Handbolti

„Þurfum að taka Dani til fyrir­myndar“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var hress og kátur í dag.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var hress og kátur í dag. vísir/vilhelm

„Það eru blendnar tilfinningar eftir leikinn gegn Grænhöfðaeyjum þó svo við hefðum unnið stórt. Það kom tíu mínútna kafli þar sem var deyfð yfir þessu,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson á hóteli landsliðsins í Zagreb í dag.

„Við ættum að taka Danina meira til fyrirmyndar með þetta. Negla þetta allan tímann eins og þeir gerðu með því að vinna með 25 mörkum. Það er enginn að fara að dvelja við þennan leik.“

Kúbverjarnir bíða á morgun og miðað við frammistöðu þeirra í fyrsta leik þá á Ísland að vinna stórt.

Klippa: Gísli vill keyra á fullu

„Þetta er skyldusigur. Síðan tekur við annað verkefni sem maður hefur verið að horfa í og verður okkar stærsta prófraun,“ segir miðjumaðurinn en þar er hann auðvitað að tala um leikinn gegn Slóveníu sem er um sigur í riðlinum og tvö stig inn í milliriðilinn.

„Handbolti er íþrótt mistaka og maður er alltaf að keppast við að fækka þeim. Við vorum með of marga tapaða bolta síðast og gæðaleysi. Við verðum samt jákvæðir áfram. Við ætlum samt að gera betur gegn Kúbu en gegn Grænhöfðaeyjum.“

Leikur Íslands og Kúbu hefst klukkan 19.30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×