Það yrði skemmtilegt krydd á leikinn fyrir Íslendinga í kvöld að sjá Gróttumanninn Hafstein Óla Berg Ramos Rocha spila fyrir Grænhöfðaeyjar. Hafsteinn er uppalinn hjá Fjölni líkt og til að mynda Sveinn Jóhannsson, línumaður Íslands.
Í hópnum hjá Grænhöfðaeyjum er einnig annar leikmaður sem spilar á Íslandi, í næstefstu deild, því Admilson Furtado er hægri hornamaður Harðar á Ísafirði.
Sá leikmaður sem strákarnir okkar þurfa kannski að hafa mestar gætur á er skyttan Délcio Pina, sem líkt og fleiri í liði Grænhöfðaeyja spilar í portúgölsku deildinni, með Madeira.
Með öflugan mann á línunni
Pina, sem er 32 ára, skoraði nefnilega ellefu mörk gegn Íslandi í Gautaborg fyrir tveimur árum, þegar Ísland vann þó öruggan 40-30 sigur. Fjögur marka Pina komu af vítalínunni en hann var langmarkahæstur í leiknum.
Annar leikmaður sem er í aðalhlutverki er línumaðurinn Paulo Moreno, annar tveggja leikmanna Grænhöfðaeyja sem spilar í frönsku deildinni, en hann er leikmaður Chartres.
Grænhöfðaeyjar eru á sínu þriðja heimsmeistaramóti í röð, eftir að hafa verið með í fyrsta sinn á „Covid-mótinu“ skrautlega í Egyptalandi. Leandro Semedo, fyrirliði Grænhöfðaeyja, segir á vef IHF að fyrsta mótið teljist varla með en nú ætli menn að njóta sín, eftir frammistöðuna fyrir tveimur árum þar sem liðið vann sinn fyrsta leik og endaði í 23. sæti.
Ísland þykir þó mun sigurstranglegra í kvöld og vonir Grænhöfðaeyja um að komast áfram í milliriðla felast eflaust í því að hafa betur gegn Kúbu á mánudagskvöld.