Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að breikka faðminn og vera hlýrri Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar 18. janúar 2025 08:03 Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir segir að það yrði stefnubreyting hjá henni bjóði hún sig ekki fram til embættis formanns Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Rax Töluverðar líkur verða að teljast á að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins gefi kost á sér í embætti formanns flokksins á landsfundi eftir sex vikur. Hún segir flokkinn standa á tímamótum í stjórnarandstöðu eftir tæplega tólf ára samfellda stjórnarsetu. Flokkurinn þurfi að breikka faðminn og vera hlýrri í nálgun sinni til mála. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið samfellt í ríkisstjórn frá árinu 2013. Sjö ára stjórnarsamstarf flokksins með Vinstri grænum og Framsóknarflokki endaði með hvelli þegar Bjarni Benediktsson formaður flokksins sleit því á fréttamannafundi. Þótt flokkurinn sé næst stærsti flokkurinn á þingi eftir kosningarnar 30. nóvember hlaut hann verstu úrslit í 95 ára sögu sinni og fékk í fyrsta sinn undir 20 prósent atkvæða. Í byrjun síðustu viku tilkynnti Bjarni að hann hygðist hvorki setjast á Alþingi né óska endurkjörs sem formaður flokksins á landsfundi sem staðfest var í þessari viku að fram fari um mánaðamótin febrúar-mars. Þórdís Kolbrún varaformaður flokksins síðast liðin sjö ár tekur því forystusætið í Suðvesturkjördæmi, gjöfulasta kjördæmi Sjálfstæðisflokksins. Í samtalinu með Heimi Má á fimmtudag var hún því spurð hvort ekki lægi beinast við að hún byði sig fram til embættis formanns? Flestir gera ráð fyrir að ég bjóði mig fram „Mér finnst flestir gera ráð fyrir því og það er svo sem eðilegt. Ég hef í töluvert langan tíma svarað því, og mjög oft verið spurð, að ég sé tilbúin í verkefnið. Klár til að leiða flokkinn inn í framtíðina. En það er stór ákvörðun að fara í formannsframboð á þessum tímapunkti eftir allt sem á undan er gengið,“ sagði Þórdís Kolbrún. Þórdís Kolbrún segist hafa tekið ákvörðun fyrir um tveimur árum að hún myndi bjóða sig fram til formanns þegar Bjarni ákveddi að yfirgefa formannsstólinn.Vísir/RAX Það hafi gengið á ýmsu þau sjö ár sem hún hafi verið varaformaður en með því að gegna því embætti hefði hún auðvitað þar með lýst yfir að hún treysti sér til forystu í Sjálfstæðisflokknum. Það væri aftur á móti allt annað að leiða flokkinn í embætti formanns en gegna embætti varaformanns. „Ég hef í töluverðan tíma verið tilbúin í það en hef hins vegar ekkert gefið út um það. Eftir allan þennan tíma er ég einfaldlega komin á þann stað að tala við fólk og spegla mig. Ætla að fá að taka þessa ákvörðun með hjartavöðvanum. Þetta er búið að vera langur tími, mikið gengið á. Ég hef þroskast mjög hratt, lært mjög mikið og er dálítið önnur en ég var fyrir átta árum,“ segir varaformaðurinn. Nú eru aðeins sex vikur þar til landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í Laugardalshöll, þar sem ríflega þúsund flokksmenn koma saman til að marka stefnuna og kjósa nýja forystu fyrir flokkinn. Þurfa flokksmenn ekki að fá að vita með góðum fyrirvara hverjir bjóða sig fram til að taka við af Bjarna? „Auðvitað skiptir máli að fólk fái tíma, bæði frambjóðendur til að fara um og heyra í fólki og fyrir þau sem mæta á landsfundinn. Svo sem aðra líka því ég held að það geti haft áhrif á einhverja landsfundarfulltrúa hvernig stemmingin er,“ segir Þórdís Kolbrún. Á þessari stundu hefði enginn tilkynnt um framboð og hún væri einfaldlega að heyra í fólki og meta stöðuna. Gæti þurft tvær umferðir í formannskjör Hún minnir á að kosningabaráttan fyrir síðustu alþingiskosningar hafi staðið yfir í sex vikur og því væri enn nægur tími fyrir mögulega frambjóðendur að kynna áherslur sínar. Hins vegar fari kjör í embætti flokksins fram á landsfundinum sjálfum þar sem allir landsfundarfulltrúar væru í raun í kjöri. Til að ná kjöri þyrfti frambjóðandi að fá yfir fimmtíu prósent atkvæða og ef margir verði í framboði væru auknar líkur á að kjósa þyrfti aftur um tvo efstu frambjóðendur. „Þannig var það um ritaraembættið síðast og ekki ólíklegt að þannig verði það um formannsembættið núna,“ segir Þórdís Kolbrún. En auk þess að hafa verið varaformaður í sjö ár hefur hún gegnt viðamiklum ráðherraembættum allt frá myndun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur árið 2017. Þórdís Kolbrún segir ekkert náttúrulögmál að Sjálfstæðisflokkurinn leiði ríkisstjórn eins og dæmin hafi sýnt undanfarin áratug.Vísir RAX Ef þú býður þig ekki fram værir þú þá ekki að værir þú þá ekki að lýsa því yfir að þú ætlaðir að taka aftursæti í flokknum og það væri annarra að taka við og myndir þú á lýsa yfir stuðningi við einhvern annan frambjóðanda? „Margir halda að ef ég byði mig ekki fram væri ég jafnvel að hætta í pólitík. Aðrir segja nú er tækifærið, þú ert búin að segjast vera tilbúin, eftir hverju ertu að bíða, af hverju drífur þú ekki bara í þessu. Flestir gera ráð fyrir að ég fari fram,“ segir varaformaðurinn. Mörgum finnst að hún ætti að bjóða sig fram og öðrum finnist að hún ætti alls ekki að gera að. Það væru allar mögulegar skoðanir á þvi. „Mér finnst margir halda að ég vilji mjög ólm verða formaður í Sjálfstæðisflokknum. Það sé eitthvað sem þurfi til að vinna leikinn. Það er auðvitað mjög ríkt í Sjálfstæðisflokknum að gera mjög mikið úr því hver er formaður enda hefur það alla jafna þýtt sögulega að formaður flokksins er jafnframt forsætisráðherra í landinu. Það er auðvitað ekki náttúrulögmál eins og við sjáum núna og höfum séð undanfarin áratug,“ segir Þórdís Kolbrún. Hún verði hins vegar að vera einlæg með að fyrir henni snúist þetta ekki um að sigra leikinn. Ekki til að vinna leikinn heldur til að gera gagn „Mín þátttaka í stjórnmálum hefur alltaf einlæglega snúist um að gera gagn. Það er munur á því hvernig þú nálgast stjórnmál og pólitík, og fyrir mér er það ekki alltaf sami hluturinn. Hvort það sem keyrir þig áfram er að vinna leikinn og einhvern veginn sanna þitt eða nálgast það með því hvernig þú getir helst gert gagn,“ segir Þórdís Kolbrún. Það væri ekki markmið í sjálfu sér að vera formaður í Sjálfstæðisflokknum. „Ég hef litið á það sem verkfæri til að hafa áhrif á samfélagið,“ segir hún. Það verði síðan að koma í ljós hvernig þetta fari allt saman. Allt frá stofnun lýðveldisins á Þingvöllum fyrir áttatíu árum árið 1994 hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í ríkisstjórn í sextíu ár. Lengst af fékk flokkurinn nálægt fjörutíu prósent atkvæða og allt fram til síðustu aldamóta. Hann hefur hins vegar ekki fengið yfir þrjátíu prósent frá því eftir hrun 2009 og í síðustu kosningum fékk hann 19,4 prósent. Miklar opinberar umræður um formannsembættið og á bakvið tjöldin Sumir hafa nánast litið á það sem náttúrulögmál að flokkurinn væri við stjórn en er nú í allt annarri stöðu og hlýtur því að þurfa að marka sér nýtt upphaf. Það er þekkt í stjórnmálum í lýðræðisríkjum að þegar flokkar eru í þessari stöðu er talið mikilvægt að flokksmenn sýni einingu og samstöðu. Þórdís Kolbrún segir mikið rætt um formannskjörið opinberlega og á bakvið tjöldin.Vísir/RAX Er einhver umræða um það á bakvið tjöldin um að skapa þurfi einingu um einhvern einn frambjóðanda þannig að það verði engin átök um formannsembættið? „Það eru auðvitað mjög miklar umræður bæði opinberlega í fjölmiðlum, á milli manna og á bakvið tjöldin. Það er rétt sem þú segir og mér finnst mjög mikilvægt og meina það, að það er ekkert náttúrulögmál að Sjálfstæðisflokkurinn sé valdamesti flokkurinn í landinu um ókomna tíð,“ segir Þórdís Kolbrún og ítrekar að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki markmið í sjálfu sér. „Hann er verkfæri til að ná markmiðum fyrir samfélagið. Þar sem fólk sameinast um einhverjar grundvallarhugsjónir og gildi sem fólk telur mikilvægt að gildi og ráði við ákvarðanatöku og stefnumörkun fyrir samfélagið sem við búum í. Sögulega hefur það gengið mjög vel. Við erum eitt farsælasta samfélag í veröldinni og Sjálfstæðisflokkurinn á sinn þátt í því,“ segir utanríkisráðherrann fyrrverandi. Að sjálfsögðu væru umræður um að nú væru breytingar framundan eftir sextán ára formennsku Bjarna Benediktssonar. Þá væri mikilvægt að þau sem hefðu metnað og sýn fyrir flokkinn bjóði fram krafta sína og síðan verði valið á milli fólks. Á sama tíma heyrðist að flokkurinn þyrfti að vera sameinaðari en hann hafi verið. „Ég valdi mér fylkingu fyrir tæplega tuttugu árum og hún heitir Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta er í alvöru ekki mikið flóknara en það. Auðvitað eru heilbrigð samkeppni og mismunandi meiningar, sérstaklega ef þær eru málefnalegar, ekkert nema heilbrigt og eðlilegt. En við þurfum að koma sameinuð út af þessum landsfundi. Það er það sem við höfum getað gert í gegnum tíðina og er hið opinbera leyndarmál fyrir velgegni Sjálfstæðisflokksins. Að við getum tekist á eins og fólk, svo kemur niðurstaða og við göngum sameinuð út. Það er umræða um hvoru tveggja en hvað verður ofan á veit ég ekki,“ segir varaformaðurinn. Sjálfstæðisflokkurinn á tímamótum Síðast þegar valið var á milli formannsefna í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi hafði Bjarni betur með 49,4 prósentum atkvæða á móti 40,4 prósentum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Flokkurinn skiptist þá í tvær stórar megin fylkingar. Maður ímyndar sér þegar flokkur stendur á þessum tímamótum við brotthvarf formanns eftir um 16 ár í embætti telji flokkurinn að nýr formaður verði að njóta stuðning 80-90 prósenta flokkasmanna. Gætir þú orðið sá frambjóðandi? „Það er auðvitað undir landsfundarfulltrúm komið. Ég tel mig geta verið slík manneskja en það dugar ekki að ég trúi því og telji það. Það fer algerlega eftir því hvernig landsfundurinn liggur og sömuleiðis hvað það er sem ræður atkvæðum fólks. Hvað er það í fari formannsframbjóðanda sem skiptir fulltrúana helst máli. Við hvað ætlar fólk að máta verðandi formann Sjálfstæðisflokksins,“ segir Þórdís Kolbrún. Þórdís Kolbrún segir Sjálfstæðisflokkinn þurfa að huga að ásýnd sinni í huga almennings.Vísir/RAX Fólk geti horft til margra hátta eins og formanns til að leiða flokkinn í stjórnarandstöðu eða formanns sem væri líklegastur til að geta myndað ríkisstjórn þegar þar að komi. Landsfundarfulltrúar gætu líka lagt áherslu á formann sem einbeiti sér að innra starfi flokksins. „Er það eitthvað ásýndarmál, hvaðan kemur þú, þitt bakland, nýtur þú trausts á þingi, innan flokksins. Verður horft til þess að til að stækka flokkinn þurfi að breikka faðminn. Talandi þá um fólk sem í dag er ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en er hægrisinnað fólk sem við ættum að geta sótt. Eigum við að einblína á kjarnann sem er í flokknum núna eða erum við þeirrar skoðunar að við þurfum fleira fólk úr skapandi greinum, heilbrigðisstéttum, kennara, einyrkja, fólk úr nýsköpun og hátækni. Alls konar fólk sem hefur einhverja mynd af Sjálfstæðisflokknum og tengir sig ekki við hann,“ segir varaformaðurinn. Það væri erfitt að segja til um hvað muni helst ráða för við val á nýrri forystu flokksins. Kannski ráði allir þessir þættir og það geti einnig haft áhrif hverjir fara í framboð. Skiptir máli að leiða fólk saman „Fyrir mig skiptir máli að þarna verði manneskja sem getur leitt saman þennan stóra hóp og líka verið óhrædd við að stjórna og stýra. Þegar þú býður þig fram til formennsku og til að leiða flokkinn verður þú að vera tilbúin til að gera það. Auðvitað með því að hlusta og eiga samtal við flokksmenn. En þú verður að hafa einhverja skýra sýn.“ Í hennar huga þýddi það að Sjálfstæðisflokkurinn væri óumdeilanlega trúverðugur valkostur frjálslynds hægrafólks á Íslandi. „Sem leggi höfuðáherslu á að vera hagsýnn. Með kjark til að raunverulega forgangsraða og minnka umsvif þess sem ríkið er að gera þannig að við séum betur í stakk búin til að gera það sem við ætlum að gera. Að við séum hlý, séum að tala um að okkur líður ekki nægjanlega vel. Það er í alvöru vandamál. Okkur sé annt um fólk og þess vegna erum við í þessu og við séum alþjóðasinnuð. Fyrir mér er það grundvallaratriði,“ segir Þórdís Kolbrún. Undir það falli vestræn samvinna, öryggis og varnarmál. „Að við berum skynbrað og alvöru skilning á því sem er að gerast í kringum okkur. Nýr veruleiki sem við höfum ekki séð frá því við urðum lýðveldi og er stóralvarlegt mál. Sem mér finnst við ekki tala nægjanlega um, ekki vera að búa okkur undir þennan nýja veruleika nægjanlega mikið. Undir þetta fellur líka EES samningurinn, utanríkisviðskipti. Við erum rík og sterk vegna þess að við seljum útlendingum vörurnar okkar. Byggjum okkar lífsgæði og lífskjör á kerfi sem verið er að vega að og reyna að brjóta,“ segir utanríkisráðherrann fyrrverandi. Sjálfstæðisflokkurinn hafi sögulega verið með skýra sýn í þessum efnum og staðið vaktina þegar komi að vestrænni samvinnu. Það væri lykilatriði að flokkurinn verði það áfram. Óánægja með stjórnarsamstarfið í töluverðan tíma Undir lok fyrra kjörtímabils síðustu ríkisstjórnar var farið að bera á ókyrrð meðal Sjálfstæðismanna, bæði innan þingflokks og utan. Fljótlega eftir að síðara kjörtímabilið hófst jókst þessi ókyrrð þannig að sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu gegn málum einstakra ráðherra og stefnu ríkisstjórnarinnar. Vorið 2023 sagði Óli Björn Karason þingflokksformaður síðan af sér vegna óánægju með stöðuna og stefnuna. Bjarni Benediktsson sleit stjórnarsamstarfinu vegna vaxandi óánægju innan þingflokksins með samstarfið.Vísir/Vilhelm Er hægt að segja að Bjarni hafi ekki haft stjórn á þingflokknum undir lokin. Þar hafi verið virk stjórnarandstaða sem ekki gat unað við stjórnarsamstarfið? „Það var auðvitað öllum ljóst að það var óánægja með stjórnarsamstarfið innan þingflokksins í töluverðan tíma. Það fer bara eftir því hvern þú spyrð hvað er orsök og hvað er afleiðing. Þeir sem fóru þar fram gerðu það auðvitað vegna þess að þeir töldu það mikilvægt vegna umræðunnar í flokknum. Þetta var skynbragð af því hvernig okkar fólki leið,“ segir Þórdís Kolbrún. Það þýði hins vegar ekkert að hugsa um ef og hefði í einhverri tímalínu. Samstarfið hafi verið orðið mjög þungt, sérstaklega á síðara kjörtímabilinu. „Flokkarnir voru að gefa mjög mikið eftir og kjósendur Sjálfstæðisflokksins segja mjög hátt og skýrt að við höfum gert of mikið af því. Augljóslega þótti kjósendum hinna flokkanna það líka vegna þess að annar þurkaðist út og hinn situr eftir með fimm þingmenn af þrettán. Það er bara staðan. Við gáfum mjög mikið eftir í stjórnarsamstarfi þriggja mjög ólíkra flokka sem höfðu starfað saman í mörg ár og verðum að lofa okkar fólki að það gerum við ekki aftur,“ segir Þórdís Kolbrún. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að endurmeta stöðuna Þess vegna verði kjörnir fulltrúar flokksins að eiga einlægt samtal við sitt fólk um hvað megi gera málamiðlanir og hvað ekki. Það hafi verið gerðar miklar málamiðlanir, sérstaklega á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna og ef það megi ekki gerast verði það að liggja skýrt fyrir. „Alveg eins og maður þarf að hafa skynbragð á hvað flokkurinn er að hugsa þarf maður líka að bera skynbragð á hvernig stjórnmálin liggja. Það eru mjög margir flokkar og hver er vilji fólksins í landinu eftir þeim flokkum sem það er að kjósa? Ef þú ætlar að vera stjórntækur flokkur sem vill vera í ríkisstjórn og hafa áhrif, á hvaða forsendum er það gert,“ spyr Þórdís Kolbrún. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum 10. apríl í fyrra. Þórdís Kolbrún segir að verkefnum stjórnarinnar sem samstaða var um hafi einfaldlega verið lokið í desember.Vísir/Vilhelm Var það rétt ákvörðun hjá Bjarna á þeim tíma að stilla Vinstri grænum upp við vegg í útlendingamálum undir lokin og slíta stjórnarsamstarfinu á þeim tíma sem hann gerði eða var þessi ákvörðun tekin í örvæntingu? „Ég held að hún hafi ekki verið tekin í örvæntingu. Ef einhver tekur almennt yfirvegaðar ákvarðanir að vel athuguðu máli þá er það Bjarni. Mér fannst ekki sjálfsagt að við héldum áfram þessu samstarfi þegar Katrín Jakobsdóttir fór af vettvangi. Mat það bara út frá pólitískum veruleika og líkum á að klára verkefnið eins og alltaf var verið að tala um. Þau verkefni sem voru efst á blaði voru verkefni sem við áttum rosalega erfitt með að ná lendingu í með Vinstri grænum. Þeim mun meiri árangri sem við næðum þeim mun erfiðara yrði það fyrir þau og öfugt,“ segir Þórdís Kolbrún. Það hafi því ekki verið um annað að ræða en ljúka samstarfinu þegar það var gert. Ekki mátt gerast seinna en spurning hvort það hefði breytt einhverju hefði það verið gert fyrr. Verkefninu hafi einfaldlega verið lokið í hennar huga. Ekki eftirsóknarvert að alþingiskosningar snúist ítrekað um útlendingamál Þegar Bjarni sleit stjórnarsamstarfinu nefndi hann erfiðleika með að ná samstöðu innan ríkisstjórnarinnar um nokkur mál eins og orkumál. Mest fór þó fyrir ágreiningi um útlendingamál og andstöðu Vinstri grænna við boðaðar áframhaldandi breytingar þáverandi dómsmálaráðherra á útlendingalögum. Það fór aftur á móti lítið fyrir útlendingamálum í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar. Kjósendur höfðu mestan áhuga á stefnu flokkanna í heilbrigðismálum, efnahagsmálum og kannski samgöngumálum? „Ég held að hluta til hafi það verið vegna þess að við vorum þó búin að gera margt með lagabreytingum þá um vorið,“ segir utanríkisráðherrann fyrrverandi. Breytingar hafi verið gerðar á Keflavíkurflugvelli og töluverður hluti hælisleitenda hafi verið sendur til baka. „Ég segi fyrir mig persónulega og það eru ekki allir sammála um það í Sjálfstæðisflokknum, að mér finnst ekki eftirsóknarvert að alþingiskosningar á fjögurra ára fresti snúist útlendingamál. Ég held að það sé ekki það sem stjórnmálin, lýðræðið og almenningur þurfi helst á að halda. Þessir hlutir þurfa auðvitað að vera í lagi og þess vegna var orðið gríðarlega mikilvægt að taka þær ákvarðanir sem við tókum.“ Ef frekari ákvarðanir verði ekki teknar og ástandinu aðeins haldið í skefjum gætu Íslendingar misst stjórn á stöðunni. „Fyrir mér er þetta málaflokkur sem þarf að vera skýr og skilvirkur. Það verða alltaf miklar deilur um hann,“ segir Þórdís Kolbrún en skýrar reglur verði að gilda á þessu sviði. Langflestir útlendingar á Íslandi sem nú telja um áttatíu þúsund koma hins vegar ekki til Íslands sem hælisleitendur. Mikill meirihluta kemur hingað af evrópska efnahagssvæðinu til að vinna enda eftirpurnin hér mikil eftir vinnuafli. Þetta fólk hefur fullan rétt á að koma til Íslands í leit að vinnu rétt eins og Íslendingar geta sótt vinnu og nám um alla Evróu samkvæmt samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Stöndum illa að aðlögun innflytjenda Margt af því fólki sem hingað kemur er hér til langframa og sest hér að en gengur illa að fóta sig í samfélaginu meðal annars vegna þess að lítill stuðningur er við að það læri íslensku. Erum við þá ekki að horfa fram á að í mjög nákomini framtíð skapist hér samfélag fyrsta og annars flokks borgara. Þeirra sem skilja og tala Íslensku og þeirra sem gera það ekki? „Ég held að þetta sé algert lykilatriði og það blasi við að þessi málaflokkur verður veigameiri í pólitískri umræðu í framtíðinni. Vegna þessara gríðarlegu miklu breytinga í samfélaginu okkar. Það er mikilvægt að við tölum af viti og yfirvegun, ekki í múgæsingu og séum hálf barnaleg í nálgun. Við verðum þá líka að standast pólitískar freistingar fyrir tímabundnar vinsældir,“ segir Þórdís Kolbrún. Hér gildi að vera sanngjarn og gera einnig kröfur okkur sjálf en ekki bara það fólk sem hingað kemur. „Auðvitað þarf það að vera þannig að fólk hafi tækifæri til þess raunverulega að aðlagast samfélaginu. Þú nefnir tungumálið sem ég held og vona að verði áfram stórt í umræðunni. Vegna þess að þjóð sem missir tungumálið sitt, hver er hún,“ spyr varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Það þyrfti líka að horfa á tækifæri þeirra sem higað flytja. „Við erum ekki að standa okkur þegar kemur að því að meta menntun þess fólks sem hingað kemur. Við gerum það bara illa. Það er ósanngjarnt gagnvart því fólki, það er vond stefnumörkun hér á Íslandi. Hefur áhrif á verðmætasköpun. Þegar við segjum að við séum land tækifæranna þá hljótum við að meina að við séum það gagnvart öllum,“ segir Þórdís Kolbrún. Þórdís Kolbrún segir Íslendinga standa illa að því að viðurkenna menntun þeirra sem flytja til Íslands.Vísir/RAX Það sama gildi þegar horft væri til krakka sem ekki væru með íslensku sem fyrsta mál. Síðast þegar hún hafi skoðað tölur gengi þeim krökkum ekki eins vel og krökkum með íslensku sem aðalmál. Það væri ekki vegna þess að þessir krakkar væru ver gefnir en íslenskir krakkar. Sammála Kristrúnu um aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu Núverandi ríkisstjórn hefur boðað þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2027 um hvort taka eigi á ný upp viðræður við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu. Síðast þegar það var gert í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var tekist á um málið á Alþingi. Þá var það málamiðlunartillaga frá Sjálfstæðisflokknum að fyrst færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort hefja ætti viðræður og síðan færi fram önnur þjóðaratkvæðagreiðsla að viðræðum loknum. Er ekki upplagt að fá niðurstöðu í þetta mál í eitt skipti fyrir öll? „Í fyrsta lagi þætti mér eðlilegra að spurningin væri hvort fólk vildi ganga í Evrópusambandið, já eða nei,“ segir Þórdís Kolbrún. Það væri augljóst að það kunni ekki góðri lukku að stýra að sækja um aðild þar sem annar stjórnarflokkurinn var fylgjandi aðild en hinn á móti eins og í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. „Í þessari ríkisstjórn ertu með einn flokk sem vill ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Mér finnst ekki góður bragur á því og veit ekki hvernig aðildarríki Evrópusambandsins taka í það. Það á bara eftir að koma í ljós.“ Þau tala um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Er Sjálfstæðisflokkurinn hræddur við að spyrja þjóðina? „Nei, Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hræddur við að spyrja þjóðina en það er grundvallaratriði um hvað er spurt,“ segir Þórdís Kolbrún. Hún væri þannig gerð að ef fólk væri lýðræðislega kjörið þyrfti það að hafa skýra sýn og skoðun á þvi hvort Íslandi væri betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Það hefur farið vel á með forystukonum stjórnarflokkanna hingað til. Þórdís Kolbrún minnir á að Flokkur fólksins væri mótfallinn aðilda að ESB og að formaður Samfylkingarinnar hefði fyrir kosningar setti fyrirvara um aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið á ný.Vísir/vilhelm „Kristrún Frostadóttir var hérna hjá þér fyrir kosningar og ég hlustaði á það viðtal. Ég er dálítið sammála því þegar hún segir að það skipti líka máli hvernig þetta er gert. Hver á aðdragandinn að vera. Er sátt um það í samfélaginu. Hvar stendur verkalýðshreyfingin, hvar stendur atvinnulífið. Hvernig liggur landið hjá almenningi. Vegna þess að það er dálítið snúið að ætla að vera ríkisstjórnin sem sameinar, og hún með sína samlíkingu 80/20%, en setja síðan mál á dagskrá sem liggur alveg fyrir, að ég held, að muni kljúfa þjóðina í herðar niður. Það er að segja ef fara á í atkvæðagreiðslu án þessa aðdraganda sem ég tel mikilvægt að hafa,“ segir Þórdís Kolbrún. Hún viti ekki hvernig ríkisstjórnin ætli að láta þetta takast. Stefnubreyting ef hún býður sig ekki fram En aftur að landsfundinum eftir sex vikur. Telur þú núna þar sem þú situr hjá mér að það séu meiri líkur á því en minni að þú munir taka formannsslaginn? „Í rauninni tók ég ákvörðun fyrir meira en tveimur árum örugglega, að ég myndi bjóða fram krafta mína þegar Bjarni Benediktsson myndi ákveða að hætta sem formaður. Ég hef ekki tekið nýja ákvörðun síðan þá,“ segir varaformaðurinn sem greinilega vegur og metur stöðuna þessa dagana. Hún verði að trúa á verkefnið og fólk verði að deila sýn á framtíðina. Margt hafi breyst undanfarin misseri og ár. Sjálfstæðisflokkurinn væri breiðfylking ólíkra hópa. Það væri kosturinn við Sjálfstæðisflokkinn en það væri líka vandasamt. „Ég er með mjög skýra sýn á hvað mér þykir mikilvægast fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem verkfæri til að gera Ísland sterkara.“ Þannig að það yrði stefnubreyting í raun og veru hjá þér persónulega ef þú byðir ekki fram krafta þína í þetta embætti? „Það yrði það. En ég segi líka, á þessum sjö árum hefur mjög margt breyst og bara á undanförnum tveimur árum hefur mjög margt breyst. Heimurinn er stór og hann er hætturlegri nú en áður. Það er mikil stigmögnun alls staðar í kringum okkur. Mér finnst enn skrýtið a hugsa til þess við erum að lifa tíma sem við lásum um í sögubókum og mér var sagt að kæmu ekki aftur í okkar álfu.” Það hafi opnað nýja veröld að vera utanríkisráðherra. Fylgjast með því hvernig fólk væri að takast á við þau mál á erlendum vettvangi. Hvort sem væri í NATO eða annars staðar sem að væri gert. „Mér finnst mjög mikilvægt að taka þessa ákvörðun með hjartanu.“ Heldur þú að það gerist fyrir mánaðamót? „Ég hugsa að það gerist fyrir mánaðamót. Það er hálfur mánuður í það.“ Þú sagðir við mig á dögunum að Sjálfstæðisflokkurinn ætti glæsilega sögu en hann þyrfti lýka að hafa skýra sýn á framtíðina. Ef þú ættir að nefna tvö til þrjú atriði sem þú telur mjög mikilvægt að séu í framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins, hver yrðu þau? „Það er að það sé algerlega óumdeilt að við erum áhrifamest og ábyrgust þegar við erum með mjög skýra sýn þegar kemur að vestrænni samvinnu. Öryggis- og varnarmálum, alþjóðasamskiptum og utanríkisviðskiptum og svo framvegis. Það er að hann þori að vera hægriflokkur þegar kemur að ríkisfjármálum og forgangsröðun annarra manna peninga,“ segir varaformaðurinn. Það þýðir að öllum steinum verði velt og dregið úr mikilli sóun sem væri til staðar í öllu kerfinu. Að flokkurinn þori að fara í breytingar á sameignlegum eignum og hvernig sameiginlegar eignir þjóðarinnar væru reknar. Þjóðin væri með bundið fé víða sem væri betur varið í að lækka skuldir eða leggja vegi sem gagnaðist samfélaginu. „Og vera manneskjuleg og hlý í stjórnmálum. Vegna þess að ef manni væri ekki annt um fólk þá væri ég ekki í stjórnmálum. Ef manni er ekki annt um samfélagið sitt og að tala upp það að vera sam-félag, að við vinnum saman að því að gera samfélagið okkar gott.“ Hefur Sjálfstæðisflokkurinn einmitt haft þá ímynd að vera ekki hlýr, vera of kaldur? „Ég held að það sé alveg ljóst að hann hefur þá ímynd. Hann þarf að vinna í því að útskýra betur af hverju við tölum um forgangsröðun fjármuna. Af hverju við tölum fyrir því að verðmætasköpun þurfi stöðugt að aukast. Af hverju erum við að tala um öflugt atvinnulíf.“ Ímyndin væri að þetta réðist allt af hagsmunum fárra en ekki heildarinnar. „Ég sjálf valdi Sjálfstæðisflokkinn út frá grunngildum inni í mér sem ég get ekki gefið afslátt af. Fyrir mér er Sjálfstæðisflokkurinn verkfæri til að ná þessu fram. Ég þekkti engan í Sjálfstæðisflokknum þegar ég gekk í hann fyrir um átján árum. Hann þarf bara að vera samkvæmur sjálfum sér og stór og sterkur í þessum verkefnum framundan. Með sterkan Sjálfstæðisflokki eru meiri líkur á að Ísland verði áfram öflugt og sterkt.“ Við erum alla vega sammála um að það eru mikil tímamót í sögu Sjálfstæðisflokksins? „Já, það er alveg klárt,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir í Samtalinu á Stöð 2 á fimmtudag. Samtalið Alþingiskosningar 2024 Alþingi Sjálfstæðisflokkurinn Tengdar fréttir Ekki ónæm fyrir oft ósanngjarnri gagnrýni Katrín Jakobsdóttir varð einn vinsælasti ef ekki vinsælasti stjórnmálamaður landsins samkvæmt könnunum fljótlega eftir að hún tók við mennta- og menningarmálaráðuneytinu í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að loknu efnahagshruninu árið 2009. Þær vinsældir héldu áfram eftir að hún varð forsætisráðherra við myndun ríkisstjórnar Vinstri grænna með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki þótt fylgi stjórnarinnar fjaraði hratt út á seinna kjörtímabili ríkisstjórnar hennar eftir kosningarnar 2021. 14. desember 2024 08:02 Telja flokkana þrjá geta fundið sterka sameiginlega samnefnara Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra og einn stofnenda Viðreisnar og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar segja nýliðnar alþingiskosningar staðfesta miklar breytingar á flokkakerfinu. Þau telja að þeir flokkar sem nú reyna að mynda ríkisstjórn ættu að geta fundið sameiginlegan samnefnara og eru bjartsýn á að þeim takist að mynda ríkisstjórn. 7. desember 2024 08:01 Hlutverk flokksforingja stórlega ofmetið í kosningabaráttunni Ólafur Þ. Harðarson prófessor emiritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir hlutverk leiðtoga stjórnmálaflokkanna í öflun vinsælda flokkanna stórlega ofmetið. Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn bítist nú á um 30 prósenta fylgi hægriflokka á Íslandi en nái ekki út fyrir þann bergmálshelli. 23. nóvember 2024 08:03 Milljónir ekki komið til Íslands þótt þær gætu það Sanna Magadela Mörtudóttir oddviti Sósíalistaflokksins fyrir komandi alþingiskosningar segir milljónir manna innan Evrópska efnahagssvæðisins og Schengen ekki hafa komið til Íslands þótt þær gætu það með fullum rétti. Í Samtalinu með Heimi Má á fimmtudag sagði hún Sjálfstæðisflokkinn hafa farið með dómsmálaráðuneytið meira og minna allt frá því þessi samningar voru gerðir og nú kvartaði flokkurinn yfir því að innviðir landsins þyldu ekki þær þúsundir manna sem hingað hafi komið til að vinna á undanförnum árum. 16. nóvember 2024 08:02 Píratar stefna á stjórnarsamstarf án Sjálfstæðisflokksins Þórhildur Sunna Ævardóttir þingflokksformaður Pírata er sannfærð um að hreyfingunni takist að koma fulltrúum á þing þótt á brattan hafi verið að sækja í könnunum að undanförnu. Í Samtalinu með Heimi Má segir hún Pírata stefna að því að komast í ríkisstjórn en muni þó ekki mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum. 7. nóvember 2024 16:28 Kallar eftir umboði þjóðarinnar til breytinga Hún kom eins og óskrifað blað inn í íslensk stjórnmál fyrir alþingiskosningarnar 2021 og var orðin formaður Samfylkingarinnar um ári síðar. Fljótlega varð ljóst að hún var stjórnmálamaður af annarri skúffu en flestir. Hún ferðaðist um landið með opna fundi og upp úr þeim ferðum mótaði hún nýja stefnu fyrir Samfylkinguna sem var nálægt því að þurrkast út í kosningunum 2016. 2. nóvember 2024 08:02 Þakklát fyrir að missa ekki sjónina síðar á ævinni Inga Sæland formaður og stofnandi Flokks fólksins gerir lítið úr væringum innan flokksins nú þegar hún leiðir hann í fjórða sinn í kosningum til Alþingis. Tveir áberandi þingmenn í forystu flokksins, Tómas A. Tómasson í Reykjavíkurkjördæmi norður og Jakob Frímann Magnússon í Norðausturkjördæmi, fengu ekki brautargengi til að leiða flokkinn í kjördæmum sínum. 26. október 2024 08:02 Formaður Framsóknar segir ríkisstjórnina hafa talað sjálfa sig niður Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins hefur lagt sjálfan sig að veði í komandi alþingiskosningum með því að taka annað sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Þar með baráttusætið því flokkurinn hefur ekki mælst með mann inni úr kjördæminu í nýjustu könnunum. 19. október 2024 08:02 Íslendingar eiga ekki að aðlaga sig innflytjendum heldur öfugt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að vogunarsjóðir hafi hótað honum þegar hann var forsætisráðherra vegna þess að hann vildi láta sjóðina taka skellinn af falli íslensku bankanna. 10. október 2024 22:02 Þorgerður Katrín: Enginn ráðskonurass undir fólki í Viðreisn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er keppniskona með mikla reynslu af stjórnmálum og er kominn í hlaupaskóna fyrir næstu alþingiskosningar. Hún segir engann „ráðskonurass undir fólki í Viðreisn," sem taki almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Þegar Benedikt Jóhannesson, aðalhvatamaður að stofnun Viðreisnar og fyrsti formaður flokksins, sagði af sér formennskunni aðeins sautján dögum fyrir kosningarnar 2017, stökk Þorgerður Katrín upp í brú á þessu nýsjósetta skipi í ólgusjó íslenskra stjórnmála og kom því í höfn. 5. október 2024 08:00 Brotthvarf Katrínar hafði mikil áhrif Svandís Svavarsdóttir er staðráðin í að Vinstrihreyfingin grænt framboð nái fulltrúum á þing í næstu alþingiskosningum þótt kannanir að undanförnu sýni að þar verði á brattan að sækja. Í Samtalinu á Vísi á fimmtudag fór hún yfir erindi hreyfingarinnar, stjórnarsamstarfið með Sjálfstæðisflokki og Framsókn í sjö ár og hvaða mál það eru sem hún telur mikilvægt að ná í gegn á Alþingi fyrir kosningar. 28. september 2024 08:01 Maður margra storma íhugar stöðu sína Bjarni Benediktsson hefur í fyrsta sinn opinberlega greint frá því að hann íhugi nú stöðu sína eftir fimmtán ár í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins. Hann geri sér grein fyrir að dagur ákvörðunar renni upp innan hálfs árs, eða fyrir landsfund flokksins sem fram fer um mánaðamótin febrúar-mars á næsta ári. Ef til vill væri kominn tími til að hleypa nýju blóði inn í forystu flokksins. 21. september 2024 08:00 Mest lesið Grímuklæddi maðurinn kúkaði aftur á bílinn Innlent Fengu tæpar fimm og sex milljónir króna í tvöföldum launagreiðslum Innlent Margir alvarlega slasaðir á skíðasvæði á Spáni Erlent Sagði nei við sölu Íslandsbanka en treystir ráðherra fullkomlega nú Innlent Viðbúin því að fylgjendum fækki í kjölfar TikTok-banns Innlent Undirbúa verkföll: „Þetta er ömurleg staða að svona skuli standa“ Innlent Finnst of langt gengið í glæpavæðingu í umfjöllun um Carbfix Innlent Prófessorar íhuga verkfall: „40% akademísks starfsfólks í kulnun eða komin langt á leið“ Innlent Snarpur skjálfti við Trölladyngju Innlent E. coli fannst í neysluvatni Innlent Fleiri fréttir Prófessorar íhuga verkfall: „40% akademísks starfsfólks í kulnun eða komin langt á leið“ E. coli fannst í neysluvatni Ærslabelgur og aparóla óskast á Hvolsvöll Grímuklæddi maðurinn kúkaði aftur á bílinn Snarpur skjálfti við Trölladyngju Undirbúa verkföll: „Þetta er ömurleg staða að svona skuli standa“ Sagði nei við sölu Íslandsbanka en treystir ráðherra fullkomlega nú Breytt afstaða til sölu á Íslandsbanka og samgöngutruflanir Veðurviðvaranir og vegalokanir Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að breikka faðminn og vera hlýrri Reyndi að stinga af á bíl og svo á hlaupum Fengu tæpar fimm og sex milljónir króna í tvöföldum launagreiðslum Viðbúin því að fylgjendum fækki í kjölfar TikTok-banns Finnst of langt gengið í glæpavæðingu í umfjöllun um Carbfix Kviknaði í gámi í byggingarsvæði við gamla Orkuhúsið Undrast sinnuleysi forvera sinna og vill lagabreytingar Starfsmaður frá Filippseyjum syngur og syngur á Selfossi Ungmenni nota tálbeituaðferðir til að ráðast á meinta níðinga Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar Stórhættulegar tálbeituaðgerðir ungmenna á samfélagsmiðlum Hefja undirbúning verkfalla í framhaldsskólum Taka sýni úr mink sem fannst dauður í Vatnsmýri Starfsmanni ÍSÍ dauðbrá þegar hún mætti til vinnu Aflýsa óvissustigi vegna Bárðarbungu Sér rautt vegna ærslabelgs fyrir framan húsið sitt „Þarna náum við að svæla allt upp á yfirborðið“ Börnin sem talin voru í hættu komu í leitirnar á Suðurnesjum Þing verður sett eftir rúman hálfan mánuð Rannsaka ólöglegt fiskeldi veiðifélags í Borgarfirði Tveir handteknir í fíkniefnamáli fyrir austan Sjá meira
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið samfellt í ríkisstjórn frá árinu 2013. Sjö ára stjórnarsamstarf flokksins með Vinstri grænum og Framsóknarflokki endaði með hvelli þegar Bjarni Benediktsson formaður flokksins sleit því á fréttamannafundi. Þótt flokkurinn sé næst stærsti flokkurinn á þingi eftir kosningarnar 30. nóvember hlaut hann verstu úrslit í 95 ára sögu sinni og fékk í fyrsta sinn undir 20 prósent atkvæða. Í byrjun síðustu viku tilkynnti Bjarni að hann hygðist hvorki setjast á Alþingi né óska endurkjörs sem formaður flokksins á landsfundi sem staðfest var í þessari viku að fram fari um mánaðamótin febrúar-mars. Þórdís Kolbrún varaformaður flokksins síðast liðin sjö ár tekur því forystusætið í Suðvesturkjördæmi, gjöfulasta kjördæmi Sjálfstæðisflokksins. Í samtalinu með Heimi Má á fimmtudag var hún því spurð hvort ekki lægi beinast við að hún byði sig fram til embættis formanns? Flestir gera ráð fyrir að ég bjóði mig fram „Mér finnst flestir gera ráð fyrir því og það er svo sem eðilegt. Ég hef í töluvert langan tíma svarað því, og mjög oft verið spurð, að ég sé tilbúin í verkefnið. Klár til að leiða flokkinn inn í framtíðina. En það er stór ákvörðun að fara í formannsframboð á þessum tímapunkti eftir allt sem á undan er gengið,“ sagði Þórdís Kolbrún. Þórdís Kolbrún segist hafa tekið ákvörðun fyrir um tveimur árum að hún myndi bjóða sig fram til formanns þegar Bjarni ákveddi að yfirgefa formannsstólinn.Vísir/RAX Það hafi gengið á ýmsu þau sjö ár sem hún hafi verið varaformaður en með því að gegna því embætti hefði hún auðvitað þar með lýst yfir að hún treysti sér til forystu í Sjálfstæðisflokknum. Það væri aftur á móti allt annað að leiða flokkinn í embætti formanns en gegna embætti varaformanns. „Ég hef í töluverðan tíma verið tilbúin í það en hef hins vegar ekkert gefið út um það. Eftir allan þennan tíma er ég einfaldlega komin á þann stað að tala við fólk og spegla mig. Ætla að fá að taka þessa ákvörðun með hjartavöðvanum. Þetta er búið að vera langur tími, mikið gengið á. Ég hef þroskast mjög hratt, lært mjög mikið og er dálítið önnur en ég var fyrir átta árum,“ segir varaformaðurinn. Nú eru aðeins sex vikur þar til landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í Laugardalshöll, þar sem ríflega þúsund flokksmenn koma saman til að marka stefnuna og kjósa nýja forystu fyrir flokkinn. Þurfa flokksmenn ekki að fá að vita með góðum fyrirvara hverjir bjóða sig fram til að taka við af Bjarna? „Auðvitað skiptir máli að fólk fái tíma, bæði frambjóðendur til að fara um og heyra í fólki og fyrir þau sem mæta á landsfundinn. Svo sem aðra líka því ég held að það geti haft áhrif á einhverja landsfundarfulltrúa hvernig stemmingin er,“ segir Þórdís Kolbrún. Á þessari stundu hefði enginn tilkynnt um framboð og hún væri einfaldlega að heyra í fólki og meta stöðuna. Gæti þurft tvær umferðir í formannskjör Hún minnir á að kosningabaráttan fyrir síðustu alþingiskosningar hafi staðið yfir í sex vikur og því væri enn nægur tími fyrir mögulega frambjóðendur að kynna áherslur sínar. Hins vegar fari kjör í embætti flokksins fram á landsfundinum sjálfum þar sem allir landsfundarfulltrúar væru í raun í kjöri. Til að ná kjöri þyrfti frambjóðandi að fá yfir fimmtíu prósent atkvæða og ef margir verði í framboði væru auknar líkur á að kjósa þyrfti aftur um tvo efstu frambjóðendur. „Þannig var það um ritaraembættið síðast og ekki ólíklegt að þannig verði það um formannsembættið núna,“ segir Þórdís Kolbrún. En auk þess að hafa verið varaformaður í sjö ár hefur hún gegnt viðamiklum ráðherraembættum allt frá myndun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur árið 2017. Þórdís Kolbrún segir ekkert náttúrulögmál að Sjálfstæðisflokkurinn leiði ríkisstjórn eins og dæmin hafi sýnt undanfarin áratug.Vísir RAX Ef þú býður þig ekki fram værir þú þá ekki að værir þú þá ekki að lýsa því yfir að þú ætlaðir að taka aftursæti í flokknum og það væri annarra að taka við og myndir þú á lýsa yfir stuðningi við einhvern annan frambjóðanda? „Margir halda að ef ég byði mig ekki fram væri ég jafnvel að hætta í pólitík. Aðrir segja nú er tækifærið, þú ert búin að segjast vera tilbúin, eftir hverju ertu að bíða, af hverju drífur þú ekki bara í þessu. Flestir gera ráð fyrir að ég fari fram,“ segir varaformaðurinn. Mörgum finnst að hún ætti að bjóða sig fram og öðrum finnist að hún ætti alls ekki að gera að. Það væru allar mögulegar skoðanir á þvi. „Mér finnst margir halda að ég vilji mjög ólm verða formaður í Sjálfstæðisflokknum. Það sé eitthvað sem þurfi til að vinna leikinn. Það er auðvitað mjög ríkt í Sjálfstæðisflokknum að gera mjög mikið úr því hver er formaður enda hefur það alla jafna þýtt sögulega að formaður flokksins er jafnframt forsætisráðherra í landinu. Það er auðvitað ekki náttúrulögmál eins og við sjáum núna og höfum séð undanfarin áratug,“ segir Þórdís Kolbrún. Hún verði hins vegar að vera einlæg með að fyrir henni snúist þetta ekki um að sigra leikinn. Ekki til að vinna leikinn heldur til að gera gagn „Mín þátttaka í stjórnmálum hefur alltaf einlæglega snúist um að gera gagn. Það er munur á því hvernig þú nálgast stjórnmál og pólitík, og fyrir mér er það ekki alltaf sami hluturinn. Hvort það sem keyrir þig áfram er að vinna leikinn og einhvern veginn sanna þitt eða nálgast það með því hvernig þú getir helst gert gagn,“ segir Þórdís Kolbrún. Það væri ekki markmið í sjálfu sér að vera formaður í Sjálfstæðisflokknum. „Ég hef litið á það sem verkfæri til að hafa áhrif á samfélagið,“ segir hún. Það verði síðan að koma í ljós hvernig þetta fari allt saman. Allt frá stofnun lýðveldisins á Þingvöllum fyrir áttatíu árum árið 1994 hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í ríkisstjórn í sextíu ár. Lengst af fékk flokkurinn nálægt fjörutíu prósent atkvæða og allt fram til síðustu aldamóta. Hann hefur hins vegar ekki fengið yfir þrjátíu prósent frá því eftir hrun 2009 og í síðustu kosningum fékk hann 19,4 prósent. Miklar opinberar umræður um formannsembættið og á bakvið tjöldin Sumir hafa nánast litið á það sem náttúrulögmál að flokkurinn væri við stjórn en er nú í allt annarri stöðu og hlýtur því að þurfa að marka sér nýtt upphaf. Það er þekkt í stjórnmálum í lýðræðisríkjum að þegar flokkar eru í þessari stöðu er talið mikilvægt að flokksmenn sýni einingu og samstöðu. Þórdís Kolbrún segir mikið rætt um formannskjörið opinberlega og á bakvið tjöldin.Vísir/RAX Er einhver umræða um það á bakvið tjöldin um að skapa þurfi einingu um einhvern einn frambjóðanda þannig að það verði engin átök um formannsembættið? „Það eru auðvitað mjög miklar umræður bæði opinberlega í fjölmiðlum, á milli manna og á bakvið tjöldin. Það er rétt sem þú segir og mér finnst mjög mikilvægt og meina það, að það er ekkert náttúrulögmál að Sjálfstæðisflokkurinn sé valdamesti flokkurinn í landinu um ókomna tíð,“ segir Þórdís Kolbrún og ítrekar að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki markmið í sjálfu sér. „Hann er verkfæri til að ná markmiðum fyrir samfélagið. Þar sem fólk sameinast um einhverjar grundvallarhugsjónir og gildi sem fólk telur mikilvægt að gildi og ráði við ákvarðanatöku og stefnumörkun fyrir samfélagið sem við búum í. Sögulega hefur það gengið mjög vel. Við erum eitt farsælasta samfélag í veröldinni og Sjálfstæðisflokkurinn á sinn þátt í því,“ segir utanríkisráðherrann fyrrverandi. Að sjálfsögðu væru umræður um að nú væru breytingar framundan eftir sextán ára formennsku Bjarna Benediktssonar. Þá væri mikilvægt að þau sem hefðu metnað og sýn fyrir flokkinn bjóði fram krafta sína og síðan verði valið á milli fólks. Á sama tíma heyrðist að flokkurinn þyrfti að vera sameinaðari en hann hafi verið. „Ég valdi mér fylkingu fyrir tæplega tuttugu árum og hún heitir Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta er í alvöru ekki mikið flóknara en það. Auðvitað eru heilbrigð samkeppni og mismunandi meiningar, sérstaklega ef þær eru málefnalegar, ekkert nema heilbrigt og eðlilegt. En við þurfum að koma sameinuð út af þessum landsfundi. Það er það sem við höfum getað gert í gegnum tíðina og er hið opinbera leyndarmál fyrir velgegni Sjálfstæðisflokksins. Að við getum tekist á eins og fólk, svo kemur niðurstaða og við göngum sameinuð út. Það er umræða um hvoru tveggja en hvað verður ofan á veit ég ekki,“ segir varaformaðurinn. Sjálfstæðisflokkurinn á tímamótum Síðast þegar valið var á milli formannsefna í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi hafði Bjarni betur með 49,4 prósentum atkvæða á móti 40,4 prósentum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Flokkurinn skiptist þá í tvær stórar megin fylkingar. Maður ímyndar sér þegar flokkur stendur á þessum tímamótum við brotthvarf formanns eftir um 16 ár í embætti telji flokkurinn að nýr formaður verði að njóta stuðning 80-90 prósenta flokkasmanna. Gætir þú orðið sá frambjóðandi? „Það er auðvitað undir landsfundarfulltrúm komið. Ég tel mig geta verið slík manneskja en það dugar ekki að ég trúi því og telji það. Það fer algerlega eftir því hvernig landsfundurinn liggur og sömuleiðis hvað það er sem ræður atkvæðum fólks. Hvað er það í fari formannsframbjóðanda sem skiptir fulltrúana helst máli. Við hvað ætlar fólk að máta verðandi formann Sjálfstæðisflokksins,“ segir Þórdís Kolbrún. Þórdís Kolbrún segir Sjálfstæðisflokkinn þurfa að huga að ásýnd sinni í huga almennings.Vísir/RAX Fólk geti horft til margra hátta eins og formanns til að leiða flokkinn í stjórnarandstöðu eða formanns sem væri líklegastur til að geta myndað ríkisstjórn þegar þar að komi. Landsfundarfulltrúar gætu líka lagt áherslu á formann sem einbeiti sér að innra starfi flokksins. „Er það eitthvað ásýndarmál, hvaðan kemur þú, þitt bakland, nýtur þú trausts á þingi, innan flokksins. Verður horft til þess að til að stækka flokkinn þurfi að breikka faðminn. Talandi þá um fólk sem í dag er ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en er hægrisinnað fólk sem við ættum að geta sótt. Eigum við að einblína á kjarnann sem er í flokknum núna eða erum við þeirrar skoðunar að við þurfum fleira fólk úr skapandi greinum, heilbrigðisstéttum, kennara, einyrkja, fólk úr nýsköpun og hátækni. Alls konar fólk sem hefur einhverja mynd af Sjálfstæðisflokknum og tengir sig ekki við hann,“ segir varaformaðurinn. Það væri erfitt að segja til um hvað muni helst ráða för við val á nýrri forystu flokksins. Kannski ráði allir þessir þættir og það geti einnig haft áhrif hverjir fara í framboð. Skiptir máli að leiða fólk saman „Fyrir mig skiptir máli að þarna verði manneskja sem getur leitt saman þennan stóra hóp og líka verið óhrædd við að stjórna og stýra. Þegar þú býður þig fram til formennsku og til að leiða flokkinn verður þú að vera tilbúin til að gera það. Auðvitað með því að hlusta og eiga samtal við flokksmenn. En þú verður að hafa einhverja skýra sýn.“ Í hennar huga þýddi það að Sjálfstæðisflokkurinn væri óumdeilanlega trúverðugur valkostur frjálslynds hægrafólks á Íslandi. „Sem leggi höfuðáherslu á að vera hagsýnn. Með kjark til að raunverulega forgangsraða og minnka umsvif þess sem ríkið er að gera þannig að við séum betur í stakk búin til að gera það sem við ætlum að gera. Að við séum hlý, séum að tala um að okkur líður ekki nægjanlega vel. Það er í alvöru vandamál. Okkur sé annt um fólk og þess vegna erum við í þessu og við séum alþjóðasinnuð. Fyrir mér er það grundvallaratriði,“ segir Þórdís Kolbrún. Undir það falli vestræn samvinna, öryggis og varnarmál. „Að við berum skynbrað og alvöru skilning á því sem er að gerast í kringum okkur. Nýr veruleiki sem við höfum ekki séð frá því við urðum lýðveldi og er stóralvarlegt mál. Sem mér finnst við ekki tala nægjanlega um, ekki vera að búa okkur undir þennan nýja veruleika nægjanlega mikið. Undir þetta fellur líka EES samningurinn, utanríkisviðskipti. Við erum rík og sterk vegna þess að við seljum útlendingum vörurnar okkar. Byggjum okkar lífsgæði og lífskjör á kerfi sem verið er að vega að og reyna að brjóta,“ segir utanríkisráðherrann fyrrverandi. Sjálfstæðisflokkurinn hafi sögulega verið með skýra sýn í þessum efnum og staðið vaktina þegar komi að vestrænni samvinnu. Það væri lykilatriði að flokkurinn verði það áfram. Óánægja með stjórnarsamstarfið í töluverðan tíma Undir lok fyrra kjörtímabils síðustu ríkisstjórnar var farið að bera á ókyrrð meðal Sjálfstæðismanna, bæði innan þingflokks og utan. Fljótlega eftir að síðara kjörtímabilið hófst jókst þessi ókyrrð þannig að sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu gegn málum einstakra ráðherra og stefnu ríkisstjórnarinnar. Vorið 2023 sagði Óli Björn Karason þingflokksformaður síðan af sér vegna óánægju með stöðuna og stefnuna. Bjarni Benediktsson sleit stjórnarsamstarfinu vegna vaxandi óánægju innan þingflokksins með samstarfið.Vísir/Vilhelm Er hægt að segja að Bjarni hafi ekki haft stjórn á þingflokknum undir lokin. Þar hafi verið virk stjórnarandstaða sem ekki gat unað við stjórnarsamstarfið? „Það var auðvitað öllum ljóst að það var óánægja með stjórnarsamstarfið innan þingflokksins í töluverðan tíma. Það fer bara eftir því hvern þú spyrð hvað er orsök og hvað er afleiðing. Þeir sem fóru þar fram gerðu það auðvitað vegna þess að þeir töldu það mikilvægt vegna umræðunnar í flokknum. Þetta var skynbragð af því hvernig okkar fólki leið,“ segir Þórdís Kolbrún. Það þýði hins vegar ekkert að hugsa um ef og hefði í einhverri tímalínu. Samstarfið hafi verið orðið mjög þungt, sérstaklega á síðara kjörtímabilinu. „Flokkarnir voru að gefa mjög mikið eftir og kjósendur Sjálfstæðisflokksins segja mjög hátt og skýrt að við höfum gert of mikið af því. Augljóslega þótti kjósendum hinna flokkanna það líka vegna þess að annar þurkaðist út og hinn situr eftir með fimm þingmenn af þrettán. Það er bara staðan. Við gáfum mjög mikið eftir í stjórnarsamstarfi þriggja mjög ólíkra flokka sem höfðu starfað saman í mörg ár og verðum að lofa okkar fólki að það gerum við ekki aftur,“ segir Þórdís Kolbrún. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að endurmeta stöðuna Þess vegna verði kjörnir fulltrúar flokksins að eiga einlægt samtal við sitt fólk um hvað megi gera málamiðlanir og hvað ekki. Það hafi verið gerðar miklar málamiðlanir, sérstaklega á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna og ef það megi ekki gerast verði það að liggja skýrt fyrir. „Alveg eins og maður þarf að hafa skynbragð á hvað flokkurinn er að hugsa þarf maður líka að bera skynbragð á hvernig stjórnmálin liggja. Það eru mjög margir flokkar og hver er vilji fólksins í landinu eftir þeim flokkum sem það er að kjósa? Ef þú ætlar að vera stjórntækur flokkur sem vill vera í ríkisstjórn og hafa áhrif, á hvaða forsendum er það gert,“ spyr Þórdís Kolbrún. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum 10. apríl í fyrra. Þórdís Kolbrún segir að verkefnum stjórnarinnar sem samstaða var um hafi einfaldlega verið lokið í desember.Vísir/Vilhelm Var það rétt ákvörðun hjá Bjarna á þeim tíma að stilla Vinstri grænum upp við vegg í útlendingamálum undir lokin og slíta stjórnarsamstarfinu á þeim tíma sem hann gerði eða var þessi ákvörðun tekin í örvæntingu? „Ég held að hún hafi ekki verið tekin í örvæntingu. Ef einhver tekur almennt yfirvegaðar ákvarðanir að vel athuguðu máli þá er það Bjarni. Mér fannst ekki sjálfsagt að við héldum áfram þessu samstarfi þegar Katrín Jakobsdóttir fór af vettvangi. Mat það bara út frá pólitískum veruleika og líkum á að klára verkefnið eins og alltaf var verið að tala um. Þau verkefni sem voru efst á blaði voru verkefni sem við áttum rosalega erfitt með að ná lendingu í með Vinstri grænum. Þeim mun meiri árangri sem við næðum þeim mun erfiðara yrði það fyrir þau og öfugt,“ segir Þórdís Kolbrún. Það hafi því ekki verið um annað að ræða en ljúka samstarfinu þegar það var gert. Ekki mátt gerast seinna en spurning hvort það hefði breytt einhverju hefði það verið gert fyrr. Verkefninu hafi einfaldlega verið lokið í hennar huga. Ekki eftirsóknarvert að alþingiskosningar snúist ítrekað um útlendingamál Þegar Bjarni sleit stjórnarsamstarfinu nefndi hann erfiðleika með að ná samstöðu innan ríkisstjórnarinnar um nokkur mál eins og orkumál. Mest fór þó fyrir ágreiningi um útlendingamál og andstöðu Vinstri grænna við boðaðar áframhaldandi breytingar þáverandi dómsmálaráðherra á útlendingalögum. Það fór aftur á móti lítið fyrir útlendingamálum í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar. Kjósendur höfðu mestan áhuga á stefnu flokkanna í heilbrigðismálum, efnahagsmálum og kannski samgöngumálum? „Ég held að hluta til hafi það verið vegna þess að við vorum þó búin að gera margt með lagabreytingum þá um vorið,“ segir utanríkisráðherrann fyrrverandi. Breytingar hafi verið gerðar á Keflavíkurflugvelli og töluverður hluti hælisleitenda hafi verið sendur til baka. „Ég segi fyrir mig persónulega og það eru ekki allir sammála um það í Sjálfstæðisflokknum, að mér finnst ekki eftirsóknarvert að alþingiskosningar á fjögurra ára fresti snúist útlendingamál. Ég held að það sé ekki það sem stjórnmálin, lýðræðið og almenningur þurfi helst á að halda. Þessir hlutir þurfa auðvitað að vera í lagi og þess vegna var orðið gríðarlega mikilvægt að taka þær ákvarðanir sem við tókum.“ Ef frekari ákvarðanir verði ekki teknar og ástandinu aðeins haldið í skefjum gætu Íslendingar misst stjórn á stöðunni. „Fyrir mér er þetta málaflokkur sem þarf að vera skýr og skilvirkur. Það verða alltaf miklar deilur um hann,“ segir Þórdís Kolbrún en skýrar reglur verði að gilda á þessu sviði. Langflestir útlendingar á Íslandi sem nú telja um áttatíu þúsund koma hins vegar ekki til Íslands sem hælisleitendur. Mikill meirihluta kemur hingað af evrópska efnahagssvæðinu til að vinna enda eftirpurnin hér mikil eftir vinnuafli. Þetta fólk hefur fullan rétt á að koma til Íslands í leit að vinnu rétt eins og Íslendingar geta sótt vinnu og nám um alla Evróu samkvæmt samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Stöndum illa að aðlögun innflytjenda Margt af því fólki sem hingað kemur er hér til langframa og sest hér að en gengur illa að fóta sig í samfélaginu meðal annars vegna þess að lítill stuðningur er við að það læri íslensku. Erum við þá ekki að horfa fram á að í mjög nákomini framtíð skapist hér samfélag fyrsta og annars flokks borgara. Þeirra sem skilja og tala Íslensku og þeirra sem gera það ekki? „Ég held að þetta sé algert lykilatriði og það blasi við að þessi málaflokkur verður veigameiri í pólitískri umræðu í framtíðinni. Vegna þessara gríðarlegu miklu breytinga í samfélaginu okkar. Það er mikilvægt að við tölum af viti og yfirvegun, ekki í múgæsingu og séum hálf barnaleg í nálgun. Við verðum þá líka að standast pólitískar freistingar fyrir tímabundnar vinsældir,“ segir Þórdís Kolbrún. Hér gildi að vera sanngjarn og gera einnig kröfur okkur sjálf en ekki bara það fólk sem hingað kemur. „Auðvitað þarf það að vera þannig að fólk hafi tækifæri til þess raunverulega að aðlagast samfélaginu. Þú nefnir tungumálið sem ég held og vona að verði áfram stórt í umræðunni. Vegna þess að þjóð sem missir tungumálið sitt, hver er hún,“ spyr varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Það þyrfti líka að horfa á tækifæri þeirra sem higað flytja. „Við erum ekki að standa okkur þegar kemur að því að meta menntun þess fólks sem hingað kemur. Við gerum það bara illa. Það er ósanngjarnt gagnvart því fólki, það er vond stefnumörkun hér á Íslandi. Hefur áhrif á verðmætasköpun. Þegar við segjum að við séum land tækifæranna þá hljótum við að meina að við séum það gagnvart öllum,“ segir Þórdís Kolbrún. Þórdís Kolbrún segir Íslendinga standa illa að því að viðurkenna menntun þeirra sem flytja til Íslands.Vísir/RAX Það sama gildi þegar horft væri til krakka sem ekki væru með íslensku sem fyrsta mál. Síðast þegar hún hafi skoðað tölur gengi þeim krökkum ekki eins vel og krökkum með íslensku sem aðalmál. Það væri ekki vegna þess að þessir krakkar væru ver gefnir en íslenskir krakkar. Sammála Kristrúnu um aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu Núverandi ríkisstjórn hefur boðað þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2027 um hvort taka eigi á ný upp viðræður við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu. Síðast þegar það var gert í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var tekist á um málið á Alþingi. Þá var það málamiðlunartillaga frá Sjálfstæðisflokknum að fyrst færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort hefja ætti viðræður og síðan færi fram önnur þjóðaratkvæðagreiðsla að viðræðum loknum. Er ekki upplagt að fá niðurstöðu í þetta mál í eitt skipti fyrir öll? „Í fyrsta lagi þætti mér eðlilegra að spurningin væri hvort fólk vildi ganga í Evrópusambandið, já eða nei,“ segir Þórdís Kolbrún. Það væri augljóst að það kunni ekki góðri lukku að stýra að sækja um aðild þar sem annar stjórnarflokkurinn var fylgjandi aðild en hinn á móti eins og í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. „Í þessari ríkisstjórn ertu með einn flokk sem vill ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Mér finnst ekki góður bragur á því og veit ekki hvernig aðildarríki Evrópusambandsins taka í það. Það á bara eftir að koma í ljós.“ Þau tala um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Er Sjálfstæðisflokkurinn hræddur við að spyrja þjóðina? „Nei, Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hræddur við að spyrja þjóðina en það er grundvallaratriði um hvað er spurt,“ segir Þórdís Kolbrún. Hún væri þannig gerð að ef fólk væri lýðræðislega kjörið þyrfti það að hafa skýra sýn og skoðun á þvi hvort Íslandi væri betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Það hefur farið vel á með forystukonum stjórnarflokkanna hingað til. Þórdís Kolbrún minnir á að Flokkur fólksins væri mótfallinn aðilda að ESB og að formaður Samfylkingarinnar hefði fyrir kosningar setti fyrirvara um aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið á ný.Vísir/vilhelm „Kristrún Frostadóttir var hérna hjá þér fyrir kosningar og ég hlustaði á það viðtal. Ég er dálítið sammála því þegar hún segir að það skipti líka máli hvernig þetta er gert. Hver á aðdragandinn að vera. Er sátt um það í samfélaginu. Hvar stendur verkalýðshreyfingin, hvar stendur atvinnulífið. Hvernig liggur landið hjá almenningi. Vegna þess að það er dálítið snúið að ætla að vera ríkisstjórnin sem sameinar, og hún með sína samlíkingu 80/20%, en setja síðan mál á dagskrá sem liggur alveg fyrir, að ég held, að muni kljúfa þjóðina í herðar niður. Það er að segja ef fara á í atkvæðagreiðslu án þessa aðdraganda sem ég tel mikilvægt að hafa,“ segir Þórdís Kolbrún. Hún viti ekki hvernig ríkisstjórnin ætli að láta þetta takast. Stefnubreyting ef hún býður sig ekki fram En aftur að landsfundinum eftir sex vikur. Telur þú núna þar sem þú situr hjá mér að það séu meiri líkur á því en minni að þú munir taka formannsslaginn? „Í rauninni tók ég ákvörðun fyrir meira en tveimur árum örugglega, að ég myndi bjóða fram krafta mína þegar Bjarni Benediktsson myndi ákveða að hætta sem formaður. Ég hef ekki tekið nýja ákvörðun síðan þá,“ segir varaformaðurinn sem greinilega vegur og metur stöðuna þessa dagana. Hún verði að trúa á verkefnið og fólk verði að deila sýn á framtíðina. Margt hafi breyst undanfarin misseri og ár. Sjálfstæðisflokkurinn væri breiðfylking ólíkra hópa. Það væri kosturinn við Sjálfstæðisflokkinn en það væri líka vandasamt. „Ég er með mjög skýra sýn á hvað mér þykir mikilvægast fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem verkfæri til að gera Ísland sterkara.“ Þannig að það yrði stefnubreyting í raun og veru hjá þér persónulega ef þú byðir ekki fram krafta þína í þetta embætti? „Það yrði það. En ég segi líka, á þessum sjö árum hefur mjög margt breyst og bara á undanförnum tveimur árum hefur mjög margt breyst. Heimurinn er stór og hann er hætturlegri nú en áður. Það er mikil stigmögnun alls staðar í kringum okkur. Mér finnst enn skrýtið a hugsa til þess við erum að lifa tíma sem við lásum um í sögubókum og mér var sagt að kæmu ekki aftur í okkar álfu.” Það hafi opnað nýja veröld að vera utanríkisráðherra. Fylgjast með því hvernig fólk væri að takast á við þau mál á erlendum vettvangi. Hvort sem væri í NATO eða annars staðar sem að væri gert. „Mér finnst mjög mikilvægt að taka þessa ákvörðun með hjartanu.“ Heldur þú að það gerist fyrir mánaðamót? „Ég hugsa að það gerist fyrir mánaðamót. Það er hálfur mánuður í það.“ Þú sagðir við mig á dögunum að Sjálfstæðisflokkurinn ætti glæsilega sögu en hann þyrfti lýka að hafa skýra sýn á framtíðina. Ef þú ættir að nefna tvö til þrjú atriði sem þú telur mjög mikilvægt að séu í framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins, hver yrðu þau? „Það er að það sé algerlega óumdeilt að við erum áhrifamest og ábyrgust þegar við erum með mjög skýra sýn þegar kemur að vestrænni samvinnu. Öryggis- og varnarmálum, alþjóðasamskiptum og utanríkisviðskiptum og svo framvegis. Það er að hann þori að vera hægriflokkur þegar kemur að ríkisfjármálum og forgangsröðun annarra manna peninga,“ segir varaformaðurinn. Það þýðir að öllum steinum verði velt og dregið úr mikilli sóun sem væri til staðar í öllu kerfinu. Að flokkurinn þori að fara í breytingar á sameignlegum eignum og hvernig sameiginlegar eignir þjóðarinnar væru reknar. Þjóðin væri með bundið fé víða sem væri betur varið í að lækka skuldir eða leggja vegi sem gagnaðist samfélaginu. „Og vera manneskjuleg og hlý í stjórnmálum. Vegna þess að ef manni væri ekki annt um fólk þá væri ég ekki í stjórnmálum. Ef manni er ekki annt um samfélagið sitt og að tala upp það að vera sam-félag, að við vinnum saman að því að gera samfélagið okkar gott.“ Hefur Sjálfstæðisflokkurinn einmitt haft þá ímynd að vera ekki hlýr, vera of kaldur? „Ég held að það sé alveg ljóst að hann hefur þá ímynd. Hann þarf að vinna í því að útskýra betur af hverju við tölum um forgangsröðun fjármuna. Af hverju við tölum fyrir því að verðmætasköpun þurfi stöðugt að aukast. Af hverju erum við að tala um öflugt atvinnulíf.“ Ímyndin væri að þetta réðist allt af hagsmunum fárra en ekki heildarinnar. „Ég sjálf valdi Sjálfstæðisflokkinn út frá grunngildum inni í mér sem ég get ekki gefið afslátt af. Fyrir mér er Sjálfstæðisflokkurinn verkfæri til að ná þessu fram. Ég þekkti engan í Sjálfstæðisflokknum þegar ég gekk í hann fyrir um átján árum. Hann þarf bara að vera samkvæmur sjálfum sér og stór og sterkur í þessum verkefnum framundan. Með sterkan Sjálfstæðisflokki eru meiri líkur á að Ísland verði áfram öflugt og sterkt.“ Við erum alla vega sammála um að það eru mikil tímamót í sögu Sjálfstæðisflokksins? „Já, það er alveg klárt,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir í Samtalinu á Stöð 2 á fimmtudag.
Samtalið Alþingiskosningar 2024 Alþingi Sjálfstæðisflokkurinn Tengdar fréttir Ekki ónæm fyrir oft ósanngjarnri gagnrýni Katrín Jakobsdóttir varð einn vinsælasti ef ekki vinsælasti stjórnmálamaður landsins samkvæmt könnunum fljótlega eftir að hún tók við mennta- og menningarmálaráðuneytinu í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að loknu efnahagshruninu árið 2009. Þær vinsældir héldu áfram eftir að hún varð forsætisráðherra við myndun ríkisstjórnar Vinstri grænna með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki þótt fylgi stjórnarinnar fjaraði hratt út á seinna kjörtímabili ríkisstjórnar hennar eftir kosningarnar 2021. 14. desember 2024 08:02 Telja flokkana þrjá geta fundið sterka sameiginlega samnefnara Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra og einn stofnenda Viðreisnar og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar segja nýliðnar alþingiskosningar staðfesta miklar breytingar á flokkakerfinu. Þau telja að þeir flokkar sem nú reyna að mynda ríkisstjórn ættu að geta fundið sameiginlegan samnefnara og eru bjartsýn á að þeim takist að mynda ríkisstjórn. 7. desember 2024 08:01 Hlutverk flokksforingja stórlega ofmetið í kosningabaráttunni Ólafur Þ. Harðarson prófessor emiritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir hlutverk leiðtoga stjórnmálaflokkanna í öflun vinsælda flokkanna stórlega ofmetið. Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn bítist nú á um 30 prósenta fylgi hægriflokka á Íslandi en nái ekki út fyrir þann bergmálshelli. 23. nóvember 2024 08:03 Milljónir ekki komið til Íslands þótt þær gætu það Sanna Magadela Mörtudóttir oddviti Sósíalistaflokksins fyrir komandi alþingiskosningar segir milljónir manna innan Evrópska efnahagssvæðisins og Schengen ekki hafa komið til Íslands þótt þær gætu það með fullum rétti. Í Samtalinu með Heimi Má á fimmtudag sagði hún Sjálfstæðisflokkinn hafa farið með dómsmálaráðuneytið meira og minna allt frá því þessi samningar voru gerðir og nú kvartaði flokkurinn yfir því að innviðir landsins þyldu ekki þær þúsundir manna sem hingað hafi komið til að vinna á undanförnum árum. 16. nóvember 2024 08:02 Píratar stefna á stjórnarsamstarf án Sjálfstæðisflokksins Þórhildur Sunna Ævardóttir þingflokksformaður Pírata er sannfærð um að hreyfingunni takist að koma fulltrúum á þing þótt á brattan hafi verið að sækja í könnunum að undanförnu. Í Samtalinu með Heimi Má segir hún Pírata stefna að því að komast í ríkisstjórn en muni þó ekki mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum. 7. nóvember 2024 16:28 Kallar eftir umboði þjóðarinnar til breytinga Hún kom eins og óskrifað blað inn í íslensk stjórnmál fyrir alþingiskosningarnar 2021 og var orðin formaður Samfylkingarinnar um ári síðar. Fljótlega varð ljóst að hún var stjórnmálamaður af annarri skúffu en flestir. Hún ferðaðist um landið með opna fundi og upp úr þeim ferðum mótaði hún nýja stefnu fyrir Samfylkinguna sem var nálægt því að þurrkast út í kosningunum 2016. 2. nóvember 2024 08:02 Þakklát fyrir að missa ekki sjónina síðar á ævinni Inga Sæland formaður og stofnandi Flokks fólksins gerir lítið úr væringum innan flokksins nú þegar hún leiðir hann í fjórða sinn í kosningum til Alþingis. Tveir áberandi þingmenn í forystu flokksins, Tómas A. Tómasson í Reykjavíkurkjördæmi norður og Jakob Frímann Magnússon í Norðausturkjördæmi, fengu ekki brautargengi til að leiða flokkinn í kjördæmum sínum. 26. október 2024 08:02 Formaður Framsóknar segir ríkisstjórnina hafa talað sjálfa sig niður Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins hefur lagt sjálfan sig að veði í komandi alþingiskosningum með því að taka annað sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Þar með baráttusætið því flokkurinn hefur ekki mælst með mann inni úr kjördæminu í nýjustu könnunum. 19. október 2024 08:02 Íslendingar eiga ekki að aðlaga sig innflytjendum heldur öfugt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að vogunarsjóðir hafi hótað honum þegar hann var forsætisráðherra vegna þess að hann vildi láta sjóðina taka skellinn af falli íslensku bankanna. 10. október 2024 22:02 Þorgerður Katrín: Enginn ráðskonurass undir fólki í Viðreisn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er keppniskona með mikla reynslu af stjórnmálum og er kominn í hlaupaskóna fyrir næstu alþingiskosningar. Hún segir engann „ráðskonurass undir fólki í Viðreisn," sem taki almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Þegar Benedikt Jóhannesson, aðalhvatamaður að stofnun Viðreisnar og fyrsti formaður flokksins, sagði af sér formennskunni aðeins sautján dögum fyrir kosningarnar 2017, stökk Þorgerður Katrín upp í brú á þessu nýsjósetta skipi í ólgusjó íslenskra stjórnmála og kom því í höfn. 5. október 2024 08:00 Brotthvarf Katrínar hafði mikil áhrif Svandís Svavarsdóttir er staðráðin í að Vinstrihreyfingin grænt framboð nái fulltrúum á þing í næstu alþingiskosningum þótt kannanir að undanförnu sýni að þar verði á brattan að sækja. Í Samtalinu á Vísi á fimmtudag fór hún yfir erindi hreyfingarinnar, stjórnarsamstarfið með Sjálfstæðisflokki og Framsókn í sjö ár og hvaða mál það eru sem hún telur mikilvægt að ná í gegn á Alþingi fyrir kosningar. 28. september 2024 08:01 Maður margra storma íhugar stöðu sína Bjarni Benediktsson hefur í fyrsta sinn opinberlega greint frá því að hann íhugi nú stöðu sína eftir fimmtán ár í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins. Hann geri sér grein fyrir að dagur ákvörðunar renni upp innan hálfs árs, eða fyrir landsfund flokksins sem fram fer um mánaðamótin febrúar-mars á næsta ári. Ef til vill væri kominn tími til að hleypa nýju blóði inn í forystu flokksins. 21. september 2024 08:00 Mest lesið Grímuklæddi maðurinn kúkaði aftur á bílinn Innlent Fengu tæpar fimm og sex milljónir króna í tvöföldum launagreiðslum Innlent Margir alvarlega slasaðir á skíðasvæði á Spáni Erlent Sagði nei við sölu Íslandsbanka en treystir ráðherra fullkomlega nú Innlent Viðbúin því að fylgjendum fækki í kjölfar TikTok-banns Innlent Undirbúa verkföll: „Þetta er ömurleg staða að svona skuli standa“ Innlent Finnst of langt gengið í glæpavæðingu í umfjöllun um Carbfix Innlent Prófessorar íhuga verkfall: „40% akademísks starfsfólks í kulnun eða komin langt á leið“ Innlent Snarpur skjálfti við Trölladyngju Innlent E. coli fannst í neysluvatni Innlent Fleiri fréttir Prófessorar íhuga verkfall: „40% akademísks starfsfólks í kulnun eða komin langt á leið“ E. coli fannst í neysluvatni Ærslabelgur og aparóla óskast á Hvolsvöll Grímuklæddi maðurinn kúkaði aftur á bílinn Snarpur skjálfti við Trölladyngju Undirbúa verkföll: „Þetta er ömurleg staða að svona skuli standa“ Sagði nei við sölu Íslandsbanka en treystir ráðherra fullkomlega nú Breytt afstaða til sölu á Íslandsbanka og samgöngutruflanir Veðurviðvaranir og vegalokanir Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að breikka faðminn og vera hlýrri Reyndi að stinga af á bíl og svo á hlaupum Fengu tæpar fimm og sex milljónir króna í tvöföldum launagreiðslum Viðbúin því að fylgjendum fækki í kjölfar TikTok-banns Finnst of langt gengið í glæpavæðingu í umfjöllun um Carbfix Kviknaði í gámi í byggingarsvæði við gamla Orkuhúsið Undrast sinnuleysi forvera sinna og vill lagabreytingar Starfsmaður frá Filippseyjum syngur og syngur á Selfossi Ungmenni nota tálbeituaðferðir til að ráðast á meinta níðinga Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar Stórhættulegar tálbeituaðgerðir ungmenna á samfélagsmiðlum Hefja undirbúning verkfalla í framhaldsskólum Taka sýni úr mink sem fannst dauður í Vatnsmýri Starfsmanni ÍSÍ dauðbrá þegar hún mætti til vinnu Aflýsa óvissustigi vegna Bárðarbungu Sér rautt vegna ærslabelgs fyrir framan húsið sitt „Þarna náum við að svæla allt upp á yfirborðið“ Börnin sem talin voru í hættu komu í leitirnar á Suðurnesjum Þing verður sett eftir rúman hálfan mánuð Rannsaka ólöglegt fiskeldi veiðifélags í Borgarfirði Tveir handteknir í fíkniefnamáli fyrir austan Sjá meira
Ekki ónæm fyrir oft ósanngjarnri gagnrýni Katrín Jakobsdóttir varð einn vinsælasti ef ekki vinsælasti stjórnmálamaður landsins samkvæmt könnunum fljótlega eftir að hún tók við mennta- og menningarmálaráðuneytinu í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að loknu efnahagshruninu árið 2009. Þær vinsældir héldu áfram eftir að hún varð forsætisráðherra við myndun ríkisstjórnar Vinstri grænna með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki þótt fylgi stjórnarinnar fjaraði hratt út á seinna kjörtímabili ríkisstjórnar hennar eftir kosningarnar 2021. 14. desember 2024 08:02
Telja flokkana þrjá geta fundið sterka sameiginlega samnefnara Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra og einn stofnenda Viðreisnar og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar segja nýliðnar alþingiskosningar staðfesta miklar breytingar á flokkakerfinu. Þau telja að þeir flokkar sem nú reyna að mynda ríkisstjórn ættu að geta fundið sameiginlegan samnefnara og eru bjartsýn á að þeim takist að mynda ríkisstjórn. 7. desember 2024 08:01
Hlutverk flokksforingja stórlega ofmetið í kosningabaráttunni Ólafur Þ. Harðarson prófessor emiritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir hlutverk leiðtoga stjórnmálaflokkanna í öflun vinsælda flokkanna stórlega ofmetið. Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn bítist nú á um 30 prósenta fylgi hægriflokka á Íslandi en nái ekki út fyrir þann bergmálshelli. 23. nóvember 2024 08:03
Milljónir ekki komið til Íslands þótt þær gætu það Sanna Magadela Mörtudóttir oddviti Sósíalistaflokksins fyrir komandi alþingiskosningar segir milljónir manna innan Evrópska efnahagssvæðisins og Schengen ekki hafa komið til Íslands þótt þær gætu það með fullum rétti. Í Samtalinu með Heimi Má á fimmtudag sagði hún Sjálfstæðisflokkinn hafa farið með dómsmálaráðuneytið meira og minna allt frá því þessi samningar voru gerðir og nú kvartaði flokkurinn yfir því að innviðir landsins þyldu ekki þær þúsundir manna sem hingað hafi komið til að vinna á undanförnum árum. 16. nóvember 2024 08:02
Píratar stefna á stjórnarsamstarf án Sjálfstæðisflokksins Þórhildur Sunna Ævardóttir þingflokksformaður Pírata er sannfærð um að hreyfingunni takist að koma fulltrúum á þing þótt á brattan hafi verið að sækja í könnunum að undanförnu. Í Samtalinu með Heimi Má segir hún Pírata stefna að því að komast í ríkisstjórn en muni þó ekki mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum. 7. nóvember 2024 16:28
Kallar eftir umboði þjóðarinnar til breytinga Hún kom eins og óskrifað blað inn í íslensk stjórnmál fyrir alþingiskosningarnar 2021 og var orðin formaður Samfylkingarinnar um ári síðar. Fljótlega varð ljóst að hún var stjórnmálamaður af annarri skúffu en flestir. Hún ferðaðist um landið með opna fundi og upp úr þeim ferðum mótaði hún nýja stefnu fyrir Samfylkinguna sem var nálægt því að þurrkast út í kosningunum 2016. 2. nóvember 2024 08:02
Þakklát fyrir að missa ekki sjónina síðar á ævinni Inga Sæland formaður og stofnandi Flokks fólksins gerir lítið úr væringum innan flokksins nú þegar hún leiðir hann í fjórða sinn í kosningum til Alþingis. Tveir áberandi þingmenn í forystu flokksins, Tómas A. Tómasson í Reykjavíkurkjördæmi norður og Jakob Frímann Magnússon í Norðausturkjördæmi, fengu ekki brautargengi til að leiða flokkinn í kjördæmum sínum. 26. október 2024 08:02
Formaður Framsóknar segir ríkisstjórnina hafa talað sjálfa sig niður Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins hefur lagt sjálfan sig að veði í komandi alþingiskosningum með því að taka annað sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Þar með baráttusætið því flokkurinn hefur ekki mælst með mann inni úr kjördæminu í nýjustu könnunum. 19. október 2024 08:02
Íslendingar eiga ekki að aðlaga sig innflytjendum heldur öfugt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að vogunarsjóðir hafi hótað honum þegar hann var forsætisráðherra vegna þess að hann vildi láta sjóðina taka skellinn af falli íslensku bankanna. 10. október 2024 22:02
Þorgerður Katrín: Enginn ráðskonurass undir fólki í Viðreisn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er keppniskona með mikla reynslu af stjórnmálum og er kominn í hlaupaskóna fyrir næstu alþingiskosningar. Hún segir engann „ráðskonurass undir fólki í Viðreisn," sem taki almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Þegar Benedikt Jóhannesson, aðalhvatamaður að stofnun Viðreisnar og fyrsti formaður flokksins, sagði af sér formennskunni aðeins sautján dögum fyrir kosningarnar 2017, stökk Þorgerður Katrín upp í brú á þessu nýsjósetta skipi í ólgusjó íslenskra stjórnmála og kom því í höfn. 5. október 2024 08:00
Brotthvarf Katrínar hafði mikil áhrif Svandís Svavarsdóttir er staðráðin í að Vinstrihreyfingin grænt framboð nái fulltrúum á þing í næstu alþingiskosningum þótt kannanir að undanförnu sýni að þar verði á brattan að sækja. Í Samtalinu á Vísi á fimmtudag fór hún yfir erindi hreyfingarinnar, stjórnarsamstarfið með Sjálfstæðisflokki og Framsókn í sjö ár og hvaða mál það eru sem hún telur mikilvægt að ná í gegn á Alþingi fyrir kosningar. 28. september 2024 08:01
Maður margra storma íhugar stöðu sína Bjarni Benediktsson hefur í fyrsta sinn opinberlega greint frá því að hann íhugi nú stöðu sína eftir fimmtán ár í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins. Hann geri sér grein fyrir að dagur ákvörðunar renni upp innan hálfs árs, eða fyrir landsfund flokksins sem fram fer um mánaðamótin febrúar-mars á næsta ári. Ef til vill væri kominn tími til að hleypa nýju blóði inn í forystu flokksins. 21. september 2024 08:00