslenskum tíma.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að í bréfi forseta fagni hún farsælu stjórnmálasambandi ríkjanna um áratuga skeið og árétti að sem stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu deili Ísland og Bandaríkjunum sameiginlegum gildum og hagsmunum.

„Við Íslendingar metum mikils vináttu okkar við Bandaríkjamenn og sívaxandi gagnkvæm tengsl, meðal annars á sviði viðskipta, menntunar, menningar og ferðaþjónustu,“ er haft upp úr bréfinu.

Þá segir í tilkynningunni:

„Forseti vekur máls á því að Ísland njóti þeirrar gæfu að teljast friðsælasta land heims og vilji beita sínum áhrifum til góðra verka. Þá minnist forseti leiðtogafundarins í Höfða þegar Ísland varð vettvangur sögulegra viðræðna milli Ronalds Reagans og Mikaíls Gorbatsjovs í tilraun þeirra til að binda enda á kalda stríðið.“

Enn sé ákall eftir friði í heiminum, segir Halla, og sjálf sé hún ævinlega reiðubúin til að styðja við einlæga viðleitni til að stuðla að friði og réttlæti. Þá segir hún hlakka til áframhaldandi samstarfs milli þjóðanna og óskar Trump velfarnaðar í embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×