Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Hauk Ægi Hauksson í fimm ára fangelsi fyrir skipulagða brotastarfsemi, stórfelld fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot í desember, í hinu svokallaða Sólheimajökulsmáli.
Ríkisútvarpið greinir frá því að Héraðssaksóknari hafi lagt ákæru á hendur Hauki fyrir tilraun til manndráps. Honum er gefið að sök að hafa tekið mann kyrkingartaki og þrengt að öndunarvegi hans í að minnsta kosti sjö mínútur.
Fram kemur að lögregla hafi náð að losa manninn úr kyrkingartakinu, sem var þá með skerta meðvitund, krampa og blóðsúrnun. Maðurinn krefjist þriggja milljóna króna í miskabætur.
Féll frá ákærunni tímabundið
Í ágúst í fyrra var greint frá því að einn sakborninga í stórfelldu fíkniefnamáli hefði verið ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa tekið annan mann kyrkingartaki og þrengt að öndunarvegi hans í að minnsta kosti sjö mínútur.
Þar kom fram að meint árás hafi verið gerð aðfaranótt laugardagsins 11. mars 2023 í Norðlingaholti. Jafnframt kom fram í þeirri ákæru að lögreglumanni hafi tekist að losa manninn úr taki árásarmannsins. Sá sem varð fyrir árásinni hafi verið settur í lífshættulegt ástand sem birtist í meðvitundarskerðingu, krömpum og blóðsúrum.
Í október í fyrra, rétt áður en málsmeðferð í áðurnefndu Sólheimajökulsmáli hófst, féll héraðssaksóknari tímabundið frá ákærunni en hún átti að vera tekin fyrir samhliða málinu. Hin meinta manndrápstilraun hafi ekki tengst málinu að öðru leyti en að hún væri á hendur einum hinna grunuðu.
Á að baki nokkurn sakaferil
Í Sólheimajökulsmálinu, sem einnig hefur verið kennt við skemmtiferðaskip og potta, var hópur fólks dæmdur fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfelld fíkniefnalagabrot með því að sammælast um sölu og dreifingu fíkniefna hér á landi.
Í dóminum kom fram að hin ákærðu hafi verið meðvituð um tiltekna verkaskiptingu sem varðaði geymslu, pökkun, sölu og dreifingu efnanna. Haukur var dæmdur fyrir að taka við efnunum, sem smyglað var til landsins með skemmtiferðaskipi.
Grunaður höfuðpaur hópsins var dæmdur í sex ára fangelsi fyrir hlut sinn í málinu. Sjö aðrir hlutu þriggja til fimm ára fangelsisdóma og aðrir sakborningar hlutu skilorðsbundna dóma.
Í dómi héraðsdóms kom jafnframt fram að Haukur eigi að baki nokkurn sakaferil. Hann hafi nokkrum sinnum verið fundinn sekur um líkamsárásir og umferðar- og fíkniefnalagabrot. Þá hafi hann gengist undir fjórar lögreglustjórasáttir á minna en ári. Með vísan til þess hafi honum verið gerður hegningarauki í Sólheimajökulsmálinu.