Handbolti

„Þetta var alls­herjar klúður þarna“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elliði Snær Viðarsson var ósáttur við sjálfan sig eftir rauða spjaldið. Það mæddi töluvert á félaga hans Ými Erni, þar sem þriðji línumaðurinn, Sveinn Jóhannsson gat heldur ekki spilað.
Elliði Snær Viðarsson var ósáttur við sjálfan sig eftir rauða spjaldið. Það mæddi töluvert á félaga hans Ými Erni, þar sem þriðji línumaðurinn, Sveinn Jóhannsson gat heldur ekki spilað. Vísir/Vilhelm

„Þetta var bara lélegt“ segir landsliðsfyrirliðinn Elliði Snær Viðarsson sem var ósáttur við sjálfan sig eftir að hafa fengið reisupassann í leik Íslands við Grænhöfðaeyjar á HM í handbolta í gær. Hann vonast til að spila meira í næsta leik við Kúbu á morgun.

Elliði entist aðeins í örfáar mínútur í sigri Íslands í gær vegna rauða spjaldsins sem hann fékk að líta skömmu eftir að hann kom inn á. Hann var vægast sagt ósáttur við sjálfan en hann fékk einnig rautt í æfingaleik við Svía fyrir viku síðan.

„Maður þarf að fara að hætta þessu. Svíaleikurinn er eitthvað sem er hægt að kalla óheppni en þetta var bara lélegt hjá mér í gær. Þetta var bara klárt rautt spjald. Auðvitað ætlaði ég aldrei að fara í andlitið á honum,“ segir Elliði sem segir vonbrigði að geta ekki verið liðinu meira innan handar. Sem fyrirliði hefur hann fengið að líta tvö rauð spjöld í þremur leikjum.

„Sem fyrirliði þá eru þetta náttúrulega bara vonbrigði að geta ekki hjálpað liðinu meira en að taka tvo leiki þar sem maður er langstærstan part uppi í stúku. Það er ekkert annað heldur en að keyra þetta í gang núna, hér eftir,“ segir Elliði.

Línumannastaðan hefur verið betur mönnuð en í gær. Auk rauðs spjalds Elliða var Sveinn Jóhannsson fjarverandi þar sem treyjunúmer hans losnaði af búningi hans og honum óheimilt að koma inn á völlinn án númers. Ýmir Örn Gíslason sinnti stöðunni því nánast einn síns liðs.

„Hann þurfti bókstaflega að spila í þessum leik. Þetta var allsherjar klúður þarna, þessi tvö atvik, treyjan hans fór alveg til fjandans og ég með rautt. Þannig að Ýmir kláraði þetta vel í miklu álagi,“ segir Elliði.

Klippa: Horfði varla á leikinn

Elliði viðurkennir þá að hann hafi ekki fylgst með leiknum af mikilli eimbeitingu eftir brottvísunina. Hann hafi verið svo ósáttur við sjálfan sig.

„Ég viðurkenni að ég var svolítið svekktur þarna uppi í stúku. Fyrst að leikurinn var nokkuð klár var ég meira að fara yfir mín mál þarna sjálfur uppi í stúku. Það voru nokkur augnablik sem við hefðum getað gert betur og nokkur augnablik sem við gerðum vel. Það er hægara sagt en gert að halda fókus allan leikinn þegar þú ert kominn með tíu marka forystu en það er eitthvað sem við þurfum að gera betur í leiknum á móti Kúbu,“ segir Elliði sem sér fram á að spila meira í þeim leik, við Kúbu, sem fram fer í kvöld.

„Já, ég mæti klár í næsta leik. Það þýðir ekkert annað.“

Ísland mætir Kúbu í öðrum leik riðlakeppninnar á HM í Zagreb annað kvöld klukkan 19:30. Strákunum okkar verður fylgt vel eftir fram að leik.


Tengdar fréttir

Katastrófan vegna klaufa í Kristianstad

Slök prentvél í Kristianstad orsakaði það að Sveinn Jóhannsson gat ekki spilað meira en raun ber vitni í leik Íslands og Grænhöfðaeyja í fyrsta leik strákanna okkar á HM í Zagreb.

HM í dag: Bitur Króati og blaðamenn í brasi

Strákarnir okkar í karlalandsliðinu í handbolta unnu 13 marka sigur á Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik á HM í Zagreb. Farið var yfir sviðið í keppnishöllinni eftir leik í HM í dag.

Lætur ekki glepjast þrátt fyrir þrettán marka sigur: „Hafa ekki efni á þessu“

Ís­lenska karla­lands­liðið hóf veg­ferð sína á HM í hand­bolta með þrettán marka sigri gegn Græn­höfða­eyjum. Rætt var um frammistöðuna í Besta sætinu þar sem að sér­fræðingar þáttarins létu þennan sigur á móti liði „sem ætti erfitt með að halda sér í Olís deildinni“ ekki slá ryki í augun á sér. Margt gott við leik ís­lenska liðsins en mikið rými til bætinga.

Skýrsla Vals: Píptest og svefnlyf

Þetta var skrýtinn handboltaleikur. Strákarnir okkar gerðu sitt, drápu allan vonarneista snemma og náðu í 13 marka sigur. Þetta var hins vegar ekki merkilegt eftir hlé.

Gapandi hissa á „kata­strófu“ í leik Ís­lands: „Hvaða grín er þetta?“

Sér­fræðingar Besta sætisins voru gapandi hissa á at­viki sem að kom upp í leik Strákanna okkar við Græn­höfða­eyjar á HM í hand­bolta í gær. Nú­merið og nafn Sveins Jóhans­sonar, línu­manns Ís­lands, flagnaði af treyjunni hans og ekki var vara­treyja til reiðu sem olli því að Sveinn mátti ekki spila síðasta stundar­fjórðung leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×