Upp­gjörið: Haukar - Galychanka Lviv 24-22 | Hauka­konur í 8-liða úr­slit Evrópu­bikarsins

Hinrik Wöhler skrifar
Haukar eru komnir áfram í 8-liða úrslit eftir tvo sigra á úkraínska liðinu Galachanka Lviv.
Haukar eru komnir áfram í 8-liða úrslit eftir tvo sigra á úkraínska liðinu Galachanka Lviv. Vísir/Anton Brink

Haukar komust áfram í 8-liða úrslit Evrópubikarkeppni kvenna þegar liðið lagði úkraínska liðið HC Galychanka Lviv með tveimur mörkum í dag. 

Leikurinn endaði 24-22 og sigruðu Haukar einvígið samanlagt með fjórum mörkum. Þetta var seinni leikur liðanna í einvíginu en báðir leikir fóru fram á Ásvöllum um helgina.

Það var frábær stemning á Ásvöllum í dag.Vísir/Anton Brink

Úkraínska liðið mætti Haukum með framliggjandi fimm-einn vörn og var Elín Klara Þorkelsdóttir tekin algjörlega úr umferð. Það myndaði pláss fyrir aðra leikmenn liðsins líkt og Rut Jónsdóttur sem fann sig vel í hægri skyttunni í upphafi leiks.

Það var mikið jafnræði með liðunum til að byrja með. Haukar skoruðu en gestirnir svöruðu um hæl. Það var talsvert um misheppnaðar sendingar og mistök í sóknarleik beggja liða.

Eftir 20 mínútur var staðan jöfn, 9-9. Í kjölfarið náðu Haukar að bæta varnarleikinn og gestirnir skoruðu aðeins eitt mark á síðustu 10 mínútum fyrri hálfleiks.

Á meðan sóknarleikur Galychanka hikstaði náðu Haukar að auka forskotið og þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 13-10, heimakonum í vil.

Hafnfirðingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og skoruðu fyrstu fimm mörkin. Haukar héldu áfram að keyra yfir gestina þegar leið á og var staðan orðin 21-12 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Allt leit út fyrir einstefnu af hálfu Hauka en gestirnir voru þó ekki búnir að kasta inn handklæðinu.

Þær úkraínsku reyna að stöðva Söru Odden.Vísir/Anton Brink

Þjálfarar Hauka nýttu tækifærið og hvíldu lykilleikmenn en þær úkraínsku voru ekki af baki dottnar. Þær röðuðu inn mörkum þegar langt var liðið á seinni hálfleik og var staðan allt í einu orðin 23-21, Haukum í vil, þegar örfáar mínútur voru eftir.

Nær komust gestirnir ekki og líkt og í fyrri leik liðanna kláruðu Haukar leikinn með tveggja marka sigri og sigruðu einvígið samanlagt 50-46.

Atvik leiksins

Á fyrstu mínútum seinni hálfleiks gekk allt upp hjá Haukum og skoruðu Hafnfirðingar fyrstu fimm mörkin. Sara Sif Helgadóttir, markvörður Hauka, lokaði markinu og sóknarleikurinn small. Þessi stutti og snarpi kafli skilaði sigrinum í dag.

Sara Sif Helgadóttir kastar sér eftir boltanum.Vísir/Anton Brink

Stjörnur og skúrkar

Þetta var liðsheildarsigur hjá Hafnfirðingum í dag og flestir leikmenn liðsins geta borið höfuðið hátt. Rut Jónsdóttir skoraði fimm mörk og var öflug í hægri skyttunni í fyrri hálfleik. Sara Sif Helgadóttir, markvörður Hauka, var í miklu stuði í upphafi seinni hálfleiks og var með tæplega 50% markvörslu í dag.

Dómarar

Sænska tvíeykið Jonathan Hummelgard og Emrik Svensson sáu um dómgæsluna á Ásvöllum í dag. Þeir voru fremur gjarnir á að dæma víti, sér í lagi í fyrri hálfleik, en vítin urðu 16 talsins í leiknum.

Það var þó samræmi hjá þeim og komust sænsku kollegarnir ágætlega frá leiknum.

Elín Klara Þorkelsdóttir er borin af velli undir lok leiks eftir ljótt brot. Vanessa Lakatosh fékk rautt spjald fyrir vikið. Vísir/Anton Brink

Stemning og umgjörð

Það var Evrópuandi yfir Ásvöllum í dag og umgjörðin var til fyrirmyndar. Það var margt um manninn á pöllunum og var öllum mörkum Hafnfirðinga fagnað af innlifun. Ungir og vaskir stuðningsmenn héldu uppi frábærri stemningu frá fyrstu mínútu með trommuslætti og söng.

Viðtöl

Stefán: „Við þurftum að hvíla leikmenn“

Stefán Arnarson kemur skilaboðum áleiðis.Vísir/Anton Brink

Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, er ánægður með að komast áfram í 8-liða úrslit þó að síðustu mínútur leiksins voru ekki upp á marga fiska.

„Þegar við náðum forskoti gáfust þær upp en síðustu 15 mínúturnar voru ekki góðar hjá okkur og ég hefði viljað klára þetta betur,“ sagði Stefán skömmu eftir leik.

Takturinn datt úr leik Hauka þegar lykilleikmenn voru hvíldir um miðbik seinni hálfleiks. Stefán segir að álagið hafi verið mikið síðustu daga.

„Við erum búnar að spila fjóra leiki á viku og spilum á móti Val á miðvikudaginn. Við þurftum að hvíla leikmenn en númer eitt er að við erum komin í 8-liða úrslit og það er frábært hjá leikmönnunum.“

Úkraínska liðið fann glufur á vörn Hauka, sér í lagi í fyrri hálfleik, og kom helmingar marka gestanna úr vítum í fyrri hálfleik. Stefán segir að hann hafi verið með aðrar áherslur í dag.

„Þær voru alltaf að skora úr langskotum í gær og nú náðum við að mæta þeim. Þær voru að fá „soft“ vítaköst en númer eitt er að bara að klára þetta.“

Haukar bíða eftir því að sjá hverjir verða mótherjar þeirra í 8-liða úrslitum en Stefán segir að þátttaka í Evrópukeppnum gefi krydd í tilveruna og það sé gott að fá tækifæri til að leika við önnur lið en hér heima.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira