„Ísland er byggt af eldgosum, alveg frá grunni,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Hann ræddi nýjustu vendingar í tengslum við Bárðarbungu en óvissustig er nú í gildi á svæðinu vegna öflugrar skjálftahrinu.
„Það sem menn urðu varir við í morgun þetta, held ég, hafi staðið í þrjá eða fjóra tíma. Skjálftahrinan var á svona níu til fimm kílómetra dýpi og mjög sennilega tengist einhverjum kvikuhreyfingum á því dýpi,“ segir Þorvaldur. „En núna, síðast þegar ég athugaði, var hún alveg búin þessi skjálftahrina. Kannski búið í bili.“
Óvíst hvort áður hafi gosið í Bárðarbungu
Þorvaldur segir ekki ljóst hvort að gosið hefði nokkurn tímann í Bárðarbungu síðan jökla leysti.
„Við höfum enga vissu um það hvort að Bárðarbunga hafi gosið yfirhöfuð. Á meðan svo er þá getum við ekki verið að tala um að þetta sé öflugasta eldstöð landsins og fullyrt um það að gos komi úr Bárðarbungu,“ segir Þorvaldur.
Þá hafa gjóskulög á svæðinu verið efnagreind og ályktað, þar sem að gjóskan líktist gjóskunni sem kom úr gosi í Veiðivötnum árið 1477, að sú gjóska sé úr Bárðarbungu. Þorvaldur segir að ekki sé hægt að fullyrða það.
„Það er alveg hugsanlegt að hún hafi gosið en við erum ekki með nein gögn sem segja okkur það alveg skýrt og skorið að hún hafi gosið.“
Eldvirkasta svæði landsins
„Mér finnst langlíklegast að þetta deyi út í augnablikinu,“ segir Þorvaldur, inntur eftir hvað hann sjálfur teldi að myndi gerast.
„Við vitum að þetta er eitt eldvirkasta svæði landsins og þarna eru sennilega mestu líkur á eldgosi á landinu.“
Hér er einungis stiklað á stóru en hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.