Handbolti

Strákarnir hans Dags fóru illa með mót­herja Ís­lands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson gat verið ánægður með sína menn í kvöld.
Dagur Sigurðsson gat verið ánægður með sína menn í kvöld. Getty/Noushad Thekkayil

Króatía vann afar sannfærandi sigur á Slóveníu í vináttulandsleik í kvöld en bæði liðin eru að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið í handbolta seinna í þessum mánuði.

Króatar unnu leikinn á endanum með átta marka mun, 33-25, eftir að hafa verið 16-9 yfir í hálfleik. Þetta var síðasti leikur liðsins fyrir heimsmeistaramótið þar sem þeir eru á heimavelli.

Krótarar komust mest ellefu mörkum yfir en Slóvenar löguðu aðeins stöðuna.

Dagur Sigurðsson er þjálfari króatíska landsliðsins og hann lét sína menn heyra það eftir tveggja marka sigur á Norður-Makedóníu fyrr í vikunni.

Hans menn svöruðu kallinu og Slóvenar áttu enga möguleika í kvöld.

Slóvenar eru einmitt í riðli með íslenska landsliðinu á HM og verður þriðji og síðasti mótherji liðsins í riðlinum.

Ísland er einnig í riðli með Grænhöfðaeyjum og Kúbu. Króatar lenda með Íslandi í milliriðli en þeir eru með Argentínu, Barein og Egyptalandi í riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×