Handbolti

„Það er ekkert búið að stilla mér upp við vegg með það“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson er með króatíska landsliðið á heimavelli á þessu heimsmeistaramóti.
Dagur Sigurðsson er með króatíska landsliðið á heimavelli á þessu heimsmeistaramóti. Getty/Luka Stanzl/

Dagur Sigurðsson byrjaði vel með króatíska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handbolta í kvöld því liðið vann þá fjórtán marka sigur á Barein í fyrsta leik.

Það var mikil stemmning í höllinni og Króatar töku öll völd frá byrjun leiks. Dagur var þarna að fara illa með gamlan félaga úr landsliðinu því Aron Kristjánsson þjálfar lið Barein.

„Ég er ekki frá því að það sé frekar gott að hafa klárað þetta svona. Við vorum einbeittir og flottir í byrjun. Við náðum að keyra á þá,“ sagði Dagur Sigurðsson í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson eftir leikinn.

„Það verður samt að segjast eins og er að Aron er ekki öfundsverður. Hann var með hálflaskað lið fyrir mót og menn ekki alveg í standi. Það er erfitt í þessum bransa,“ sagði Dagur.

Hvernig var fyrir Dag að stýra króatíska landsliðinu á heimavelli?

„Það er skemmtilegt. Þetta er blóðheitt og það eru læti. Við eigum eftir að sjá þegar við verðum settir upp við vegginn líka hvernig þetta virkar þá,“ sagði Dagur en finnur hann fyrir pressu?

„Nei ekki þannig lagað. Ég veit alveg að ég þarf að vinna leiki en ég er tiltölulega rólegur með það allt saman.,“ sagði Dagur.

„Þeir eru vanir að skipta hratt um þjálfara og ég læt mér ekkert bregða þótt að það gerist,“ sagði Dagur en hverjar eru væntingarnar til liðsins?

„Það er ekkert búið að stilla mér upp við vegg með það, í hvaða sæti ég á að lenda. Ég vona að ég geti bætt okkar leik og að við verðum sterkir,“ sagði Dagur en það má sjá viðtalið hér fyrir neðan.

Klippa: Dagur eftir sigur á Barein



Fleiri fréttir

Sjá meira


×